Ferill 662. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1032  —  662. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2022.


1. Inngangur.
    Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þingmanna frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Á hefðbundnu starfsári kemur ráðið saman tvisvar, annars vegar á þemaráðstefnu að vetri og hins vegar á ársfundi að hausti. Á árinu 2022 fóru hins vegar fram tvær þemaráðstefnur auk ársfundar þar sem ráðstefnu ársins 2021 hafði verið frestað vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Fyrri þemaráðstefnan fór fram á Akureyri í janúar. Vegna heimsfaraldurs fór ráðstefnan fram með blönduðu sniði þar sem hluti þátttakenda sat ráðstefnuna í Hofi á Akureyri en stærstur hluti þátttakenda tengdist henni í gegnum fjarfundarbúnað. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Aðgerðir í loftslagsmálum og græn umskipti á Vestur-Norðurlöndum“ og var því sérstök áhersla lögð á aukið samstarf og samhæfðar aðgerðir Færeyja, Grænlands og Íslands í umhverfis- og loftslagsmálum. Málefni hafsins voru þar ofarlega á baugi, en einnig voru helst nefnd til sögunnar orkumál og samgöngur. Þá var mikilvægi Akureyrar sem miðstöðvar samstarfs og rannsókna um norðurslóðir á Íslandi einnig dregið fram og grænar lausnir hjá sveitarfélaginu kynntar.
    Síðari þemaráðstefnan fór fram í Qaqortoq á Suður-Grænlandi í júní. Á ráðstefnunni var sérstök áhersla lögð á framtíðarmöguleika ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum en þar bar hæst umræðu um áhrif loftslagsmála og samkomutakmarkana á líf ungmenna. Á ráðstefnunni komu fram hugmyndir að nýjum ályktunum Vestnorræna ráðsins um menntun í umhverfismálum, kennslu í tungumálum vestnorrænu landanna, stofnun vestnorræns ungmennaráðs og aukinn stuðning við Norður-Atlantshafsbekkinn – NGK.
    Ársfundur ráðsins var haldinn í Nuuk á Grænlandi í lok ágúst og þar bar helst á góma samstarf vestnorrænna landa við nágrannalönd. Á ársfundinum voru jafnframt samþykktar fjórar ályktanir þar sem áhersla var lögð á samanburð á reynslu landanna þriggja og stefnumörkun í ólíkum málaflokkum. Ályktanirnar kveða á um samanburð á heilbrigði og líðan ungmenna, stefnum landanna í ferðaþjónustu með tilliti til náttúruverndar og framfylgd áætlunar norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál, ásamt viðauka um jöfn réttindi og möguleika hinsegin fólks í öllum löndunum þremur. Að auki var lagt til að fela ríkisstjórnum Vestur-Norðurlanda að skila Vestnorræna ráðinu sameiginlegum skýrslum um framfylgd ályktana ráðsins. Í tengslum við ársfundinn var einnig skrifað undir samstarfssamning Vestnorræna ráðsins við þingmannanefnd um norðurskautsmál sem ætlað er að styrkja samstarf þessara tveggja samtaka enn frekar. Samningurinn kveður meðal annars á um gagnkvæman þátttökurétt á fundum Vestnorræna ráðsins og þingmannanefndarinnar. Í lok ársfundar var Steinunn Þóra Árnadóttir kjörin nýr formaður Vestnorræna ráðsins.
    Steinunn Þóra Árnadóttir ávarpaði málstofu í Norræna húsinu í tilefni af degi Norðurlandanna þann 23. mars en að þessu sinni bar daginn upp á 100 ára afmæli Norræna félagsins. Þar lagði hún áherslu á mikilvægi þess að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði en þema fundarins var friður, frelsi og lýðræði. Hún kom meðal annars inn á það hversu alvarlegar afleiðingar slys gætu haft á svæðinu og sagði mikilvægt að gleyma ekki þessu svæði í allri umræðu um Norðurlönd. Þá flutti Steinunn einnig opnunarávarp á opnum fundi í Veröld -húsi Vigdísar í tilefni af vestnorræna deginum þann 23. september þar sem hún fjallaði meðal annars um nýjar áherslur og ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar höfðu verið á ársfundi ráðsins í ágúst. Þá tók Steinunn Þóra einnig upp erindi fyrir vestnorræna daginn sem haldinn var í sendiskrifstofum vestnorrænu landanna í Peking.
    Steinunn Þóra og Kristrún Frostadóttir tóku þátt í þingi Hringborðs norðurslóða í október þar sem Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum, annars vegar um samvinnu Vestur-Norðurlandanna í Norður-Atlantshafi og hins vegar um græna nýsköpun og tækifæri fyrir ungmenni á vestnorræna svæðinu. Þá fundaði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins með fulltrúum Evrópuþingsins í Reykjavík 20. september 2022 þar sem áhersla var lögð á norðurslóðamál, loftslags- og orkumál.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Lögþing Færeyja, Landsþing Grænlands (Inatsisartut) og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk 24. september 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Stofnun ráðsins var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna á ýmsum sviðum; bæði með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum. Á aðalfundi árið 1997 var samþykktur nýr stofnsamningur og nafni samtakanna um leið breytt í Vestnorræna ráðið. Á sama fundi voru markmið samstarfsins skerpt, nýjar vinnureglur samþykktar, ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins og ráða framkvæmdastjóra. Árið 2016 var ákveðið að auka við fjárráð ráðsins og ráða annan starfsmann í hálft starf til að sinna málefnum norðurslóða og Norðurskautsráðs. Lögþing Færeyinga, Alþingi Íslendinga og Landsþing Grænlendinga velja hvert um sig sex fulltrúa til setu í Vestnorræna ráðinu, þ.e. átján fulltrúa alls.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt.
    Vestnorræna ráðið kemur saman tvisvar á ári, til þemaráðstefnu í janúar og til ársfundar í ágúst eða byrjun september. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd samanstendur af einum fulltrúa frá hverju landi, formanni, fyrsta varaformanni og öðrum varaformanni. Formennska í ráðinu skiptist árlega á milli landanna þriggja. Ráðið getur einnig skipað sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Ársfundur samþykkir ályktanir um ýmis mál sem síðan eru teknar til umfjöllunar í þjóðþingum landanna sem þingsályktunartillögur. Á hverjum ársfundi er tekin ákvörðun um hvaða þema verður tekið fyrir á þemaráðstefnu ráðsins árið eftir.
    Árið 2002 var undirrituð yfirlýsing um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda. Með yfirlýsingunni var kveðið á um að ríkisstjórnir landanna þriggja gæfu ráðinu skýrslu um stöðu framkvæmda gildandi ályktana fyrir ársfund ráðsins. Forsætisnefnd gæfist auk þess tækifæri til að funda með ráðherrum landanna í tengslum við Norðurlandaráðsþing ár hvert. Eftir því sem kostur væri tækju ráðherrar landanna einnig þátt í fundum Vestnorræna ráðsins.
    Vestnorræna ráðið vinnur jafnframt að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi. Árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og var hann tekinn til endurskoðunar á árinu 2021. Samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að taka ályktanir Vestnorræna ráðsins til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins og sú þriðja árið 2016 sem fjallaði um sjálfbæra svæðisbundna þróun á norðurslóðum.
    Árið 2008 komu Vestnorræna ráðið og Evrópuþingið sér saman um að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og árið 2016 gerði ráðið jafnframt samning um samstarf við Hringborð norðurslóða. Loks gerði Vestnorræna ráðið samstarfssamning við þingmannanefnd um norðurskautsmál í tengslum við ársfund ráðsins í ágúst 2022 sem veitir Vestnorræna ráðinu og þingmannanefndinni gagnkvæman þátttökurétt hvoru á fundum annars og kveður á um árlegan fund formannanna tveggja í tengslum við aðra fundi sem bæði samtök sækja.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í upphafi árs 2022 voru aðalmenn í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins þau Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, varaformaður, þingflokki Flokks fólksins, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristrún Frostadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingflokki Viðreisnar, og Þórarinn Ingi Pétursson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Orri Páll Jóhannsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Jakob Frímann Magnússon, þingflokki Flokks fólksins, Hildur Sverrisdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðbrandur Einarsson, þingflokki Viðreisnar, og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks.
    Þann 24. febrúar 2022 tók Eyjólfur Ármannsson sæti Ásthildar Lóu Þórsdóttur sem aðalmaður í Vestnorræna ráðinu fyrir hönd Flokks fólksins.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd um málefni norðurslóða var Kristrún Frostadóttir og varamaður Þórarinn Ingi Pétursson.
    Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins tók virkan þátt í starfi ráðsins á árinu og vann að framgangi vestnorrænna mála á Alþingi. Íslandsdeildin lagði fram tillögu til þingsályktunar á 152. þingi um framfylgd tveggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundinum 2021. Ályktanirnar fjalla um aukið samstarf milli Grænlands, Færeyja og Íslands á vettvangi umhverfis- og loftslagsmála og um samstarf vestnorrænna háskóla um fjarkennslu. Þingsályktunartillagan var samþykkt á Alþingi í júní 2022.
    Íslandsdeild hélt átta fundi á árinu 2022, og þar af einn fjarfund, þar sem þátttaka í fundum ráðsins var undirbúin og starf ráðsins rætt. Þá fór einn fundur Íslandsdeildar fram á sendiskrifstofu Færeyja í Reykjavík þar sem alræðismaður Færeyja á Íslandi, Halla Nolsøe Poulsen, tók á móti Íslandsdeildinni og fjallað um tengsl Íslands og Færeyja.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2022.
    Tvær þemaráðstefnur Vestnorræna ráðsins fóru fram á árinu, sú fyrri var haldin með blönduðu sniði á Akureyri í janúar og sú síðari í júní í Qaqortoq á Suður-Grænlandi. Þemaráðstefnan á Grænlandi átti upphaflega að fara fram árið 2021 en var frestað um eitt ár vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Vestnorræna ráðið kom aftur saman á Grænlandi á ársfundi ráðsins í ágúst. Forsætisnefnd ráðsins átti fund með Evrópuþinginu í Reykjavík í september og tók þátt í ráðstefnu Hringborðs norðurslóða í október og þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í nóvember.

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins 26. janúar 2022.
    Af hálfu Alþingis tóku þátt í ráðstefnunni Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, auk Lárusar Valgarðssonar, alþjóðaritara. Þemaráðstefnan bar yfirskriftina Aðgerðir í loftslagsmálum og græn umskipti á Vestur-Norðurlöndum. Ráðstefnan var haldin með blönduðu fyrirkomulagi þar sem hluti fyrirlesara kom saman á Akureyri en þingmenn Vestnorræna ráðsins tengdust fundinum gegnum fjarfundarbúnað (sjá fylgiskjal I).

Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 11. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Helsta verkefni fundarins var undirbúningur þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins á Suður-Grænlandi í júní (sjá fylgiskjal II).

Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 16. maí.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var undirbúningur fyrir þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í júní og ársfund ráðsins í lok ágúst (sjá fylgiskjal III).

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins í Qaqortoq, Grænlandi, 15.–17. júní 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Ásmundur Friðriksson, Kristrún Frostadóttir, Þórarinn Ingi Pétursson og Jakob Frímann Magnússon, varamaður, ásamt Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Þemaráðstefnan bar yfirskriftina Framtíðarmöguleikar ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum og voru áhrif loftslagsmála og samkomutakmarkana vegna COVID-19 á líf ungmenna í brennidepli (sjá fylgiskjal IV).

Fjarfundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 15. ágúst 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá fundarins voru skipulagning ársfundar ráðsins í lok ágúst í Nuuk (sjá fylgiskjal V).

Ársfundur Vestnorræna ráðsins í Nuuk á Grænlandi 30.–31. ágúst 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, Kristrún Frostadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Á fundinum var meðal annars rætt samstarf vestnorrænna landa við nágrannalönd sín. Undir þeim lið fjallaði Vivian Motzfeldt, ráðherra utanríkis- og efnahagsmála á Grænlandi, um nýlegan samstarfssamning Grænlands við Núnavút-héraðið í Kanada og Jenis av Rana, ráðherra utanríkis- og menntamála í Færeyjum, greindi frá áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu á samskipti Færeyinga við Rússa. Ársfundurinn samþykkti jafnframt fjórar ályktanir sem sendar verða til ríkisstjórna og þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar (sjá fylgiskjal VI).

Fundur Vestnorræna ráðsins með Evrópuþinginu í Reykjavík 20. september 2022.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Íslandsdeildar og formaður Vestnorræna ráðsins, Kristrún Frostadóttir, fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd Vestnorræna ráðsins um norðurslóðamál, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá voru norðurslóðamál, loftslagsmál og orkumál, með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og græn umskipti (sjá fylgiskjal VII).

Veiting barna- og unglingabókmenntaverðlauna Vestnorræna ráðsins í Kaupmannahöfn 6. október 2022.
    Af hálfu Alþingis sótti fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Íslandsdeildar og formaður Vestnorræna ráðsins. Þann 6. október 2022 fór fram veiting barna- og unglingabókmenntaverðlauna Vestnorræna ráðsins í Kaupmannahöfn og kom það í hlut Steinunnar Þóru Árnadóttur, sem formanns Vestnorræna ráðsins, að afhenda verðlaunin. Þau Dánial Hoydal og Annika Øyrabø frá Færeyjum hrepptu verðlaunin í ár fyrir bókina Afi og ég og afi en auk hennar voru tilnefndar bækurnar Dýrin halda þing um mengun jarðarinnar eftir Kent Kielsen frá Grænlandi og Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason.


Þátttaka forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins á þingi Hringborðs norðurslóða í Reykjavík 13.–16. október 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þing Hringborðs norðurslóða Steinunn Þóra Árnadóttir formaður og Kristrún Frostadóttir auk Axels Viðars Egilssonar, sérfræðings í alþjóðamálum. Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum á ráðstefnunni, annars vegar um samvinnu Vestur-Norðurlanda í Norður-Atlantshafi og hins vegar um græna nýsköpun og ný tækifæri fyrir ungmenni á vestnorræna svæðinu. Þá átti Vestnorræna ráðið fund með James Stockan, forseta sveitarstjórnar Orkneyja (sjá fylgiskjal VIII).

Þátttaka í 74. þingi Norðurlandaráðs í Helsinki 1.–3. nóvember 2022.
    Af hálfu Íslandsdeildar og Vestnorræna ráðsins sóttu þingið Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins. Í brennidepli á þinginu voru öryggismál, stríðið í Úkraínu, og orku- og loftslagskreppan. Þá var þess einnig minnst að Norðurlandaráð fagnaði 70 ára afmæli á árinu 2022. Steinunn Þóra ávarpaði þing Norðurlandaráðs fyrir hönd Vestnorræna ráðsins. Í ræðu sinni lagði hún áherslu á mikilvægi samstarfs Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs og þess sem ráðin gætu lagt af mörkum til heimsmálanna, hvort sem það sneri að friði, loftslagsvánni, jafnréttismálum eða öðru. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði í tengslum við Norðurlandaráðsþingið og átti ýmsa tvíhliða fundi samhliða þinginu.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 30.–31. ágúst 2022.
          Ályktun nr. 1/2022, um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins.
          Ályktun nr. 2/2022, um ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum.
          Ályktun nr. 3/2022, um útlistun og samanburð á áætlunum og fyrirkomulagi vestnorrænu landanna í náttúrutengdri ferðaþjónustu og aðgengi að náttúru.
          Ályktun 4/2022, um vestnorrænt samstarf á sviði jafnréttis.

Alþingi, 31. janúar 2023.

Steinunn Þóra Árnadóttir,
formaður.
Eyjólfur Ármannsson,
varaformaður.
Ásmundur Friðriksson.
Kristrún Frostadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.



Fylgiskjal I.


Frásögn af þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins á Akureyri og á fjarfundi 26. janúar 2022.


    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin með blönduðu fyrirkomulagi þar sem hluti fyrirlesara kom saman á Akureyri en þingmenn Vestnorræna ráðsins tengdust fundinum gegnum fjarfundarbúnað. Af hálfu Alþingis tóku þátt í ráðstefnunni Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, auk Lárusar Valgarðssonar, alþjóðaritara.
    Þemaráðstefnan bar yfirskriftina „Aðgerðir í loftslagsmálum og græn umskipti á Vestur-Norðurlöndum“. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins var gestgjafi ráðstefnunnar sem haldin var í Hofi á Akureyri og á fjarfundi í Teams.
    Þemaráðstefnan dró fram mikilvægi Akureyrar sem miðstöðvar samstarfs og rannsókna um norðurslóðir á Íslandi. Kynntar voru grænar lausnir hjá sveitarfélaginu og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar og formaður Vettvangs bæjarstjóra á norðurslóðum, bauð ráðstefnugesti velkomna, ásamt Steinunni Þóru Árnadóttur, formanni Íslandsdeildar, og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
    Ráðherra flutti einnig ávarp um aðgerðir í loftslagsmálum og græn umskipti á Vestur-Norðurlöndum og frekara vestnorrænt samstarf á sviði loftslagsmála. Ávarp fluttu að auki Kalistat Lund, landbúnaðar-, sjálfsnægta-, orku- og umhverfisráðherra Grænlands, og Magnus Rasmussen, umhverfis- og iðnaðarráðherra Færeyja. Eftir ávörpin voru pallborðsumræður með þátttöku ráðherranna og forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins, sem í sitja Pipaluk Lynge-Rasmussen, Grænlandi, formaður Vestnorræna ráðsins, Steinunn Þóra Árnadóttir, Íslandi, 1. varaformaður ráðsins, og Edva Jacobsen, Færeyjum, 2. varaformaður ráðsins.
    Í pallborðsumræðunum kom fram að vestnorrænu loftslagsráðherrarnir voru jákvæðir gagnvart ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2021, um aukið samstarf og samhæfðar aðgerðir Færeyja, Grænlands og Íslands í umhverfis- og loftslagsmálum. Kalistat Lund hvatti til að ráðherrarnir funduðu reglulega, og tóku Guðlaugur Þór Þórðarson og Magnus Rasmussen vel í það. Formaður Vestnorræna ráðsins, Pipaluk Lynge-Rasmussen, og forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins lýstu yfir ánægju sinni með afstöðu ráðherranna og formaðurinn þakkaði grænlenska ráðherranum fyrir að hefja samtalið um ráðherrafundi. Loftslagsráðherrarnir bentu á ýmsa mögulega fleti aukins samstarfs. Málefni hafsins voru þar ofarlega á baugi, en einnig voru helst nefnd til sögunnar orkumál og samgöngur.
    Á þemaráðstefnunni voru að auki ýmsar framsögur fræðimanna og sérfræðinga varðandi loftslagsmál og græn umskipti. Framsögu um stöðu loftslagsmála og framtíðarhorfur þeim tengdar í vestnorðri höfðu þau Josephine Nymand hjá Náttúrufræðistofnun Grænlands, Halldór Björnsson hjá Veðurstofu Íslands og Hjálmar Hátún hjá Haffræðistofnun Færeyja.
Guðmundur Haukur Sigurðarson hjá Vistorku á Akureyri, Johannes Jensen hjá Tengslaneti um sjálfbært atvinnulíf í Færeyjum og Nicklas Birkely og Rasmus Jakobsen hjá Grænlenskum gróðurhúsum á Grænlandi kynntu grænar lausnir á Vestur-Norðurlöndum.
    Þá var einn hluti ráðstefnunnar tileinkaður samstarfi um rannsóknir á loftslagsmálum á norðurslóðum sem stýrt er frá Akureyri. Samstarfið var kynnt af Federicu Scarpa hjá Norðurslóðaneti Íslands, Tom Barry hjá CAFF-vinnuhópi Norðurslóðaráðsins, Soffíu Guðmundsdóttur hjá PAME-vinnuhópi Norðurslóðaráðsins og Níels Einarssyni hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
    Í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um aðgerðir í loftslagsmálum og græn umskipti í vestnorðri voru einnig kynntar tilnefningar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Vestnorræna ráðsins árið 2022. Tilnefndar eru bækurnar Afi og ég og afi eftir Dánial Hoydal og Anniku Øyrabø frá Færeyjum, Dýrin halda þing um mengun jarðarinnar eftir Kent Kielsen frá Grænlandi og Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason. Verðlaunin verða afhent haustið 2022.


Fylgiskjal II.


Frásögn af fjarfundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 11. apríl 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Edva Jacobsen, formaður landsdeildar Færeyja, Anders Olsen, meðlimur grænlensku landsdeildarinnar, Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Poula Árnadóttir Lervig og Annika Mouritsen, starfsmenn færeysku landsdeildarinnar, og Sakarias Amondsen, starfsmaður grænlensku landsdeildarinnar.
    Helsta verkefni fundarins var undirbúningur þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins, sem fram fór á Suður-Grænlandi í júní. Forsætisnefnd ræddi einnig þema fyrir starfsár ráðsins 2022–2023. Nokkrar tillögur voru viðraðar og ákveðið að bera málið undir ráðsmeðlimi á komandi þemaráðstefnu á Grænlandi í júní. Framkvæmdastjóri kynnti fyrirætlanir um málstofur á Hringborði norðurslóða í október, þar á meðal um samspil grænna umskipta og kynjasjónarmiða og um Norður-Atlantshaf sem samskiptaæð. Þá voru einnig rædd drög að samstarfssamningi Vestnorræna ráðsins við þingmannanefnd norðurskautsmála, SCPAR.


Fylgiskjal III.


Frásögn af fjarfundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 16. maí 2022.


    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins kom saman á fjarfundi. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Edva Jacobsen, formaður landsdeildar Færeyja, Siverth K. Heilmann, varaformaður landsdeildar Grænlands, Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Sigrún Alba Sigurðardóttir, starfsmaður ráðsins, Poula Árnadóttir Lervig, starfsmaður færeysku landsdeildarinnar, og Sakarias Amondsen, starfsmaður grænlensku landsdeildarinnar. Á dagskrá var undirbúningur fyrir þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í júní 2022 og ársfund ráðsins í lok ágúst. Steinunn Þóra Árnadóttir stýrði fundinum.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins verður haldin í Qaqortoq á Suður-Grænlandi 15.–17. júní 2022 undir yfirskriftinni Málefni ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum. Forsætisnefnd fór yfir fundargögn og dagskrá ráðstefnunnar. Einnig voru samþykkt drög að dagskrá ársfundar Vestnorræna ráðsins sem haldinn verður 30.–31. ágúst í Nuuk á Grænlandi. Á ársfundi verður haldin sérstök umræða með þátttöku ráðherra utanríkismála frá löndunum þremur undir yfirskriftinni Samstarf Vestnorræna ráðsins við nágrannaríki, en auk þess verður rætt um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins við samstarfsráðherra Norðurlanda á Grænlandi. Hringborð norðurslóða (e. Arctic Circle) heldur ráðstefnu í Nuuk dagana fyrir ársfundinn og samþykkti forsætisnefnd að senda meðlimi sérnefndar um málefni norðurslóða á ráðstefnuna. Kristrún Frostadóttir er meðlimur sérnefndarinnar fyrir hönd Íslandsdeildar.
    Forsætisnefnd ræddi um þrjár nýjar tillögur til ályktana Vestnorræna ráðsins sem lagðar hafa verið fram fyrir ársfund ráðsins og tillögu að yfirlýsingu. Ákveðið var að fela skrifstofu ráðsins að skoða tillögurnar nánar og gera tillögu að breytingum ef þörf er á.
    Þá var minnt á fyrirhugaðan fund Vestnorræna ráðsins með fulltrúum ríkis- og landsstjórna landanna þriggja um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins. Fundurinn verður haldinn í utanríkisráðuneytinu á Íslandi 13. júní.


Fylgiskjal IV.


Frásögn af þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Qaqortoq 15.–17. júní 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Ásmundur Friðriksson, Kristrún Frostadóttir, Þórarinn Ingi Pétursson og Jakob Frímann Magnússon, varamaður, ásamt Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins var haldin í Qaqortoq á Suður-Grænlandi og bar yfirskriftina Framtíðarmöguleikar ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum. Frummælendur voru Stine Egede, sveitarstjóri í Kujalleq, Kim Kielsen, formaður Vestnorræna ráðsins, Lulu Ranne, varaforseti Norðurlandaráðs, og Hjalmar Dahl, formaður Inuit Circumpolar Council á Grænlandi. Loftslagsmálin og áhrif þeirra á líf ungmenna voru ræðumönnum ofarlega í huga og einnig áhrif samkomutakmarkana í tengslum við baráttuna gegn COVID-19. Bent var á mikilvægi þess að ræða ekki aðeins um ungmenni heldur einnig við þau.
    Eva Dögg Davíðsdóttir, fulltrúi Norðurlandaráðs æskunnar, hélt erindi um loftslagsréttlæti og hringrásarhagkerfið. Hún benti á að langt væri í land með að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hækkun meðalhita á heimsvísu undir 2° C. Þá yrði hækkun meðalhita á norðurslóðum um þrisvar sinnum meiri en hækkun hita á heimsvísu með gríðarlegum áhrifum á vistkerfi norðurskautsins. Allt of lítil fjárfesting væri í orkuskiptum. Eva Dögg sagði mikilvægt að gefa ungmennum raunveruleg tækifæri til að taka þátt í stefnumótun í loftslagsmálum og leggja til lausnir, ekki aðeins bjóða þeim að vera með ávörp á tyllidögum. Iluuna Sørensen, nemandi við Álaborgarháskóla og fulltrúi ungmennasamtaka norðurslóða (e. Arctic Youth Network), sagðist oft beðin um að segja frá sinni persónulegu upplifun af loftslagsbreytingum. Grænlendingar sæju breytingarnar mjög skýrt og frásagnir íbúa norðurslóða væru mikilvægar til að renna stoðum undir hina vísindalegu umræðu. Eftir nokkra áratugi yrði aðeins hægt að skynja skriðjökla eða hafís í gegnum frásagnir. Einnig flutti ávarp Guðrún í Jákupsstovu, doktorsnemi í samtímabókmenntum við Háskólann í Bern. Kristrún Frostadóttir tók þátt í pallborðsumræðum í kjölfar erindanna og ítrekaði mikilvægi þess að fá ungt fólk inn á þing. Hún tók undir með Sørensen um mikilvægi sagna í baráttunni við loftslagsbreytingar og benti á að almenningur ætti miklu auðveldara með að skilja persónulegar sögur en þurrar tölur og staðreyndir. Þá væri nauðsynlegt að vinna að réttlátum grænum umskiptum og tryggja að fátækari ríki þyrftu ekki að dragast aftur úr efnahagslega.
    Í umræðum um ungmenni, sjálfsmynd og samfélag á Vestur-Norðurlöndum fluttu erindi Beinir Bergsson, rithöfundur, og Vivi Vold, doktorsnemi við Ilismatusarfik-háskólann í Nuuk og University of California í Davis. Bergsson fjallaði um geðheilsu ungmenna á Vestur-Norðurlöndum og hvernig hægt væri að nýta söguskrif sem meðferð í kjölfar áfalla. Ljóst væri af biðlistum eftir geðgreiningu meðal unglinga í Færeyjum og á Íslandi að bæta þyrfti þjónustuna. Hann sagði frá eigin reynslu og benti á gildi þess að heilbrigðisstarfsfólk hlusti á sögur sjúklinga af áföllum sínum. Vold fjallaði um hvernig skilgreining á þekkingu væri ólík milli menningarsamfélaga. Í menningu frumbyggja væri þekking t.d. álitin fara í hring en á Vesturlöndum væri litið á þekkingu sem línulega. Á nýlendutímanum hefði verið litið niður á þá þekkingu sem til var í samfélögum frumbyggja en mikilvægt væri að nýta alla þá þekkingu sem til væri. Í pallborðsumræðum sagði Steinunn Þóra Árnadóttir nauðsynlegt að skoða samfélagið í heild til að skýra versnandi geðheilsu ungmenna. Tækniþróun og aukinn hraði samfélagsins hefðu þar mögulega áhrif og einnig samfélagsgerðin.
    Í umræðum um ungmenni, menntun og hreyfanleika á Vestur-Norðurlöndum fluttu erindi Beinir Bergsson, rithöfundur, og Svava Þóra Árnadóttir, nemandi í Norður-Atlantshafsbekknum – NGK. Bergsson fjallaði um hvernig hægt væri að bæta samband Íslands og Færeyja. Hann benti á að Færeyingar sem flyttust til Íslands til að stunda háskólanám stæðu frammi fyrir fjölmörgum tæknilegum áskorunum sem hægt væri að leysa með góðum vilja. Einnig væri tungumálið fyrirstaða og hvatti hann til þess að vestnorrænu löndin byðu upp á aðgengilegt nám í tungumálum nágranna sinna. Svava Þóra sagði frá reynslu sinni og samnemenda sinna af því að tilheyra fyrsta Norður-Atlantshafsbekknum, hópi ungmenna frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi sem stunda nám í löndunum þremur til skiptis. Hún sagði námið einstakt tækifæri til að kynnast grænlensku og færeysku samfélagi, menningu og tungumáli. Í pallborðsumræðum benti Kristrún Frostadóttir á að val ungmenna á háskólanámi stýrðist óhjákvæmilega af því hvað væri auðvelt og hagkvæmt. Þannig væri hátt farmiðaverð í flugi milli landanna þriggja ákveðin fyrirstaða fyrir því að auka samgang milli ungmenna í löndunum.
    Steinunn Þóra Árnadóttir flutti lokaávarp ráðstefnunnar. Hún þakkaði ráðstefnugestum fyrir innlegg sín og fagnaði metnaðarfullri dagskrá. Leitun væri að mikilvægari umfjöllunarefnum en stöðu ungmenna í löndunum þremur. Vissulega væru áskoranir landanna þriggja ólíkar en það væri þó margt sem þau ættu sameiginlegt. Vestnorræna ráðið myndi halda áfram að finna mögulega fleti á samstarfi um málefni ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum.
    Í kjölfar ráðstefnunnar hélt Vestnorræna ráðið innri fund sinn. Meðal umræðuefna voru drög að nýjum ályktunum ráðsins, sem lagðar verða fram á ársfundi í ágústlok. Einnig var rætt um hvernig hægt væri að bæta framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins á vettvangi ríkis- og landsstjórna vestnorrænu landanna. Meðlimir forsætisnefndar sögðu frá fundi um málið sem haldinn var í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík í júní 2022, en fundinn sátu fulltrúar Vestnorræna ráðsins og fulltrúar ríkis- og landsstjórna vestnorrænu landanna.
    Sérnefnd Vestnorræna ráðsins um málefni norðurslóða fundaði samhliða þemaráðstefnunni, en þar situr Kristrún Frostadóttir fyrir hönd Íslandsdeildar. Sérnefndin skipulagði þátttöku sína á Hringborði norðurslóða (e. Arctic Circle) í Nuuk í ágústlok og ræddi starfið fram undan. Kristrún var einnig kjörin formaður sérnefndarinnar fram að næsta ársfundi ráðsins.


Fylgiskjal V.


Frásögn af fjarfundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins 15. ágúst 2022.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Aðrir fundarmenn voru Edva Jacobsen, formaður landsdeildar Færeyja, Lárus Valgarðsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Poula Árnadóttir Lervig og Annika Mouritsen, starfsmenn færeysku landsdeildarinnar. Helstu mál á dagskrá fundarins voru skipulagning ársfundar ráðsins í lok ágúst í Nuuk.
    Forsætisnefnd ræddi fyrirkomulag ársfundar Vestnorræna ráðsins og ræddi afstöðu sína til tillagna um ályktanir og yfirlýsingar sem lágu fyrir ársfundi. Ákveðið var að mæla fyrir breytingartillögum við ályktunardrög í einhverjum tilvikum. Þá ákvað forsætisnefnd að mæla með því að ályktanir Vestnorræna ráðsins frá árinu 2020 og fyrr yrðu afskrifaðar.


Fylgiskjal VI.


Frásögn af ársfundi Vestnorræna ráðsins í Nuuk á Grænlandi 30.–31. ágúst 2022.

    
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, Eyjólfur Ármannsson, varaformaður, Kristrún Frostadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara.
    Vivian Motzfeldt, ráðherra utanríkis- og efnahagsmála á Grænlandi, og Jenis av Rana, ráðherra utanríkis- og menntamála í Færeyjum, tóku þátt í umræðum undir yfirskriftinni Samstarf vestnorrænna landa við nágrannalönd sín. Vivian Motzfeldt sagði frá nýlegum samstarfssamningi Grænlands við Núnavút-héraðið í Kanada. Með samningnum hefðu Grænlendingar ítrekað vilja sinn til að vinna með nágrönnum sínum í vestri að sameiginlegum hagsmunamálum, þar á meðal menningar-, orku- og sjávarútvegsmálum. Hún hvatti til aukins vestnorræns samstarfs til vesturs en benti þó á að helsta hindrunin fyrir slíku samstarfi væru takmarkaðar samgöngur milli landsvæðanna. Þrátt fyrir að Núnavút væri nálægt Grænlandi á landakortinu væri ekkert beint flug þar á milli. Jenis av Rana fjallaði um áhrif innrásar Rússa í Úkraínu á samskipti Færeyinga við Rússa. Hann benti á að í kjölfar makríldeilunnar hefðu markaðir Evrópusambandsins lokast og þannig hefðu Færeyingar orðið mjög háðir viðskiptum við Rússa. Nú væri hins vegar öll áhersla lögð á samvinnu við vestræn lönd sem deildu viðhorfum og virðingu Færeyinga fyrir mannréttindum. Fiskveiðisamningar Færeyinga við Rússa rynnu brátt út og vonandi yrðu sönnunargögnin um stríðsglæpi Rússa í Úkraínu til þess að samningarnir yrðu ekki endurnýjaðir. Færeyingar hefðu einnig samþykkt aukið eftirlit NATO í lögsögu Færeyja með uppsetningu nýs radarkerfis. Í umræðum sagði Steinunn Þóra Árnadóttir mikilvægt að vestnorrænu löndin stæðu vörð um náttúruna og legðu áherslu á að draga úr spennu á svæðinu. Aukin skipaumferð og heræfingar hefðu í för með sér mikla hættu á mengunarslysum í hinni viðkvæmu náttúru norðurslóða. Eyjólfur Ármannsson lagði áherslu á sameiginleg gildi norrænna þjóða og varaði við því að vestnorræn lönd yrðu of háð stórveldum sem hefðu ekki sömu gildi. Mikilvægt væri að styðja við Úkraínu í baráttu landsins fyrir frelsi og sjálfsmynd sinni.
    Fulltrúar samstarfsaðila Vestnorræna ráðsins ávörpuðu einnig fundinn. Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, fagnaði því að fundir Norðurlandaráðs færu í auknum mæli fram á Vestur-Norðurlöndunum. Þá ítrekaði hann mikilvægi norrænnar samvinnu og sagðist vona að hægt yrði að snúa við niðurskurði í menningarmálum á Norðurlöndum. Ingrid Fiskaa, 5. varaforseti Stórþingsins, sagði frá stöðu stjórnmála og efnahagsmála í Noregi og lagði áherslu á aukið mikilvægi norðurslóða fyrir stórveldi heimsins. Ásmundur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Norræna Atlantssamstarfsins (NORA), kynnti starfsemi stofnunarinnar.
    Fulltrúar landsdeilda gerðu ráðinu grein fyrir starfinu á liðnu ári og flutti Eyjólfur Ármannsson skýrslu Íslandsdeildar. Hann sagði sérstaklega ánægjulegt að fá að heimsækja færeysku sendiskrifstofuna í Reykjavík og ræða samskipti Íslands við Færeyjar. Eyjólfur fagnaði einnig framkvæmdum við nýja og stækkaða flugvelli á Grænlandi, sem myndu styrkja enn frekar samstarf vestnorrænu landanna.
    Ársfundurinn samþykkti fjórar ályktanir sem verða sendar til ríkisstjórna og þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar. Í þeirri fyrstu voru vestnorrænir ráðherrar sem fara með málefni barna hvattir til þess að halda samráðsfund á árinu 2023 þar sem þeir bæru saman reynslu og gögn landanna varðandi heilbrigði og líðan ungmenna. Í annarri voru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlandanna hvattar til að bera saman stefnu landanna þriggja í ferðaþjónustu í þeim tilgangi að greina bestu starfsvenjur með tilliti til samspils ferðaþjónustu og náttúruverndar. Í þeirri þriðju voru ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda beðnar um að skila Vestnorræna ráðinu sameiginlegum skýrslum um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins. Lagt var til að utanríkisráðuneyti landanna þriggja myndu skiptast á að hafa umsjón með viðræðum milli ríkisstjórnanna og skýrslugerð til Vestnorræna ráðsins.
    Fjórða ályktunin var lögð fram af Íslandsdeild og fjallaði um jafnréttismál út frá kynjajafnrétti og réttindum hinsegin fólks. Í ályktuninni voru jafnréttisráðherrar landanna þriggja hvattir til að halda fund á árinu 2023 til að bera saman bækur sínar um framfylgd áætlunar norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál árin 2019–2024, þar á meðal viðauka við áætlunina um jöfn réttindi og möguleika hinsegin fólks. Þá voru ráðherrarnir hvattir til að leita lausna á mögulegum sameiginlegum vestnorrænum úrlausnarefnum á vettvangi jafnréttismála. Í breytingartillögu færeyskra þingmanna var lagt til að umfjöllun um hinsegin fólk yrði felld úr ályktuninni. Þingmennirnir sögðu málefnið það viðkvæmt í Færeyjum að það yrði erfitt að styðja þingsályktunartillögur byggðar á ályktunum Vestnorræna ráðsins á færeyska þinginu. Lýst var efasemdum um að hinsegin réttindi teldust til mannréttinda.
    Steinunn Þóra Árnadóttir benti á að það að tryggja ákveðnum hópum mannréttindi tæki ekki réttindi af öðrum. Hún gagnrýndi málflutning þess efnis að geðræn vandamál meðal hinsegin fólks væru vísbending um óholla lifnaðarhætti. Ástæðan fyrir vanlíðan væri þvert á móti viðmót samfélagsins gagnvart hinsegin fólki. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir ítrekaði að í ályktuninni væri einungis verið að fylgja eftir samstarfssamningi sem gerður hefði verið á norrænum vettvangi. Ráðherrarnir væru beðnir um að deila reynslu sinni og ræða málefnið en ekki væri kveðið á um sérstakar aðgerðir. Kristrún Frostadóttir sagði nauðsynlegt að hægt væri að fjalla um hinsegin málefni á vettvangi ráðsins. Eyjólfur Ármannsson ítrekaði að jafnrétti væri grundvallarmannréttindi og Þórarinn Ingi Pétursson sagði allar manneskjur vera jafnar fyrir guði, ekki bara karla og konur heldur alls konar manneskjur. Ályktunin var að lokum samþykkt óbreytt.
    Vestnorræna ráðið hafnaði tillögu frá meðlimi færeysku landsdeildarinnar um sameiginlega yfirlýsingu um lýðræði, hervæðingu og loftslagsmál á norðurslóðum. Yfirlýsingin þótti fjalla um utanríkismál, en þau liggja utan málefnasviðs Vestnorræna ráðsins þar sem danska konungsríkið fer með utanríkismál Færeyja og Grænlands.
    Í almennum umræðum fjallaði Þórarinn Ingi Pétursson um þá miklu möguleika sem vestnorrænu löndin hefðu til að auka matvælaframleiðslu. Hægt væri að vinna að því í samvinnu milli landanna, t.d. væri hægt að auka útflutning á dýrafóðri frá Íslandi til Færeyja og Grænlands til að styðja við þarlendan landbúnað. Eyjólfur Ármannsson vakti máls á mögulegum fríverslunarsamningi milli landanna þriggja. Hann sagði mikilvægt að slíkur samningur yrði gerður á grundvelli hagsmuna allra landanna og að skýrt væri hvernig leyst yrði úr ágreiningi um túlkun hans. Kristrún Frostadóttir talaði um möguleikana í vinnslu sjaldgæfra jarðmálma á Grænlandi. Þeir málmar væru nauðsynlegir í ýmsa tækni í tengslum við græn umskipti, t.d. rafhlöður. Ef ráðast ætti í slíkan námugröft væri mikilvægt að reyna af fremsta megni að gera það á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.
    Á ársfundi var samþykkt að þema starfsársins 2022–2023 yrði fæðuöryggi á Vestur-Norðurlöndum. Þá var samþykkt að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði haldin í Þórshöfn í Færeyjum í janúar 2023 og að ársfundur yrði haldinn í Reykjavík í ágústlok 2023. Í tengslum við ársfundinn yrði auk þess haldinn borgarafundur þar sem almenningi gæfist kostur á að ræða við vestnorræna þingmenn. Að lyktum var Steinunn Þóra Árnadóttir einróma kjörin formaður ráðsins fram að næsta ársfundi.
    Samhliða ársfundi heimsótti Íslandsdeild Kofoed-skólann, sem veitir heimilislausum í Nuuk aðstoð og þjálfun, auk þess sem þingmenn áttu fund með Ólafi Ragnari Grímssyni, formanni Hringborðs norðurslóða. Þá fékk Íslandsdeild kynningu á framkvæmdum við þrjá nýja flugvelli á Grænlandi frá fyrirtækinu Kalallit.


Fylgiskjal VII.


Frásögn af fundi Vestnorræna ráðsins með Evrópuþinginu í Reykjavík 20. september 2022.


    Árlegur fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með þingnefnd Evrópuþingsins fór fram í Reykjavík þann 20. september. Þingnefndin sinnir samskiptum Evrópuþingsins við Sviss, Noreg, Ísland og EES auk norðursins og er kölluð DEEA-nefndin. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður Íslandsdeildar og formaður Vestnorræna ráðsins, Kristrún Frostadóttir, fulltrúi Íslandsdeildar í sérnefnd Vestnorræna ráðsins um norðurslóðamál, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Helstu mál á dagskrá voru norðurslóðamál, loftslagsmál og orkumál, með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og græn umskipti.
    Steinunn Þóra Árnadóttir sagði stuttlega frá vendingum í stjórnmálum í vestnorrænu löndunum frá síðasta fundi sendinefndanna. Hún sagði einnig frá starfi Vestnorræna ráðsins, sem undanfarin misseri hefur lagt áherslu á greiningu á stöðu ungs fólks á Vestur-Norðurlöndum og á vestnorrænt samstarf í loftslagsmálum. Þá kynnti hún nýjar ályktanir Vestnorræna ráðsins og sagði frá áherslu Vestnorræna ráðsins á komandi starfsári á fæðuöryggi og sjálfbærni.
    Christel Schaldemose, Evrópuþingmaður frá Danmörku, fór yfir störf Evrópuþingsins. Hún sagði alla umræðu í Evrópu litast af stríði Rússa í Úkraínu. Helsta áhyggjuefni Evrópuþingmanna væri hvernig Evrópa myndi takast á við komandi vetur. Óttast væri að mótmæli og jafnvel óeirðir gætu brotist út ef fólk gæti ekki borgað orkureikninga sína. Til skamms tíma litið þyrfti að tryggja að almenningur gæti haldið á sér hita og staðið í skilum. Til lengri tíma yrðu Evrópuríki að vinna að því að auka eigin orkuframleiðslu og vonandi verða sjálfum sér nóg. Liudas Mazylis, Evrópuþingmaður frá Litháen, bætti við að áskoranir Evrópu væru gríðarlegar en vonast væri til að löggjöf um græn umskipti Evrópusambandsins, Fit for 55, myndi hjálpa til við að bæta orkumálin.
    Pétur Ásgeirsson sendiherra og Sólrún Svandal sérfræðingur kynntu norðurslóðastefnu Íslands fyrir hönd utanríkisráðuneytis. Þau ræddu einnig starf Norðurskautsráðsins í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, en frá innrásinni hefur formlegt samstarf við Rússa legið niðri. Hin sjö norðurskautsríkin hafa þó átt með sér óformlegt samráð um norðurslóðamál. Evrópuþingmenn viðruðu áhyggjur sínar af auknum áhuga og áhrifum Kína á norðurslóðum og bentu á mikilvægi þess að ríki heimsins tryggðu aðgengi að sjaldgæfum málmum til að koma í veg fyrir að stórir framleiðendur á borð við Kína gætu beitt þeim í pólitískum tilgangi.
    Kristín Steinunnardóttir, verkefnastjóri hjá Mannviti fyrir jarðhitasjóð í Austur-Afríku, kynnti starfsemi sjóðsins. Hlutverk sjóðsins er að aðstoða fyrirtæki við að stíga sín fyrstu skref í jarðhitaverkefnum. Mikil fjárhagsáhætta fylgir fyrstu tilraunaborunum eftir jarðhita og þar kemur tæknileg ráðgjöf Mannvits að. Jarðhitasjóðurinn er rekinn af framkvæmdastjórn Afríkusambandsins fyrir fjárstyrki m.a. frá Evrópusambandinu og Bretlandi og styrkir yfirborðsrannsóknir og boranir eftir jarðhita í ríkjum Austur-Afríku.
    Í almennum umræðum um orkumál ítrekaði Christel Schaldemose mikilvægi þess að ríki Evrópusambandsins drægju úr orkunotkun sinni og deildu orkugjöfum sín á milli. Allir þyrftu að leggja hönd á plóg við að auka framleiðslu á sjálfbærri orku. Liudas Mazylis sagði stjórnvöld í Litháen hafa verið á undan mörgum Evrópulöndum að draga úr notkun rússnesks jarðefnaeldsneytis. Landið hefði t.d. aukið samstarf sitt við Svíþjóð um endurnýjanlega orkugjafa. Lucie Samcová-Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, sagði orkumálin efst á forgangslista Evrópusambandsins. Ein af lausnum orkukrísunnar væri að vinna með þriðju löndum í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum til að draga úr nauðsyn þess að nýta rússneska olíu og gas. Hún benti á að Evrópusambandið gæti einnig unnið með Íslandi að því að rannsaka mögulega nýtingu jarðhita í löndum Suður-Evrópu. Ondrej Benesík, formaður Evrópunefndar tékkneska þingsins og fulltrúi tékknesku formennskunnar í Evrópusambandinu, sagði orkumálin vera mikilvægasta mál ESB um þessar mundir. Mörg ríki, þar á meðal Þýskaland, hefðu ekki tekið ógnina sem stafaði af Rússlandi alvarlega. Innrásin í Úkraínu hefði valdið algjörum viðsnúningi. Hann benti hins vegar á að rafknúin vél krefðist tífalt meira magns af sjaldgæfum málmum en olíuknúin. Þannig yrði áskorun framtíðarinnar að takast á við kínversk stjórnvöld sem réðu yfir 80% allra slíkra náma heimsins.
    Steinunn Þóra Árnadóttir dró saman umræður fundarins og þakkaði fyrir gagnlegar umræður um alþjóðamál með vestnorrænum áherslum. Umræðurnar sýndu hversu tengd vestnorrænu löndin væru ríkjum Evrópusambandsins.
    Í kjölfar fundarins fóru fundarmenn í fræðsluheimsókn á Veðurstofu Íslands þar sem Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur og hópstjóri, kynnti starf náttúruvárteymis Veðurstofunnar. Þá heimsóttu fundarmenn Sjávarklasann á Granda þar sem Þór Sigfússon kynnti nýsköpun í sjávarútvegi.


Fylgiskjal VIII.


Minnispunktar Íslandsdeildar af þátttöku forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins á þingi Hringborðs norðurslóða í Reykjavík 13.–16. október 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þing Hringborðs norðurslóða Steinunn Þóra Árnadóttir, formaður, og Kristrún Frostadóttir auk Axels Viðars Egilssonar, sérfræðings í alþjóðamálum.
Vestnorræna ráðið stóð fyrir tveimur málstofum á ráðstefnunni, annars vegar um samvinnu Vestur-Norðurlanda í Norður-Atlantshafi og hins vegar um græna nýsköpun og ný tækifæri fyrir ungmenni á vestnorræna svæðinu. Þá átti Vestnorræna ráðið fund með James Stockan, forseta sveitarstjórnar Orkneyja.
    Jenis av Rana, utanríkis- og menningarmálaráðherra Færeyja, opnaði málstofuna um vestnorræna samvinnu í Norður-Atlantshafi. Christophe Pampoulie, rannsóknastjóri hjá Hafrannsóknastofnun, ávarpaði fundinn og benti á að hlýnun sjávar í Norður-Atlantshafi væri farin að hafa mikil áhrif á lífríki hafsins sem birtist m.a. í því að fiskstofnar væru farnir að færa sig norðar á bóginn. Þessar líffræðilegu breytingar munu hafa ýmiss konar áhrif á samfélög vestnorrænu landanna sem kalla á aukið samstarf þeirra í millum. Kristrún Frostadóttir, Kim Kielsen, forseti grænlenska þingsins, Edva Jacobsen, þingmaður á færeyska þinginu, og Johannes Jensen, stjórnarmaður í verkefninu Sjálfbær fyrirtæki (fær. Burðardygt vinnulív) í Færeyjum, tóku þátt í pallborðsumræðum í kjölfar erindisins. Kristrún sagði að loftslagsbreytingar á vestnorræna svæðinu hefðu fyrst og fremst áhrif á hafið og að löndin þrjú þyrftu að auka fjárveitingar til rannsókna á vistkerfi hafsins. Í samhengi við græn umskipti og vestnorrænt hafsvæði benti Kristrún á að á Íslandi væri helst litið til þess hvers konar eldsneyti skyldi nota til að knýja fiskveiðiflotann. Þá lagði hún áherslu á að Vestur-Norðurlönd tækju saman höndum og öxluðu ábyrgð á framgangi grænna verkefna í framtíðinni og að þau skyldu vera opin fyrir atvinnusköpun á öðrum sviðum en einungis hrávöruframleiðslu. Með þessu móti gætu Vestur-Norðurlönd orðið alþjóðleg fyrirmynd.
    Á annarri málstofu Vestnorræna ráðsins, sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, opnaði, var fjallað um græna nýsköpun og ný tækifæri fyrir ungt fólk á vestnorræna svæðinu. Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna, var aðalfyrirlesari og benti hún á mikilvægi þess að græn umskipti ættu sér stað í samhengi við sjálfbæra þróun. Sagði hún að hlusta þyrfti á raddir ungs fólks enda fyndi það mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Þá sagði hún að atvinnusköpun í framtíðinni þyrfti að vera fjölbreytt og að auka þyrfti nýsköpun samhliða grænum umskiptum. Að erindi loknu tók Tinna þátt í pallborðsumræðum ásamt Iluunu Sørensen frá Greenland4Nature og Tengslaneti ungmenna á norðurslóðum (e. Arctic Youth Network), Elsu Berg, bæjarfulltrúa í Þórshöfn í Færeyjum, Önnu Worthington De Matos, framkvæmdastjóra Munasafns Reykjavíkur, og Steinunni Þóru Árnadóttur, formanni Vestnorræna ráðsins.
    Samhliða þingi Hringborðs norðurslóða fundaði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins í húsakynnum Alþingis. Forsætisnefndin ræddi þátttöku ráðsins á þingi Hringborðs norðurslóða, fund forsætisnefndar samhliða Norðurlandaráðsþingi, þátttöku ráðsins á þinginu í lok október og byrjun nóvember og loks þemaráðstefnu ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum í janúar. Forsætisnefnd ákvað að setja verkefni ráðsins tengd málefnum norðurslóða á dagskrá á forsætisnefndarfundi samhliða þemaráðstefnunni í janúar í stað þess að halda sérstakan fund um efnið í lok þessa árs. Forsætisnefnd samþykkti jafnframt að bjóða matvælaráðherrum Vestur-Norðurlanda á þemaráðstefnuna þar sem umræðuefnið verður fæðuöryggi og sjálfsnægtir (d. selvforsyning).