Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 958  —  260. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um kostnað við sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver var kostnaður ríkissjóðs við sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, sundurliðað eftir:
     a.      launakostnaði,
     b.      kostnaði vegna breytinga á húsnæði,
     c.      kostnaði vegna breytinga á fjármögnun Fjármálaeftirlitsins og
     d.      öðrum mögulegum viðbótarkostnaði, ótilgreindum?


    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og byggir að mestu leyti á þeim svörum sem bankinn veitti.

    a. Samkvæmt lögum nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, var Fjármálaeftirlitið lagt niður 1. janúar 2020 og starfsemin sameinuð Seðlabanka Íslands. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins fluttust til Seðlabankans og yfirtók bankinn ráðningarsamninga þeirra. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins urðu þannig starfsmenn Seðlabankans með óbreyttum ráðningarkjörum og aðild að stéttarfélagi. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hefur sameiningin ekki leitt til aukins launakostnaðar, enda hafi starfsmönnum fækkað lítillega eftir sameininguna.
    Í kjölfar sameiningar urðu breytingar á stjórn og nefndum Seðlabankans. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum jókst kostnaður vegna tveggja nýrra nefnda sem stofnaðar voru, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar, en peningastefnunefnd hafði starfað frá árinu 2009. Samkvæmt lögum nr. 92/2019 sitja sex ytri nefndarmenn í nýju nefndunum auk þeirra tveggja sem þegar voru í peningastefnunefnd. Þá kváðu lögin á um tvær nýjar stöður varaseðlabankastjóra til viðbótar þeirri sem fyrir var. Þessar breytingar fólu í sér hækkun á launakostnaði vegna fjölgunar ytri nefndarmanna í fastanefndum bankans. Á móti féll niður kostnaður vegna ytri nefndarmeðlims í kerfisáhættunefnd þar sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn höfðu átt sameiginlega aðkomu. Þá féll einnig niður kostnaður við stjórn Fjármálaeftirlitsins um áramót 2020 auk þess sem staða aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins var lögð niður. Forstjóri eftirlitsins var skipaður í stöðu varaseðlabankastjóra og þá var sá aðstoðarseðlabankastjóri sem fyrir var einnig skipaður varaseðlabankastjóri. Æðstu yfirstjórnendur í sameinaðri stofnun urðu því jafnmargir og áður hafði verið hjá stofnunum tveimur. Heilt yfir er viðbótarkostnaður lítill vegna nýrra fastanefnda miðað við stjórn og nefndir sem voru starfandi hjá stofnununum fyrir sameiningu.
    Starfshópur, skipaður af forsætisráðherra, undirbjó sameininguna en í honum sátu m.a. tveir skrifstofustjórar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og einn frá forsætisráðuneytinu sem jafnframt var formaður. Þá unnu sérfræðingar ráðuneytanna að annarri undirbúningsvinnu, m.a. í tengslum við gerð lagafrumvarpa, þ.m.t. sex sérfræðingar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ekki var haldið sérstaklega utan um launakostnað í tengslum við þessa vinnu.
    b. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka standa framkvæmdir enn yfir við breytingar og endurbætur á húsnæði bankans og telur hann ekki unnt á þessu stigi að gefa upplýsingar um heildarkostnaðinn. Seðlabankinn hefur bent á að í framkvæmdunum felist bæði brýnar endurbætur og breytingar sem nauðsynlegar voru til þess að starfsemi bankans gæti rúmast í húsnæði Seðlabankans. Á móti breytinga- og endurbótakostnaði mun koma til langtímasparnaður sökum þess að leigusamningi var sagt upp við Katrínartún þar sem Fjármálaeftirlitið var áður til húsa.
    c. Bankinn telur að ekki verði séð að kostnaður hafi fallið til vegna breytinga á fjármögnun eftirlitsstarfseminnar sem er með óbreyttu sniði eftir sameininguna.
    d. Í aðdraganda sameiningarinnar féll til 24,6 m.kr. kostnaður hjá Seðlabanka Íslands vegna ráðgjafar og samþættingar ýmissa tölvukerfa og heimasíðna. Þá féll til 7,9 m.kr. kostnaður hjá forsætisráðuneytinu, á tímabilinu 2018–2019, við kaup á lögfræðilegri þjónustu vegna sameiningarinnar.