Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 843  —  202. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Bjarna Garðarssyni um sorpbrennslu.


     1.      Hefur verið gerð greining á þörf fyrir rekstur hátæknisorpbrennslustöðvar hér á landi? Ef svo er, hver er niðurstaða þeirrar greiningar?
    Sífellt vaxandi umræða um tilhögun sorpbrennslumála á Íslandi varð til þess að ráðuneytið ákvað að láta vinna greiningu á þörf fyrir sorpbrennslu árið 2020. Ljóst þótti að þó að Íslendingar næðu markmiðum sínum um bætta flokkun úrgangs og aukna endurvinnslu þá yrði ávallt einhver hluti úrgangs sem ekki væri talinn hæfur til endurvinnslu og fyrir þennan úrgang væri brennsla með orkunýtingu ákjósanlegri kostur en urðun. Brennslustöðvar með orkunýtingu eru algengar í nágrannaríkjum Íslands og eru þær hluti þeirra innviða sem nýtast til að draga úr urðun og eru nauðsynlegar til að hægt sé að tryggja viðunandi farveg fyrir allan úrgang sem fellur til. Samkvæmt heilbrigðisreglum sem gilda um aukaafurðir úr dýrum ber til að mynda að farga hluta þeirra með brennslu, auk þess sem tryggja þarf förgun sóttmengaðs úrgangs og hluta þeirra spilliefna sem falla til.
    Til að vinna áðurnefnda greiningu var fenginn óháður ráðgjafi og voru niðurstöður birtar í skýrslu með yfirskriftinni „Greining á þörf sorpbrennslustöðva á Íslandi“. Skýrslan var birt á vef Stjórnarráðsins 11. janúar 2021. Samkvæmt skýrslunni er talið að óendurvinnanlegur úrgangur hér á landi verði á bilinu 40–100 þúsund tonn á ári fram til ársins 2045. Gera má ráð fyrir að magnið verði nærri hærri mörkum bilsins ef markmiðum sem sett hafa verið um meðhöndlun úrgangs verður náð, þ.e. Ísland eykur hlutfall endurvinnslu og annarrar endurnýtingar í tilteknum úrgangsflokkum í samræmi við sett, töluleg markmið. Ef Ísland nær hins vegar enn betri árangri við innleiðingu hringrásarhagkerfis, endurvinnslu og aðra endurnýtingu þá gæti magn óendurvinnanlegs úrgangs orðið nær neðri mörkum bilsins. Til að setja þetta magn í samhengi er núverandi staða sú að ein sorpbrennslustöð er starfandi hér á landi og hefur hún getu til að brenna rúmlega 12 þúsund tonnum á ári. Því er ljóst að fyrirliggjandi brennslugeta í landinu annar ekki því magni sem þarf að brenna samhliða samdrætti í urðun úrgangs. Samkvæmt spá skýrsluhöfunda má búast við að mesta úrgangsmagnið falli til á Suðvesturlandi (84% af heild), næstmest á Norðurlandi eystra en að minnsta magnið muni falla til á Vestfjörðum og Austfjörðum.
    Í skýrslunni er fjallað um þrjár mögulegar sviðsmyndir til að mæta brennsluþörfinni: 1) Eina stóra sorpbrennslustöð á Suðvesturlandi sem hafi 90–100 þúsund tonna brennslugetu á ári, 2) fimm minni sorpbrennslustöðvar sem verði dreifðar um landið (brennslugeta hverrar þeirrar á bilinu 1.400–78.000 tonn á ári) og 3) útflutning á úrgangi til brennslu. Í öllu falli er horft til þess að brennslu úrgangsins fylgi nýting þeirrar orku sem losnar við brunann.
    Í kjölfar framangreindrar skýrslu var ráðist í ítarlegri greiningu með framkvæmd svonefnds forverkefnis um framtíðarlausn til meðhöndlunar brennanlegs úrgangs í stað urðunar. Að verkefninu stóðu Sorpa bs., Kalka sorpeyðingarstöð sf., Sorpurðun Vesturlands hf. og Sorpstöð Suðurlands bs. auk ráðuneytisins. Lauk verkefninu með skýrslu sem birt var á vef Sorpu bs. 14. desember 2021. Í skýrslunni kemur fram að enn sé mögulegt að flytja brennanlegan úrgang úr landi en tekið sé að þrengjast um þá leið. Ætla megi að sú þróun haldi áfram og að áhætta sem fylgi því að treysta á útflutning sé ekki ásættanleg fyrir sveitarfélögin. Jafnframt kemur fram að brennslustöð sem reist yrði á Íslandi þyrfti að hafa afkastagetu sem næmi allt að 130 þúsund tonnum á ári en ef fyrirætlanir um bætta flokkun og endurvinnslu gangi eftir muni 70% af þessum afköstum duga að jafnaði. Varðandi magn úrgangs sem þarf að brenna er niðurstaðan því sambærileg niðurstöðu fyrri skýrslunnar, sem ráðuneytið lét gera um brennsluþörfina.
    Í áðurnefndu forverkefni var unnið út frá þeirri forsendu að reist yrði ein stór brennslustöð til að mæta brennsluþörfinni. Áætlað var að brennsla úrgangs í slíkri stöð myndi skila 10 MW af raforku og 28 MW af varma. Einnig félli til aska, sem að stórum hluta yrði nýtanleg í vegagerð eða sem byggingarefni. Orkan yrði seld og skilaði tekjum en rekstrarkostnaði yrði þó fyrst og fremst mætt með því að innheimta svokölluð hliðgjöld. Í greiningunni var jafnframt fjallað um staðarval fyrir brennslustöðina og gerður samanburður á mögulegri staðsetningu hennar í Helguvík, Álfsnesi, Straumsvík, Þorlákshöfn og á Grundartanga. Niðurstaða varð að hagstæðast væri að staðsetja stöðina í Álfsnesi með tilliti til flutningshagkvæmni, möguleika til sölu á orku, jákvæðrar afstöðu samfélagsins, landrýmis til uppbyggingar, hæfilegrar fjarlægðar frá íbúabyggð, aðgengis að vinnuafli, möguleika til föngunar á koldíoxíði úr útblæstri stöðvarinnar og hættu á náttúruvá. Samkvæmt greiningunni eru taldar um 80% líkur á að endanlegur kostnaður við uppbyggingu stöðvarinnar yrði á bilinu 20,2–35,4 milljarðar króna. Um er að ræða afar grófa kostnaðaráætlun og engin hönnun hefur farið fram. Áætlaður rekstrarkostnaður yrði á bilinu 8.500–12.000 krónur á hvert tonn úrgangs sem brennt væri. Varðandi rekstrarform kemur fram í skýrslunni að gengið hafi verið út frá því að um yrði að ræða samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila. Greining á möguleikum til fjármögnunar leiddi enn fremur í ljós að áhugi á verkefninu er meðal helstu fjárfesta og fjármögnunaraðila en afla þurfi frekari upplýsinga og þróa verkefnið áfram. Í skýrslunni kemur fram að áhugi fjárfesta grundvallist á væntingum um örugga ávöxtun á fjármagni með fjárfestingu í mikilvægum innviðum sem fela í sér trygga tekjustofna. Þess vegna séu langtímasamningar um framboð brennanlegs úrgangs og hæfileg hliðgjöld forsenda fyrir áhuga fjárfesta.

     2.      Hver er framtíðarsýn og skoðun ráðherra á rekstri og fyrirkomulagi slíkrar stöðvar eða stöðva á Íslandi?
    Í júní 2021 kom út heildarstefna ráðherra í úrgangsmálum, Í átt að hringrásarhagkerfi. Í stefnunni birtist sú framtíðarsýn að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Í því augnamiði verði komið á virku hringrásarhagkerfi þar sem dregið verði verulega úr myndun úrgangs, endurvinnsla aukin og urðun hætt. Langstærstur hluti beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs á Íslandi er vegna urðunar. Aukin og bætt flokkun úrgangs er einn lykilþátta í þessu sambandi, í þeim tilgangi að skila sem mestu og bestu hráefni til endurvinnslu. Eins og kemur fram hér að framan má búast við að þrátt fyrir aukna og bætta flokkun úrgangs verði ávallt einhver hluti úrgangs sem ekki er talinn hæfur til endurvinnslu og ráðstafa þarf með öðrum hætti. Það er mikilvægt loftslagsmál að hætta urðun úrgangs, einkum lífræns úrgangs, og brennsla með orkunýtingu er því ákjósanlegri ráðstöfunarleið fyrir þennan úrgang. Jafnframt því sem aðkallandi er að tryggja viðunandi förgun dýraleifa hér á landi, auk þess sem mikilvægt er að tryggja að fullu viðunandi farvegi fyrir sóttmengaðan úrgang og spilliefni sem þarf að farga.
    Mikilvægt er að horfa til þess að það er lögbundið hlutverk sveitarstjórna að sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til, sbr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Það eru því sveitarstjórnir sem fara með ákvörðunarvald þegar kemur að uppbyggingu brennslulausna, þótt mikilvægt sé að áhugasamir einkaaðilar og ríkið komi að málum.
    Grundvallaratriði er að brennsluþörfinni verði mætt eins og kostur er með brennslulausnum sem fela í sér orkunýtingu, svo að í þeim felist endurnýting úrgangs fremur en förgun, auk þess sem mikilvægt er að nýta þá orku sem býr í viðkomandi úrgangi. Jafnframt er nauðsynlegt að tryggja eins og frekast er unnt að hugsanleg uppbygging innviða hér á landi til brennslu verði ekki umfram áætlaða þörf og leiði ekki til samkeppni við endurvinnslufarvegi um úrgang en um leið er nauðsynlegt að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að þeim lausnum sem ákveðnar verða. Mikilvægt er að læra af reynslu annarra ríkja í þessu sambandi. Allt kallar þetta á heildstæða nálgun gagnvart viðfangsefninu, yfirsýn og samstarf meðal sveitarfélaganna. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að leita hagkvæmustu leiða til að kostnaður verði ekki of íþyngjandi fyrir almenning og fyrirtæki í landinu.
    Sameiginlegur vilji er meðal umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Sorpu bs. til að hefja vinnu við að móta næstu skref í málinu, mynda vettvang til samstarfs um málið og greina nánar mögulegar sviðsmyndir. Mikilvægt er að fá fleiri landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga að vinnunni.