Ferill 463. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 949  —  463. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur um skólavist barna á flótta.


     1.      Hve mörg börn á flótta hafa beðið lengur en þrjár vikur eftir að hefja grunnskólagöngu á árinu 2022?
    Hjá ráðuneytinu liggja ekki fyrir upplýsingar um hve mörg börn á flótta hafa beðið lengur en þrjár vikur eftir að hefja skólagöngu. Almennt er miðað við að börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd séu komin í almennan skóla eða annað úrræði til menntunar innan fjögurra vikna frá því að þau hófu að fá þjónustu Vinnumálastofnunar, sbr. 27. gr. reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga.

     2.      Hver er lengsti biðtími barna á flótta eftir að hefja grunnskólagöngu á árinu 2022?
    Lengsti biðtími sem ráðuneytið veit um að barn hafi beðið eftir að hefja skólagöngu er frá apríl 2022 til október 2022.

     3.      Hve mörg börn á flótta bíða nú eftir skólavist í grunnskóla, hve lengi hafa þau beðið og í hvaða sveitarfélagi eru þau búsett?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið aflaði frá sveitarfélögum og Vinnumálastofnun í janúar 2023 eru alls 55 börn umsækjendur um alþjóðlega vernd sem bíða eftir að hefja grunnskólagöngu. Börn hefja ekki skólagöngu fyrr en þau hafa lokið heilbrigðisskoðun og því má skipta hópnum í tvennt, annars vegar þau sem eru að bíða eftir heilbrigðisskoðun og hafa því ekki hafið skólagöngu og hins vegar þau sem hafa lokið heilbrigðisskoðun og eru að bíða eftir að hefja grunnskólagöngu. Um er að ræða 22 börn sem hafa lokið heilbrigðisskoðun en ekki hafið skólagöngu. Tvö börn hafa beðið eftir að hefja skólagöngu frá því í október. Önnur börn hafa beðið frá því í nóvember að hefja almenna skólagöngu.

Heild Bíða eftir heilbrigðisskoðun Bíða eftir að hefja skólagöngu
Reykjanesbær 5 3 2
Hafnarfjörður 50 35 15
Reykjavík 8 3 5