Ferill 688. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1058  —  688. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2022.


1. Inngangur.
    Á vettvangi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, árið 2022 var innrás Rússlands í Úkraínu í brennidepli. Árásarstríð Rússa hófst þann 24. febrúar, sama dag og ÖSE-þingið kom saman til hefðbundins vetrarfundar. Dagskrá fundarins vék fyrir neyðarumfjöllun um stöðuna í Úkraínu og var innrásin fordæmd sem skýlaust brot á alþjóðalögum. Innrásin bryti þvert gegn ákvæðum stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og Helsinki-lokagerðarinnar, sem liggur til grundvallar ÖSE. Helsinki-lokagerðin kveður á um að aðildarríkin virði landamæri hvert annars og vinni að friði, öryggi, lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. Á þessum fyrsta degi innrásarinnar hvöttu úkraínskir þingmenn á ÖSE-þinginu umheiminn til að styðja Úkraínu með rökum sem áttu eftir að verða leiðarstef í málflutningi þeirra á öllum fundum ársins. Í Úkraínu væru grunngildi Vesturlanda á borð við frjálslyndi, lýðræði og mannréttindi varin og varnarbarátta Úkraínumanna væri því fyrir öryggi allrar Evrópu. Stöðva yrði árásarstríð Rússa því ef Úkraína félli væri þess ekki langt að bíða að Rússar héldu áfram og þrýstu á landamæri annarra Austur-Evrópuríkja.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins í Birmingham í júlí var stríðið í Úkraínu enn í brennidepli og var þingmönnum frá Rússlandi og Belarús meinuð þátttaka af hálfu breskra stjórnvalda sem voru gestgjafar fundarins. Á ársfundinum var samþykkt tillaga formanns úkraínsku landsdeildarinnar um að fela reglunefnd þingsins að vinna tillögu að breytingu á starfsreglum þess þannig að hægt yrði að víkja aðildarríki af ÖSE-þinginu fyrir gróf brot gegn ákvæðum Helsinki-lokagerðarinnar. Innrás Rússlands í Úkraínu var harðlega fordæmd í yfirlýsingu ársfundarins. Alls voru samþykktar 10 aukaályktanir, m.a. um áhrif árásarstríðs Rússa í Úkraínu á öryggi á ÖSE-svæðinu, um ógnanir og ofbeldi gegn konum í fjölmiðlum og stjórnmálum, um öryggi stríðsfréttaritara, um græn umskipti, um siðareglur fyrir þingmenn á ÖSE-þinginu og málefni norðurslóða.
    Á vetrarfundi ÖSE-þingsins í Varsjá var stríðið í Úkraínu enn helsta dagskrármálið. Þingmönnum frá Rússlandi og Belarús var meinuð þátttaka af pólsku gestgjöfunum. Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundarbúnað frá Kænugarði. Hann beindi sjónum sínum að ÖSE og ÖSE-þinginu og þeirri staðreynd að Rússland væri enn formlegur aðili að þeim stofnunum. Zelenskí undirstrikaði að árásarstríðið gegn Úkraínu væri jafnframt stríð gegn ÖSE og að við slíkar aðstæður þyrfti ÖSE að sýna sterk viðbrögð ef stofnunin ætlaði ekki að veikja sig og trúverðugleika sinn. ÖSE gæti lagt sitt af mörkum til sigurs á Rússum með því að vísa þeim úr ÖSE og verða með því raunveruleg stofnun sem stuðli að öryggi og friði. Á vetrarfundinum lagði reglunefnd ÖSE-þingsins fram tillögu að breytingu á starfsreglum þingsins þess efnis að víkja mætti aðildarríki sem færi með hernaði gegn öðru aðildarríki af þinginu. Ekki náðist samstaða um tillöguna og var afgreiðslu á breytingum á starfsreglum ÖSE-þingsins frestað. Reglunefnd var falið að vinna tillögur sínar áfram og leggja fyrir næsta fund.

    Bryndís Haraldsdóttir gegndi á árinu starfi sérlegs fulltrúa ÖSE-þingsins um málefni norðurslóða. Á ársfundi ÖSE-þingsins lagði hún fram skýrslu og drög að aukaályktun sem var samþykkt. Í ályktuninni var fjallað um aukið mikilvægi norðurslóða, bæði hernaðarlega og efnahagslega og voru aðildarríki ÖSE hvött til að beina sjónum sínum í auknum mæli að svæðinu. Bent var á alvarleg áhrif loftslagsbreytinga á samfélög á norðurslóðum og voru aðildarríki hvött til að vinna saman og af ábyrgð til að tryggja langtímaáætlanir til að takast á við loftslagsbreytingar.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, starfar á grundvelli Helsinki-lokagerðarinnar (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Með Helsinki-lokagerðinni skuldbundu aðildarríkin sig til þess að bæta samstarf sín á milli, virða landamæri hvert annars og tryggja mannréttindi íbúa sinna. Helsinki-lokagerðin er hins vegar ekki hefðbundinn sáttmáli í lagalegum skilningi þar sem hún er ekki staðfest af þjóðþingum í löndum þeirra þjóðhöfðingja sem undir hana rituðu. ÖSE er ólík öðrum fjölþjóðlegum stofnunum hvað þetta varðar. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 57 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 323 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og við fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarríkjanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE er þingið hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans. ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið hefur samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Einnig hefur ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar ef þær hljóta samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram.
    Þessu til viðbótar getur forseti þingsins skipað tímabundið sérlega fulltrúa og stjórnarnefnd tekið ákvörðun um stofnun sérnefndar (e. ad hoc committee) til að ræða, taka afstöðu til og vera ráðgefandi um aðkallandi málefni eða úrlausnarefni. Einnig eru stofnaðir sérstakir vinnuhópar (e. working group) og þingmannalið (e. parliamentary team) um ákveðin málefni. Sérnefndir hafa t.d. verið stofnaðar um málefni Abkasíu, Kósóvó, Belarús og fangabúðir Bandaríkjahers í Guantánamo á Kúbu. Starf sérnefndanna hefur oftar en ekki skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi. Í lok árs 2021 voru starfandi sérstakar nefndir eða hópar um fólksflutninga, baráttuna gegn hryðjuverkum og um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins. Forseti ÖSE-þingsins getur einnig skipað sérlega fulltrúa í tilteknum málum. Í lok árs 2021 voru starfandi sérlegir fulltrúar um gyðingahatur, kynþáttahatur og fordóma, um málefni norðurslóða, um jafnrétti kynjanna, um falsfréttir og áróður, um mansal, um baráttu gegn spillingu, um virkjun borgaralegs samfélags, um málefni aldraðra, um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, um virkjun ungmenna, um málefni Miðjarðarhafsins, um Suður-Kákasussvæðið, um Suðaustur-Evrópu, um Austur-Evrópu og um Mið-Asíu.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Árið 2022 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu: Bryndís Haraldsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Ágúst Bjarni Garðarsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Birgir Þórarinsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jóhann Páll Jóhannsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Ritari Íslandsdeildar fram til 15. október var Bylgja Árnadóttir alþjóðaritari en þá tók Axel Viðar Egilsson verkefnastjóri við og sinnti ritarastarfinu til ársloka.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2022 var eftirfarandi:
     1.      Nefnd um stjórnmál og öryggismál     Bryndís Haraldsdóttir.
     2.      Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál     Ágúst Bjarni Garðarsson.
     3.      Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál     Helga Vala Helgadóttir.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi á árinu til að undirbúa þátttöku sína á fundum ÖSE-þingsins. Bryndís Haraldsdóttir og Helga Vala Helgadóttir sinntu kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins í Serbíu í apríl. Bryndís Haraldsdóttir sótti samráðsfund formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltslanda á ÖSE-þinginu í Tallinn í maí.
    Bryndís Haraldsdóttir var á árinu sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins í málefnum norðurslóða, en henni var falið það hlutverk árið 2021. Haldinn var sérstakur fjarfundur landsdeilda
norðurskautsríkja innan ÖSE-þingsins í febrúar. Á ársfundi ÖSE-þingsins í júlí lagði Bryndís fram sérstaka skýrslu og drög að ályktun um norðurslóðamál.

4. Fundir ÖSE-þingsins árið 2022.
    Á venjubundnu ári kemur ÖSE-þingið saman til funda þrisvar. Vetrarfundur er haldinn í febrúar, ársfundur í júlí og haustfundur í október. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var þátttaka í vetrarfundi takmörkuð við formann landsdeilda en hefðbundin þátttaka var á ársfundi og haustfundi. Stjórnarnefnd ÖSE-þingsins hélt fjarfund í mars. Þá áttu landsdeildir Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á ÖSE-þinginu hefðbundinn samráðsfund. Loks var, eins og fyrr sagði, haldinn sérstakur fjarfundur landsdeilda norðurskautsríkja innan ÖSE-þingsins.

Fjarfundur landsdeilda norðurskautsríkja innan ÖSE-þingsins 18. febrúar.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Helga Vala Helgadóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Á dagskrá var starf ÖSE-þingsins um málefni norðurslóða til umfjölllunar og sér í lagi hlutverk sérlegs fulltrúa ÖSE-þingsins í málefnum norðurslóða sem Bryndís Haraldsdóttir gegndi.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vín 24.–25. febrúar.
    Fundur ÖSE-þingsins var haldinn með blönduðu fyrirkomulagi, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, þar sem formönnum landsdeilda var boðið að vera í Vínarborg en aðrir þingmenn tengdust gegnum fjarfundarbúnað. Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Ágúst Bjarni Garðarsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Bryndís fór fyrir hönd Íslandsdeildar til Vínar. Helsta umræðuefni fundarins var innrás Rússlands í Úkraínu sem hófst að morgni fyrri fundardags. (Sjá fylgiskjal I.)

Fjarfundur stjórnarnefndar ÖSE-þingsins 11. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Bryndís Haraldsdóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Helsta umræðuefni fundarins var innrás Rússlands í Úkraínu. (Sjá fylgiskjal II).

Samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan ÖSE-þingsins í Tallinn 20. maí.
Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Bryndís Haraldsdóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Fundinn sóttu níu þingmenn Norðurlanda og Eystrasaltslandanna innan ÖSE-þingsins. Á dagskrá var undirbúningur fyrir ársfund þingsins í Birmingham í júlí 2022 og innrás Rússlands í Úkraínu. (Sjá fylgiskjal III.)

Ársfundur ÖSE-þingsins í Birmingham 2.–6. júlí.
Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Ágúst Bjarni Garðarsson, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá ríkjum í Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og Norður-Afríku. Á ársfundinum var samþykkt Birmingham-yfirlýsingin, sem sett var saman úr ályktunum málefnanefndanna þriggja og aukaályktunum sem lagðar voru fram af einstökum þingmönnum. Meðal áherslumála voru árásarstríð Rússa í Úkraínu, norðurslóðamál, græn umskipti og öryggi fjölmiðlafólks. (Sjá fylgiskjal IV.)

Haustfundur ÖSE-þingsins í Varsjá 24.–25. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Ágúst Bjarni Garðarsson auk Stígs Stefánssonar, starfandi ritara. Helsta umfjöllunarefni haustfundarins var stríðið í Úkraínu og viðbrögð ÖSE og þjóðþinga aðildarríkja ÖSE við því. (Sjá fylgiskjal V.)

Alþingi, 1. febrúar 2023.

Birgir Þórarinsson, form. Helga Vala Helgadóttir, varaform. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.


Fylgiskjal I.


Frásögn af vetrarfundi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Vín 24.–25. febrúar 2022.


    Fundur Evrópuráðsþingsins var haldinn með blönduðu fyrirkomulagi, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, þar sem formönnum landsdeilda var boðið að vera í Vínarborg en aðrir þingmenn tengdust gegnum fjarfundarbúnað. Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Ágúst Bjarni Garðarsson, auk Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara. Bryndís fór fyrir hönd Íslandsdeildar til Vínar. Helsta umræðuefni fundarins var innrás Rússa í Úkraínu sem hófst að morgni fyrri fundardags.
    Að venju var embættismönnum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) boðið að ávarpa þingfund og málefnanefndir og kynna starf stofnana ÖSE. Formaður ÖSE, Zbigniew Rau, utanríkisráðherra Póllands, sagði innrás Rússa í Úkraínu vera grundvallarbrot á ákvæðum stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og Helsinki-lokagerðarinnar, sem liggur til grundvallar ÖSE. Hann fordæmdi innrásina og sagðist ætlast til þess að rússnesk stjórnvöld stæðu við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Í ávarpi sínu sagði Margareta Cederfelt, forseti ÖSE-þingsins, innrásina vera skýrt brot á alþjóðalögum sem og gildum ÖSE. Hún hvatti rússneska þingmenn til að spyrna við fótum gagnvart stefnu rússneskra stjórnvalda.
    Á fundi stjórnarnefndar var nær eingöngu rætt um innrásina. Helga Schmid, framkvæmdastjóri ÖSE, sagði rússnesk stjórnvöld hafa valið að sýna vald sitt fremur en að eiga í samræðum. Ítrekað hefði verið reynt að stofna til viðræðna við rússnesk stjórnvöld, á vettvangi ÖSE, Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkjanna og ýmissa Evrópulanda.
    Petr Tolstoi, formaður landsdeildar Rússlands, ávarpaði stjórnarnefnd með fjarfundarbúnaði og sagði að ekki væri um að ræða innrás heldur nákvæmar árásir á hernaðarlega innviði. Ekkert mannfall yrði. Nú þegar væru hermenn Úkraínu að leggja niður vopn og þeim sem gæfust upp yrði vel tekið. Hernaðaraðgerðin væri afleiðing stuðnings Evrópuríkja við fasísk stjórnvöld sem hefðu hrifsað til sín völdin í Úkraínu árið 2014. Markmiðið væri að „af-hervæða“ Úkraínu (e. demilitarization). Mykyta Poturaiev, formaður landsdeildar Úkraínu, sagði landsmenn sína vera að glata aleigunni og jafnvel lífinu. Rússland ætti ekki skilið sæti í alþjóðastofnunum lengur.
    Á öðrum degi innrásarinnar var á dagskrá þingfundar sérstök umræða um öryggismál í Evrópu þar sem nær eingöngu var fjallað um innrásina. Mykyta Poturaiev hvatti aðildarríki ÖSE til samstöðu með Úkraínu. Ekki væri hægt að verja lýðræði í heimalandi sínu og leyfa svo stríðsglæpamanni að granda saklausri þjóð í nágrannaríki sínu. Ef Úkraína félli kæmu Rússar næst til Georgíu, Moldóvu eða Eystrasaltslandanna. Úkraína berðist fyrir öryggi allrar Evrópu. Hann hvatti þingmenn til að vinna að því að Úkraína fengi vopn, mannúðaraðstoð og aðstoð við að loka lofthelgi sinni. Þingmaðurinn klökknaði þegar hann sagði frá því að hann hefði deginum áður ákveðið að sitja áfram fundi ÖSE-þingsins til að tala máli Úkraínu, frekar en að þiggja far heim til Úkraínu. Nú óttaðist hann að komast ekki til baka til eiginkonu sinnar sem væri ein heima með takmarkaðar vistir og hefði ekkert sofið fyrir sprengingum. Hann ætlaði að freista þess að komast heim og berjast og sagðist vonast til að sjá alla aftur, ef ekki í þessum heimi þá í betri heimi.
    Bryndís Haraldsdóttir sagði íslensk stjórnvöld fordæma árásina og sagði hana vera skýra ógn við öryggi allra Evrópuríkja. Ísland stæði með bandamönnum sínum og tæki þátt í þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi. Sem sérstakur fulltrúi ÖSE-þingsins í málefnum norðurslóða lýsti hún einnig áhyggjum sínum af áhrifum innrásarinnar á valdajafnvægið á norðurslóðum og hvatti til friðar á því svæði. Þá hvatti hún rússneska og belarúska þingmenn til að hætta stríðsrekstrinum tafarlaust.
    Fund nefndar um stjórnmál og öryggismál ávörpuðu Jocelyn Kinnear, formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Kanada hjá ÖSE, Kairat Abdrakhmanov, fulltrúi ÖSE gagnvart þjóðarbrotum, og Rovshan Sadigbayli, formaður Forum for Security Co-operation og sendiherra Aserbaísjans hjá ÖSE. Tuula Yrjölä, framkvæmdastjóri Átakaforvarnamiðstöðvar ÖSE (e. Conflict Prevention Centre, CPC), ávarpaði einnig fundinn og sagði frá starfi miðstöðvarinnar. Meginverkefni hennar er að vakta átök og koma upplýsingum áleiðis en einnig veitir stofnunin starfsfólki ÖSE þjálfun í málamiðlun og friðarumleitunum.
    Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál hlýddi á ávörp frá Florian Raunig, formanni efnahags- og umhverfisnefndar ÖSE og sendiherra Austurríkis hjá ÖSE, og frá Igli Hasani, sendiherra Albaníu hjá ÖSE sem stýrir verkefnum ÖSE á sviði efnahags- og umhverfismála. Á fundinum var sérstök umræða um mansal í alþjóðavæddum heimi. Valiant Richey, fulltrúi ÖSE í baráttu gegn mansali, var frummælandi.
    Fund nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál ávarpaði m.a. Anne-Kirsti Karlsen, formaður nefndar ÖSE um lýðræðis- og mannréttindamál og sendiherra Noregs hjá stofnuninni, og Matteo Mecacci, framkvæmdastjóri Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODIHR). Sérstök umræða var haldin um fjölmiðlun sem grundvöll réttlætis og réttarríkisins og fundinn ávörpuðu Dmitry Andreyevich Muratov, handhafi friðarverðlauna Nóbels og ritstjóri Novaya Gazeta í Rússlandi, og Teresa Ribeiro, fulltrúi ÖSE gagnvart fjölmiðlafrelsi.
    Helga Vala Helgadóttir ítrekaði mikilvægi þess að standa vörð um frjálsa fjölmiðlun. Fjölmiðlafrelsi væri grundvöllur lýðræðisins. Hún fordæmdi einnig innrás Rússa í Úkraínu og benti á mikilvægi frjálsra fjölmiðla við að miðla til almennings því sem raunverulega ætti sér stað í Úkraínu. Þá hvatti hún aðildarríki til að veita Úkraínu mannúðaraðstoð.


Fylgiskjal II.


Frásögn af fundi stjórnarnefndar þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu 11. mars 2022.


    Stjórnarnefnd ÖSE-þingsins fundaði með fjarfundarbúnaði á sérstökum aukafundi um innrás Rússa í Úkraínu. Af hálfu Íslandsdeildar tóku þátt í fundinum Bryndís Haraldsdóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari.
    Margareta Cederfelt, forseti ÖSE-þingsins, lýsti áhyggjum sínum af versnandi ástandi í Úkraínu og hvatti til samstöðu landa við að fordæma innrásina. Hún sagði það skyldu þingmanna ÖSE-þingsins að þrýsta á um aukna aðstoð við Úkraínu og að styðja við tilraunir til samningaviðræðna. Cederfelt ítrekaði að árásarstríðið væri skýrt brot á alþjóðalögum sem og gildum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
    Roberto Montella, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, sagðist þurfa að biðja utanríkisráðherra Úkraínu afsökunar á að hafa ekki trúað honum þegar hann sagði að stríð væri yfirvofandi. Montella sagðist hafa lagt of mikinn trúnað á samtöl sín við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Hann sagði mikilvægt að ÖSE og ÖSE-þingið gæfu nú skýr skilaboð út á við og réðust í aðgerðir sem gögnuðust fórnarlömbum stríðsins.
    Yevheniia Kravchuk, fulltrúi landsdeildar Úkraínu, bað fundarmenn að hugsa til úkraínskra fjölskyldna sem hírðust í kjöllurum við rafmagnsleysi og vatnsskort. Sendiherra Úkraínu gagnvart ÖSE flutti þinginu skilaboð frá Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu. Þar kallaði Kuleba eftir samstöðu um frið og aðgerðir til að bjarga lífi Úkraínumanna og verja gildi hins frjálsa heims.
    Bryndís Haraldsdóttir lýsti samkennd sinni með úkraínskum kollegum sínum og ítrekaði að innrás Rússa í Úkraínu bryti í bága við alþjóðalög og þau gildi sem lýst væri í Helsinki-lokagerðinni, sem liggur til grundvallar Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Bryndís benti á að Íslendingar væru herlaus þjóð sem ætti öryggi sitt undir því að alþjóðalög væru virt. Innrásin markaði kaflaskil og þrátt fyrir að Ísland gæti ekki sent Úkraínu hergögn myndi Ísland styðja Úkraínumenn eftir bestu getu.


Fylgiskjal III.


Frásögn af samráðsfundi Norður- og Eystrasaltslandanna innan þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Tallinn 20. maí 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Bryndís Haraldsdóttir, formaður, og Bylgja Árnadóttir, alþjóðaritari. Fundinn sóttu níu þingmenn Norðurlanda og Eystrasaltslandanna innan ÖSE-þingsins. Á dagskrá var undirbúningur undir ársfund þingsins í Birmingham í júlí 2022 og innrás Rússlands í Úkraínu.
    Mati Raidma, formaður eistnesku landsdeildarinnar, opnaði fundinn. Hann ítrekaði að stríðið í Úkraínu væri barátta ólíkra gilda. Niðurstaða átakanna myndi hafa víðtæk áhrif á alla Evrópu. Mykyta Poturaiev, formaður úkraínsku landsdeildarinnar, tengdist fundinum með fjarfundarbúnaði. Hann þakkaði fyrir stuðning Norðurlanda og Eystrasaltslanda við Úkraínu. Ákvarðanir um að senda hergögn til Úkraínu hefðu skiljanlega verið erfiðar en það væri hið eina rétta í stöðunni. Úkraína berðist fyrir hönd allrar Evrópu. Umsókn sænskra og finnskra stjórnvalda um aðild að NATO sýndi að þarlend stjórnvöld tækju ógnina frá Rússlandi alvarlega. Poturaiev sagði fráleitt að tala um NATO sem ógn við Rússland. Atlantshafsbandalagið væri varnarsamtök sem hefðu aldrei ógnað Rússlandi heldur unnið náið með Rússum í áraraðir, mun nánar en með úkraínskum stjórnvöldum fyrir árið 2014. Augljóst væri að undir núverandi stjórnkerfi og hugmyndafræði gætu rússnesk stjórnvöld ekki lifað í sátt og samlyndi við nágranna sína. Ekki væri hægt að búast við stefnubreytingu stjórnvalda á meðan minnisvarðar um Stalín og Lenín væru enn þá í hávegum hafðir í hjarta stjórnarbygginga Rússlands.
    Poturaiev lýsti vonbrigðum sínum með orðræðu á Vesturlöndum, og sérstaklega í Banda
ríkjunum, um að stöðva hergagnaflutning til Úkraínu og þrýsta á Úkraínumenn að semja frið. Hann ítrekaði að það myndi kosta mannslíf og leiða til þess að rússnesk stjórnvöld myndu leggja undir sig stór landsvæði. Hann sagði stríðið ekki snúast eingöngu um Úkraínu heldur að standa í vegi fyrir því að rússnesk stjórnvöld næðu markmiðum sínum. Rússnesk stjórnvöld hefðu hreinlega ekki getað unnað Úkraínumönnum þess að lifa frjálsara og betra lífi en rússneskur almenningur. Það væri merkilegt í ljósi þess að Úkraína hefði ekki verið ríkasta landið í Evrópu fyrir stríðið og staðið frammi fyrir miklum áskorunum í efnahagslífinu og í baráttunni við spillingu.
    Fundarmenn skiptust á upplýsingum um viðbrögð ríkisstjórna sinna við innrásinni í Úkraínu, hernaðar- og mannúðaraðstoð og móttöku flóttamanna. Bryndís Haraldsdóttir sagði frá því að fjárhagslegur stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu næmi nú milljarði íslenskra króna í gegnum alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðabankann, UNICEF og UN Women. Um eitt þúsund manns hefðu þegar komið til landsins frá Úkraínu og unnið væri að því að tryggja fólkinu alla nauðsynlega aðstoð. Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, hefði ávarpað Alþingi og íslensku þjóðina í byrjun mánaðarins og það hefði verið tilfinningaþrungin stund. Bryndís sagðist hins vegar hafa áhyggjur af því hvernig best væri að tryggja áframhaldandi stuðning almennings ef átök drægjust á langinn. Einnig væri mikilvægt að gera sér grein fyrir því að stríðsátök hefðu ólík áhrif á karla og konur. Konur og stúlkur á flótta væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Nauðsynlegt væri að tryggja skráningu flóttafólks og fylgjast með því að flóttafólk yrði ekki fyrir ofbeldi og misnotkun við komu sína til okkar landa.
    Þá var rætt um ársfund ÖSE-þingsins í Birmingham. Margareta Cederfelt, forseti ÖSE-þingsins og þingkona frá Svíþjóð, sagði frá því að rússneska landsdeildin hefði fengið boð á ársfund ÖSE-þingsins í Birmingham í júlí, líkt og reglur þingsins kveða á um. Hins vegar væru allir meðlimir rússnesku landsdeildarinnar á lista Breta yfir einstaklinga sem beittir eru þvingunaraðgerðum vegna stríðsins og því væri ljóst að Rússar tækju ekki þátt í ársfundinum. Ekki væri mögulegt að taka þátt í ársfundinum með fjarfundarbúnaði, þar sem neyðarástandi vegna COVID-19 hefði verið aflétt á ÖSE-þinginu. Rússneskir þingmenn gætu því ekki heldur lagt fram aukaályktanir eða breytingartillögur við ályktanir þar sem starfsreglur kveða á um að þingmaður sem skrifar undir tillögur þurfi að sækja ársfund.
    Þingmenn frá Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum höfðu lagt fram nokkrar aukaályktanir fyrir ársfund ÖSE-þingsins og voru þær ræddar á fundinum. Bryndís Haraldsdóttir kynnti drög að aukaályktun sinni um málefni norðurslóða. Hún ítrekaði að áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum væru víðtæk. Erfitt væri að ræða aðgerðir á þessum tímapunkti vegna innrásar Rússa í Úkraínu en nauðsynlegt væri að vekja athygli á málefninu innan ÖSE. Margareta Cederfelt, forseti, kynnti ályktunardrög um innrásina í Úkraínu og sömuleiðis Vilija Aleknaite Abramikiene, formaður landsdeildar Litháens. Einnig var fjallað um framboð til embætta ÖSE-þingsins og kom fram mikill stuðningur við áframhaldandi setu Margaretu Cederfelt sem forseta. Cederfelt var kosin í embætti á ársfundi 2021 til eins árs og má samkvæmt starfsreglum sitja annað tímabil. Fregnir hafa þó borist af því að Kari Henriksen frá Noregi hafi verið hvött til að bjóða sig fram gegn Cederfelt, en hún tapaði kosningunum 2021 með aðeins tveimur atkvæðum.
    Þingmennirnir heimsóttu hugveituna International Centre for Defence and Security þar sem sérfræðingar í öryggis- og varnarmálum ræddu um stríðið í Úkraínu, stjórnkerfið í Rússlandi, stjórnarandstöðu og viðhorf almennings í Rússlandi og viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Umræður á fundinum voru bundnar trúnaði (Chatham House Rule) þannig að ekki er vísað í ummæli einstakra þátttakenda. Fram kom að stjórnvöld og almenningur í Úkraínu óttaðist að Vesturlönd myndu knýja þau til að hætta að berjast. Það væri hins vegar ekki álitinn valkostur. Bent var á að undir stjórn Pútíns Rússlandsforseta hefði engu landi verið skilað sem unnist hefði í átökum og engir friðarsamningar hefðu verið virtir. Engin ástæða væri til að ætla að annað yrði uppi á teningnum í friðarviðræðum Úkraínu og Rússlands. Þeir sem töluðu um málamiðlanir, vopnahlé og samningaviðræður hunsuðu þessa staðreynd. Alþjóðlegur þrýstingur á frið væri hápólitísk afstaða. Stríðsátökin í Úkraínu væru sjaldgæft dæmi um átök sem einungis yrðu leyst með hernaði. Friðarsamningar á þessu stigi, þar sem Úkraínumenn væru hvattir til að gefa eftir land, gætu leitt af sér kraumandi átök til lengri tíma og haft alvarleg áhrif á stefnu rússneskra stjórnvalda til framtíðar. Nauðsynlegt væri þó að skilgreina hvað fælist í sigri. Grundvallarkrafan væri að rússneskur her drægi sig frá öllu landsvæði sem hefði verið hernumið frá í febrúar 2022. Einnig væri skýr krafa um réttlæti. Réttlæti fæli í sér refsingar fyrir stríðsglæpi, refsingu fyrir árásarstríðið sjálft, réttlæti fyrir þau 14.000 börn sem hefðu verið aðskilin frá foreldrum sínum og þá Úkraínumenn sem hefðu verið sendir til Síberíu og greiðslur fyrir eyðilegginguna í Úkraínu.


Fylgiskjal IV.


Frásögn af ársfundi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Birmingham 2.–6. júlí 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Ágúst Bjarni Garðarsson, auk Bylgju Árnadóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá ríkjum í Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og Norður-Afríku. Á ársfundinum var samþykkt Birmingham-yfirlýsingin, sem sett var saman úr ályktunum málefnanefndanna þriggja og aukaályktunum sem lagðar voru fram af einstökum þingmönnum. Meðal áherslumála voru árásarstríð Rússa í Úkraínu, norðurslóðamál, græn umskipti og öryggi fjölmiðlafólks.
    John Whittingdale, formaður landsdeildar Breta, setti ársfundinn. Hann ítrekaði mikilvægi þess að sýna hversu mikla áherslu aðildarríki ÖSE legðu á grunngildi stofnunarinnar á þessum stríðstímum. Bretar stæðu með Úkraínumönnum og hefðu sent hergögn, tekið á móti flóttafólki og beitt einstaklinga sem tækju þátt í stríðsrekstrinum hörðum refsiaðgerðum. Þessum refsiaðgerðum hefðu landsdeildir Rússlands og Belarús gagnvart ÖSE-þinginu mótmælt harðlega, enda hefðu þingmenn þeirra ekki fengið leyfi til að koma til Bretlands á ársfundinn. Whittingdale benti á að rússnesku þingmennirnir hefðu greitt atkvæði með innrásinni á rússneska þinginu. Tariq Ahmad, lávarður af Wimbledon og aðstoðarutanríkisráðherra Bretlands, ítrekaði að fullkomin samstaða hefði verið á breska þinginu um stuðning við Úkraínu. Innrás Rússa væri aðför að þeim grunnstoðum sem öryggi í Evrópu væri byggt á.
    Zbigniew Rau, utanríkisráðherra Póllands og formaður ÖSE, ávarpaði þingið og svaraði spurningum. Spurður um hvort ÖSE ætti að reyna að stuðla að friðarumleitunum sagði Rau að um væri að ræða árásarstríð, þar sem annars vegar væri árásaraðili og hins vegar fórnarlamb. Árásaraðilinn hefði engin réttindi en fórnarlambið ætti rétt á að verja sig. Fórnarlambið gæti ætlast til að fá aðstoð frá þeim sem virtu alþjóðalög en það væri undir fórnarlambinu komið hvenær það væri tilbúið til samningaviðræðna við árásaraðilann. Margareta Cederfelt, forseti ÖSE-þingsins, sagði ógerlegt að hunsa brot rússneskra stjórnvalda á skuldbindingum sínum samkvæmt Helsinki-lokagerðinni. ÖSE-þingið myndi standa vörð um rétt Úkraínumanna til að lifa í friði í eigin landi innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra. Stjórnarnefnd ÖSE-þingsins samþykkti tillögu formanns úkraínsku landsdeildarinnar um að leggja það til við reglunefnd þingsins að breyta starfsreglum þannig að hægt sé að víkja aðildarríki úr ÖSE-þinginu fyrir gróf brot gegn ákvæðum Helsinki-lokagerðarinnar.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir ályktanir framsögumanna nefndanna og einnig aukaályktanir á málefnasviði nefndanna. Bryndís Haraldsdóttir tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórnmál og öryggismál. Í ályktun nefndarinnar kom fram að innrás Rússa í Úkraínu væri gróft brot á alþjóðalögum og árás á mannréttindi almennra borgara, sér í lagi réttinn til lífs. Þingið fordæmdi ólöglegt hernám og innlimun Krímskaga og héraðanna Luhansk og Donetsk. Þá var aðstoð stjórnvalda í Belarús við árásarliðið sérstaklega fordæmd. Þá hvatti þingið aðildarríkin til að koma í veg fyrir mögulegt kjarnorkustríð með því að gefa út yfirlýsingar um að þau muni ekki beita kjarnavopnum að fyrra bragði. Í umræðum fagnaði Bryndís Haraldsdóttir því að í ályktuninni væri vísun í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Hún kallaði eftir því að við rannsóknir á stríðsglæpum í Úkraínu yrði lögð sérstök áhersla á að rannsaka tilvik kynbundins ofbeldis.
    Ágúst Bjarni Garðarsson tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Í ályktun 2. nefndar var bent á að heimsfaraldur kórónuveiru hefði haft víðtæk áhrif á hagkerfi ÖSE-ríkja, aukið á ójöfnuð og haft í för með sér bakslag í kynjajafnrétti. Kallað var eftir því að aðildarríki ÖSE auki samstarf sitt til að stuðla að sjálfbærum hagvexti með áherslu á græn umskipti og kynjajafnrétti. Hægt væri að flýta orkuskiptum með kolefnissköttum og aukinni fjárfestingu í sjálfbærum orkugjöfum og tækniþróun. Bent var á að fólksflutningar hefðu aukist vegna vopnaðra átaka og umhverfis- og loftslagsáhrifa og hvatti þingið ÖSE-ríki til að þróa löglegar leiðir fyrir fólk til að flytjast milli landa.
    Helga Vala Helgadóttir tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Í ályktun nefndarinnar var kallað eftir því að rússnesk stjórnvöld slepptu tafarlaust úr haldi starfsfólki sérstakrar eftirlitsskrifstofu ÖSE í Úkraínu, sem nú hefur verið lögð niður. Nauðsynlegt var að ná samstöðu innan fastaráðs ÖSE til að endurnýja umboð skrifstofunnar en Rússar greiddu atkvæði gegn því. Þingið fordæmdi árásir á almenna borgara í stríðinu í Úkraínu og sérstaklega fjöldamorð í Bucha, Borodyanka og fleiri borgum í landinu og kallaði eftir ítarlegum rannsóknum á stríðsglæpum. Kallað var eftir því að aðildarríki ÖSE virtu ákvæði Genfarsáttmálans um meðhöndlun stríðsfanga, slasaðra og almennra borgara. Ítrekað var að refsiaðgerðum aðildarríkja ÖSE væri ætlað að beinast gegn leiðtogum Rússlands en ekki gegn almenningi. Þingið harmaði að konur í stjórnmálum og fjölmiðlum sættu mismunun og áreitni, sérstaklega á netinu, sem hefði neikvæð áhrif á þróun kynjajafnréttis á ÖSE-svæðinu. Þá var undirstrikað að aðgengi að kyn- og frjósemisheilbrigðisþjónustu væri forsenda valdeflingar kvenna og jafnrar þátttöku þeirra í stjórnmálum og opinberu lífi. Þingið lýsti einnig stuðningi sínum við frjálsa fjölmiðlun og ítrekaði mikilvægi fjölmiðla og frjálsra skoðanaskipta fyrir lýðræðið.
    Alls voru samþykktar 10 aukaályktanir, m.a. um áhrif árásarstríðs Rússa í Úkraínu á öryggi á ÖSE-svæðinu, um ógnanir og ofbeldi gegn konum í fjölmiðlum og stjórnmálum, um öryggi stríðsfréttaritara, um græn umskipti og um siðareglur fyrir þingmenn á ÖSE-þinginu. Bryndís Haraldsdóttir lagði fram aukaályktun um málefni norðurslóða. Í ályktuninni voru aðildarríki ÖSE hvött til að beina sjónum sínum í auknum mæli til norðurslóða. Bent var á alvarleg áhrif loftslagsbreytinga á samfélög á norðurslóðum og aðildarríki hvött til að berjast gegn loftslagsvánni. Fjallað var um aukið mikilvægi norðurslóða, bæði hernaðarlega og efnahagslega. Innrás Rússa í Úkraínu var fordæmd og einnig hörmuð þau áhrif sem innrásin hefur óhjákvæmilega haft á alþjóðlega samvinnu á norðurslóðum. Í ræðu sinni ítrekaði Bryndís mikilvægi þess að norðurslóðir yrðu áfram lágspennusvæði og hvatti ÖSE-þingið til að veita svæðinu meiri athygli, sérstaklega í ljósi þess að öll átta norðurskautsríkin væru meðlimir í ÖSE.
    Í almennum umræðum vakti Helga Vala Helgadóttir máls á réttinum til þungunarrofs. Hún sagði Bandaríkin lengi hafa verið framarlega í vernd mannréttinda en nú hefðu konur verið sviptar grundvallarréttindum sínum til sjálfsákvörðunar yfir eigin líkama. Hún hvatti aðildarríki ÖSE til að standa vörð um mannréttindi allra sem sæktust eftir þungunarrofi. Sama hverjar kringumstæðurnar væru þá væri rétturinn yfir eigin líkama óskoraður.
    Bryndís Haraldsdóttir flutti ársfundi skýrslu um störf sín sem sérstakur fulltrúi ÖSE-þingsins í málefnum norðurslóða. Í ræðu sinni benti Bryndís á hversu augljós ummerkin um loftslagsbreytingar væru á norðurslóðum. Þykkasti og elsti ísinn á norðurskautinu hefði minnkað um 95% og horfur væru á að Norður-Íshafið yrði alveg íslaust á sumrin frá 2035. Hún hvatti þingmennina til að vinna saman og af ábyrgð til að tryggja langtímaáætlanir til að takast á við og vinna gegn loftslagsbreytingum. Þá lagði hún einnig fram skriflega skýrslu.
    Í lok ársfundar var Margareta Cederfelt frá Svíþjóð endurkjörin forseti ÖSE-þingsins með 113 atkvæðum gegn 62 atkvæðum mótframbjóðanda hennar, Kari Henriksen frá Noregi. Einnig voru kjörnir 4 varaforsetar og formenn, varaformenn og framsögumenn nefnda. Eftir fundinn verður yfirlýsing ársfundar send áfram til utanríkisráðherra og þjóðþinga aðildarríkjanna í þeirri von að hún hafi áhrif á ákvarðanir ráðherranefndar ÖSE og þar með pólitískar skuldbindingar aðildarríkja.
    Samhliða ársfundinum sat Íslandsdeild vinnuhádegisverð um kynjajafnrétti í tengslum við enduruppbyggingu samfélaga í kjölfar COVID. Einnig sóttu þingmenn hliðarviðburð um stöðu stjórnarandstöðu í Rússlandi og Belarús, þar sem frummælendur voru Evgenía Kara-Murza, Bill Browder og Natalia Kaliada.


Fylgiskjal V.


Frásögn af haustfundi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Varsjá 24.–25. nóvember 2022.


    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Bryndís Haraldsdóttir, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Ágúst Bjarni Garðarsson auk Stígs Stefánssonar, starfandi ritara. Yfirskrift haustfundarins var stríðið í Úkraínu og viðbrögð ÖSE og þjóðþinga aðildarríkja ÖSE við því.
    Í setningaraávarpi Elzbiet Witek, forseta neðri deildar pólska þingsins og gestgjafa fundarins, lýsti hún yfir vonbrigðum með að ekki hefði verið hlustað á raddir Eystrasaltsríkjanna, Póllands og fleiri Austur-Evrópuríkja, sem í áraraðir hefðu varað við þeirri ógn sem Evrópu stafaði af Pútín Rússlandsforseta. Álfan hefði verið vanbúin til þess að bregðast við innrás Rússlands í Úkraínu og frekari aðgerða væri þörf til stuðnings Úkraínu. Hún greindi frá sameiginlegri heimsókn kvenforseta þjóðþinga Evrópuríkja til landamæra Póllands og Úkraínu til að kynna sér ástandið þar og ræða við flóttafólk. Dró hún upp dökka mynd af stríðsglæpum rússneska hersins í Úkraínu, einkum gagnvart konum og börnum sem m.a. hafa falist í grófu kynferðisofbeldi og mannránum. Hvatti Witek til stóreflds stuðnings við Úkraínu jafnt á sviði hernaðar sem efnahags- og mannúðarmála. Lagði hún loks áherslu á að stuðningur við Úkraínu væri ekki einungis siðferðislega réttur heldur færi slíkur stuðningur einnig saman við öryggishagsmuni Evrópuríkja enda mundu Rússar halda áfram útþenslustefnu sinni til vesturs yrðu þeir ekki stöðvaðir á vígvellinum í Úkraínu.
    Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundarbúnað frá Kænugarði. Hann minntist þess að níu mánuðir væru liðnir upp á dag frá innrás Rússlands og sagði baráttuþrek Úkraínumanna hvergi á þrotum og að með dyggri aðstoð Vesturlanda mundu þeir verja áfram land sitt og reka Rússa af höndum sér. Hann beindi því næst sjónum sínum að ÖSE og ÖSE-þinginu og þeirri staðreynd að Rússland er enn þá aðili að þeim stofnunum. Sagði Zelenskí að ef ekki væri fyrir blátt bann pólskra stjórnvalda við að veita rússneskum þingmönnum vegabréfsáritanir hefðu fulltrúar hryðjuverkaríkis, sem brotið hefði gegn öllum grunngildum ÖSE og ÖSE-þingsins, getað sótt fundinn í Varsjá. Zelenskí undirstrikaði að árásarstríðið gegn Úkraínu væri jafnframt stríð gegn ÖSE. Við slíkar aðstæður þyrfti ÖSE að sýna sterk viðbrögð ef stofnunin ætlaði ekki að veikja sig og trúverðugleika sinn. ÖSE gæti lagt sitt af mörkum til sigurs á Rússum með því að vísa þeim úr ÖSE og verða með því raunveruleg stofnun fyrir öryggi og friði. Varaði Zelenskí við því að á meðan sumir vildu bíða og sjá hver framvinda stríðsins yrði sýndu Rússar ÖSE og grunngildum um lýðræði, mannréttindi og réttarríki fullkomna vanvirðingu og græfu undan stofnuninni.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins í Birmingham í júlí sl. var ítarlega fjallað um stöðu Rússlands innan ÖSE og ályktaði ársfundurinn um að gerð skyldi breyting á starfsreglum ÖSE-þingsins í þá veru að víkja mætti aðildarríki sem færi með hernaði gegn öðru aðildarríki af þinginu. Reglunefnd ÖSE-þingsins vann tillögu að slíkri breytingu á starfsreglum sem kynnt var á haustfundinum í Varsjá. Ítarlega var fjallað um tillöguna, jafnt á haustfundinum sjálfum og á stjórnarnefndarfundi ÖSE-þingsins sem fór fram samhliða, og komu tvö meginsjónarmið fram. Annars vegar það að vera Rússlands í ÖSE-þinginu væri móðgun við þingið og drægi úr trúverðugleika þess. Rússland hefði brotið gegn öllum gildum ÖSE og ekki væri stætt á öðru en að fylgja hvatningu Zelenskís og gera fyrrnefnda breytingu á starfsreglum og vísa Rússlandi í framhaldinu af ÖSE-þinginu. Hitt sjónarmiðið var það að mikilvægt væri að halda opnum boðskiptaleiðum við Rússland og eiga vettvang til samræðna þegar Rússland væri tilbúið að bæta ráð sitt og ganga að samningaborði. Þátttaka Rússlands í ÖSE-þinginu væri hvort sem er óvirk enda hefði fulltrúum rússneska þingsins hvorki verið boðið á ársfundinn í Birmingham né haustfundinn í Varsjá. Fulltrúar úkraínska þingsins á haustfundinum sóttu það hart að fá breytinguna á starfsreglum samþykkta og bentu á að þótt hún yrði samþykkt hefði Rússland engu að síður einhvern tíma til að bæta ráð sitt og sýna sáttarvilja. Með því að hafa Rússa í ÖSE-þinginu væri að óbreyttu verið að veita þeim vettvang til þess að dreifa áróðri sínum, falsfréttum og lygum. Fór svo að lokum að afgreiðslu á breytingum á starfsreglum ÖSE-þingsins var frestað og var reglunefnd falið að vinna tillögur sínar áfram og leggja fyrir næsta fund.
    Þá fór fram sérstök umræða um áskoranir við að verja mannréttindi í stríðsátökum og við neyðarástand. Bryndís Haraldsdóttir hélt ræðu og gagnrýndi harðlega að Rússland gengi þvert gegn skuldbindingum sínum gagnvart ÖSE og alþjóðlegum mannréttindalögum með framgöngu sinni gagnvart óbreyttum borgurum í Úkraínu. Á stríðstímum væru konur og börn sérlega viðkvæmir hópar og útsettir fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og mansali. Staðfestar fregnir af slíku ofbeldi rússneska hersins væru ógnvænlegar. Kynferðislegt ofbeldi á átakatímum væri stríðsglæpur sem alþjóðlegir dómstólar þyrftu að fjalla um. Þá væri það gömul saga og ný að flóttafólk væri útsett fyrir ofbeldi, sér í lagi konur og börn á flótta, og þá væri hætta á að mansalshringir nýttu sér neyð fólks til þess að hneppa það í vinnu- eða kynlífsþrælkun.
    Auk þess sem að ofan er nefnt var á haustfundinum fjallað um stórauknar árásir Rússa á orkuinnviði í Úkraínu, aðgerðir í Evrópu til þess að til þess að tryggja orkuöryggi og áætlanir um uppbyggingu í Úkraínu þegar stríðinu lýkur.


Fylgiskjal VI.


    Yfirlýsingu og ályktanir ársfundar ÖSE-þingsins árið 2022 má finna á eftirfarandi slóð:
www.oscepa.org/en/documents/annual-sessions/2022-birmingham/declaration-28