Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 812  —  216. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um fósturbörn.

     1.      Hversu mörg börn hafa verið sett í fóstur að meðaltali árlega undanfarin tíu ár? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um tímabundið eða varanlegt fóstur var að ræða, eftir aldri barnsins þegar það var sett í fóstur og eftir því hve lengi hvert barn var í fóstri, einnig eftir því hvort barnið var sett í fóstur á vistheimili, hjá fjölskyldumeðlimum eða óskyldum.
    Hver barnaverndarnefnd heldur utan um fjölda barna í fóstri á hverjum tíma. Árlega skila nefndir inn upplýsingum til Barna- og fjölskyldustofu um fjölda barna á sínum vegum við lok árs. Í 65. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, segir að fóstur geti verið tvenns konar, varanlegt eða tímabundið. Um tímalengd fósturs segir í sömu grein: „Með varanlegu fóstri er átt við að það haldist þar til forsjárskyldur falla niður samkvæmt lögum [...] Með tímabundnu fóstri er átt við að fóstur vari í afmarkaðan tíma þegar ætla má að unnt verði að bæta aðstæður þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna án verulegrar röskunar á högum þess eða þegar áætlað er að annað úrræði taki við innan afmarkaðs tíma. Tímabundið fóstur skal ekki vara samanlagt lengur en tvö ár nema í algerum undantekningartilvikum þegar það þjónar hagsmunum barns.“
    Samantekt þessi tekur til áranna 2010–2020 en upplýsingar fyrir árið 2021, sem safnað er frá barnaverndarþjónustum, liggja ekki fyrir.
    Á árunum 2010–2020 var 120 börnum ráðstafað í fóstur að meðaltali á hverju ári eða á bilinu 97–154, eftir árum. Þeim börnum var ráðstafað í tímabundið fóstur, varanlegt fóstur, styrkt fóstur eða tímabundnu fóstri breytt í varanlegt.
    Barn getur verið í fóstri hjá fjölskyldumeðlimum jafnt sem óskyldum. Barn getur ekki verið í fóstri á vistheimili. Ef barn er vistað á vistheimili er sú ráðstöfun byggð á öðrum lagagrundvelli en ráðstöfun barna í fóstur.
    Á árunum 2010–2020 var 73 börnum ráðstafað í tímabundið fóstur að meðaltali á ári. Af þeim börnum sem ráðstafað var í tímabundið fóstur var 71% barna ráðstafað til óskyldra. Hæsta hlutfallið á tímabilinu var þegar 82% barna var ráðstafað til óskyldra (68 til óskyldra en 15 til skyldra), en lægsta hlutfallið á tímabilinu var 60% (50 til óskyldra en 34 til skyldra).
    Ef litið er til sama tímabils, 2010–2020, var 16 börnum ráðstafað í varanlegt fóstur að meðaltali á ári en ef taldar eru með ráðstafanir þar sem tímabundnu fóstri er breytt í varanlegt þá var 40 börnum ráðstafað í varanlegt fóstur að meðaltali á ári. Ef litið er til allra ráðstafana í varanlegt fóstur (börn sem fara úr tímabundnu fóstri í varanlegt meðtalin), fóru að meðaltali 59% barna til óskyldra. Þetta hlutfall er mjög breytilegt á milli ára en eitt árið var 88% barna ráðstafað til óskyldra (29 til óskyldra en 4 til skyldra) og annað árið var 41% barna ráðstafað til óskyldra (15 til óskyldra en 22 til skyldra). Flestum börnum er fyrst ráðstafað í tímabundið fóstur áður en þau fara í varanlegt fóstur.
    Meðalaldur barna sem fóru í tímabundið fóstur á tímabilinu 2010–2020 var 10 ár en tíðasta gildi (flest börn) var 16 ár. Aldur barnanna var frá 0 til 18 ára en miðað er við aldur barns í lok þess árs sem því var ráðstafað í fóstur.
    Meðalaldur barna sem fóru í varanlegt fóstur á tímabilinu 2010–2020 var 11 ár en tíðasta gildi (flest börn) var 15 ár. Aldur barnanna var frá 0 til 18 ára en miðað er við aldur barns í lok þess árs sem því var ráðstafað í fóstur.
    Ekki er unnt að svara 1. tölul. fyrirspurnar eftir því hve lengi börnin voru í fóstri að meðaltali. Áætluð tímalengd fósturs er tilkynnt til Barna- og fjölskyldustofu en þær upplýsingar eru óáreiðanlegur mælikvarði á hve lengi fóstrið varði í raun og veru. Fóstur getur breyst frá tímabundnu fóstri í varanlegt, tímabundið fóstur getur verið framlengt og þá getur einnig hafa orðið fósturrof og barni ráðstafað í annað fóstur. Hver barnaverndarnefnd fyrir sig býr yfir nákvæmari upplýsingum um tímalengd fósturs.

     2.      Hversu mörg fósturrof hafa átt sér stað undanfarin tíu ár? Svar óskast sundurliðað eftir því hve lengi fóstur hafði staðið yfir og aldri barna þegar fósturrof átti sér stað.
    Barna- og fjölskyldustofa býr yfir upplýsingum um fósturrof frá árinu 2012. Í svari við 2. tölul. fyrirspurnar er miðað við tímabilið 2012–2020.
    Á árunum 2012–2020 urðu samtals 93 fósturrof í tímabundnu fóstri og 78 fósturrof í varanlegu fóstri. Að meðaltali voru því 10,3 fósturrof í tímabundnu fóstri og 8,7 í varanlegu fóstri á ári á tímabilinu.
    Meðaldvalartími barns í tímabundnu fóstri, fyrir fósturrof, var 201 dagur en upplýsingar um nákvæmar dagsetningar vantar í 4% tilvika. Meðaldvalartími barns í varanlegu fóstri, fyrir fósturrof, var 1.432 dagar en upplýsingar um nákvæmar dagsetningar vantar í 8% tilvika.
    Meðalaldur barna þar sem fósturrof varð í tímabundnu fóstri var 13,9 ár. Meðalaldur barna þar sem fósturrof varð í varanlegu fóstri var 14,6 ár, en aldur barna var frá 4 til 18 ára. Í báðum tilvikum er miðað við aldur barns í lok þess árs sem fósturrof átti sér stað.

     3.      Telur ráðherra að stuðningur opinberra aðila við fósturfjölskyldur sé nægjanlegur í núverandi kerfi?
    Í gildandi framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2019–2022 eru aðgerðir sem snúa að auknum stuðningi vegna barna á fósturheimilum og auknum stuðningi við fósturforeldra. Barna- og fjölskyldustofa hefur á árinu unnið að áætlun varðandi aðstoð við fósturforeldra með börn í styrktu fóstri og markvissari stuðning og handleiðslu við fósturforeldra.
    Barna- og fjölskyldustofa og ráðuneytið telja mikilvægt að styðja við fósturforeldra sem eru með börn í varanlegu fóstri þar sem yfirvofandi er fósturrof vegna hegðunarerfiðleika barnanna. Nú þegar drög eru lögð að nýrri framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023–2026 mun ráðherra hvetja til þess að sérstök áhersla verði lögð á aðgerðir til stuðnings við börn í fóstri og fósturforeldra.