Ferill 599. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 960  —  599. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, með síðari breytingum (skráning barna og úrsögn).

Flm.: Hildur Sverrisdóttir, Haraldur Benediktsson, Helga Vala Helgadóttir, Dagbjört Hákonardóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „16 ára“ í 1. mgr. kemur: 12 ára.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                 Barn getur frá fæðingu heyrt til trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða verið utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga með eftirfarandi hætti:
                  1.      Fari báðir foreldrar barns með forsjá þess skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra til. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.
                  2.      Fari einungis annað foreldrið með forsjá barns tekur það foreldri ákvörðun um hvort og þá hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra til. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind.
     c.      3. mgr. fellur brott.

2. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Úrsögn úr skráðu trúfélagi, lífsskoðunarfélagi eða þjóðkirkjunni skal beint skriflega til Þjóðskrár. Skal Þjóðskrá tilkynna hlutaðeigandi félagi um úrsögnina.


3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2023.

Greinargerð.

    Samkvæmt gildandi lögum geta þeir sem náð hafa 16 ára aldri sjálfir tekið ákvörðun um inngöngu í eða úrsögn úr skráðu trú- eða lífsskoðunarfélagi. Í 3. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að vilji foreldri eða forráðamaður breyta trúfélagsskráningu barns skuli leita álits þess hafi það náð 12 ára aldri. Því er sérstaklega gert ráð fyrir því í lögunum að 12 ára gamalt barn hafi nægilegan þroska til að hafa skoðun á því í hvaða trú- eða lífsskoðunarfélag það er skráð. Þar af leiðandi sé rétt að veita börnum þann rétt að ákveða félagsaðild sína við 12 ára aldur, enda engin haldbær rök fyrir því að takmarka frelsi þeirra sem hafa náð þeim aldri til að velja sér trú- eða lífsskoðunarfélag.
    Í lögunum er jafnframt sá háttur hafður á að börn skuli skrá í sama trú- eða lífsskoðunarfélag og foreldrar þess. Því eru börn skráð í trú- eða lífsskoðunarfélög án samþykkis þeirra sjálfra eða foreldra eða forráðamanna þeirra. Slík framkvæmd samrýmist illa félagafrelsinu sem nýtur verndar skv. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Ungbarn getur eðli máls samkvæmt ekki tekið neinar ákvarðanir um félagsaðild og ráða foreldrar þess persónulegum högum þess, sbr. 1. mgr. 51. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997. Því er rétt að ákvörðun um félagsaðild barna sé eingöngu á hendi foreldra þeirra. Með sjálfkrafa skráningu barns í trú- eða lífsskoðunarfélag að foreldrum þess forspurðum er vegið að félagafrelsi barna. Tryggja þarf að ríkisvaldið komi ekki að ákvörðun um félagsaðild barna, hvorki með sjálfkrafa skráningu né öðrum leiðum. Félagafrelsið er nátengt tjáningar- og skoðanafrelsinu, enda felur aðild að trú- eða lífsskoðunarfélagi í sér afstöðu til þeirrar trúar- eða lífsskoðunar sem býr að baki því félagi. Af þeim sökum er rík ástæða til að afnema sjálfkrafa skráningu barna í slík félög.
    Í félagafrelsi felst ekki einungis frelsi til að ganga í eða stofna félög, heldur einnig frelsi til að standa utan félaga. Upplýst samþykki einstaklings eða eftir atvikum forráðamanns hans þarf ávallt að vera fyrir hendi við skráningu hans í tiltekið félag. Frá því má eingöngu víkja þegar nauðsynlegt er til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Slík rök eru ekki fyrir hendi við skráningu í trúfélög. Því er lagt til að ákvæði laganna sem kveða á um sjálfkrafa skráningu barns í trúfélag falli brott og skráning í trúfélag verði ákveðin af foreldrum eða forráðamönnum barns.
    Þá er í lögunum mælt fyrir um að við úrsögn úr skráðu trúfélagi, lífsskoðunarfélagi eða þjóðkirkjunni skuli beina beiðni um úrsögn skriflega eða með persónulegri tilkynningu til forstöðumanns þess félags sem í hlut á. Sú framkvæmd er þeim annmarka háð að í vissum tilvikum á úrsögn úr trúfélögum, lífsskoðunarfélögum eða þjóðkirkjunni rætur sínar að rekja til afstöðu þess sem vill yfirgefa félagið til forstöðumanns félagsins eða annarra sem að því standa. Dæmi eru um að ofbeldi sé beitt innan félaga sem heyra undir lögin. Íþyngjandi getur verið fyrir einstakling sem hefur orðið fyrir slíku ofbeldi að þurfa að leita til sama fólks og braut gegn honum til þess að segja sig úr félaginu. Að auki er ferlið við að segja sig úr félagi óþarflega flókið þar sem gerð er krafa um að beiðni verði að senda til forstöðumanns félags, sem skal í kjölfarið koma þeim upplýsingum til Þjóðskrár. Því er lagt til að kveðið verði á um að beiðni um úrsögn úr félagi samkvæmt lögunum skuli beint til Þjóðskrár, sem tilkynni svo félaginu um úrsögnina.