Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1125  —  610. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um vernd gegn netárásum.


     1.      Hvernig hyggjast yfirvöld vernda einstaklinga og lögaðila á Íslandi gegn netárásum erlendis frá?
    Markmið stjórnvalda að bættu netöryggi er annars vegar að hér á landi sé afburðahæfni og -nýting á netöryggistækni og hins vegar að hér sé öruggt netumhverfi. Til að efla netöryggi á Íslandi og um leið auka vernd einstaklinga og lögaðila á Íslandi gegn netárásum kynnti ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar nýja aðgerðaáætlun í byrjun nóvember 2022 sem stuðlar að fyrrnefndum markmiðum og gildir til fimm ára.
    Aðgerðaáætlunin samanstendur af 64 fjölbreyttum og fullfjármögnuðum aðgerðum, sem byggjast annars vegar á markmiðum og áherslum netöryggisstefnu Íslands sem eiga það sammerkt að vera ætlað að efla netöryggi alls samfélagsins, atvinnulífs, almennings og stjórnvalda, og hins vegar á víðtæku samráði þvert á ráðuneyti og stofnanir.
    Aðgerðir sem stuðla að fyrrnefnda markmiðinu snúa m.a. að traustri netöryggismenningu og netöryggisvitund, öflugri menntun, rannsóknum og þróun, þjónustu og nýsköpun. Þá leggja aðgerðir sérstaka áherslu á netöryggisvitund og vernd barna og er til að mynda stefnt að því að þróað verði fjölbreytt námsefni um netöryggi á öllum skólastigum. Aðgerðir sem stuðla að markmiði um öruggt netumhverfi á Íslandi snúa að miklu leyti að öflugri löggæslu, vörnum og þjóðaröryggi ásamt skilvirkum viðbrögðum við atvikum og traustu lagaumhverfi. Til að mynda fela aðgerðir í sér greiningu og endurmat á valdheimildum stjórnvalda vegna alvarlegra netárása og hvort ákvæði almannavarnalaga þarfnist endurskoðunar með tilliti til þróunar í stafrænni tækni. Þá stendur til að endurskoða regluverk um starfsemi hýsingaraðila með staðfestu á Íslandi til að koma í veg fyrir brotastarfsemi í skjóli nafnleyndar.

     2.      Hefur komið til skoðunar að heimila lögreglunni að rannsaka brot sem bitna á fólki hérlendis en eru framin erlendis af erlendum aðilum?
    Lögregla hefur heimildir til að rannsaka brot sem bitna á fólki hérlendis en eru framin erlendis af erlendum aðilum. Skv. 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skal lögregla hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Í I. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er að finna reglur um gildissvið refsilaga og er í þessu samhengi sérstaklega vísað til 6. gr. laganna. Ákvæðið kveður á um að refsa skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot, þótt það sé framið utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver var að því valdur, en síðan er að finna upptalningu á m.a. ýmsum alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Þar er t.d. talinn upp samningur Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun frá 25. október 2007 og að refsa skuli fyrir háttsemi sem brýtur gegn honum. Þannig hefur lögreglan heimildir til að rannsaka brot sem varðar þá samninga sem taldir eru upp í 6. gr. almennra hegningarlaga.

     3.      Með hvaða hætti geta íslensk lögregluyfirvöld átt samstarf við erlend lögregluyfirvöld þegar brotið er utan lögsögu Íslands á fólki á Íslandi?
    Íslensk lögregluyfirvöld eiga í margvíslegu samstarfi við erlend lögregluyfirvöld, m.a. í gegnum EUROPOL og INTERPOL. Lögregluyfirvöld geta óskað eftir upplýsingum í tengslum við rannsóknir sakamála á löggæslustigi frá þessum alþjóðastofnunum. Þurfi íslensk lögregluyfirvöld á aðstoð að halda frá erlendum lögregluyfirvöldum við rannsókn sakamála hér á landi, t.d. til að gera húsleitir erlendis eða taka skýrslur af erlendum vitnum, geta þau óskað eftir alþjóðlegri réttaraðstoð. Slík aðstoð fer fram á grundvelli laga nr. 13/1984 og samninga sem íslenska ríkið hefur gengist undir. Málsmeðferðin felur það í sér að erlendar réttarbeiðnir eru sendar í gegnum dómsmálaráðuneytið, sem er miðlægt stjórnvald þegar kemur að réttaraðstoð, til miðlægs stjórnvalds í því ríki sem aðstoðar er þörf frá.
    Alþjóðleg réttaraðstoð eða gagnkvæm réttaraðstoð í sakamálum er í grundvallaratriðum reist á frjálsum vilja ríkis til að veita öðru ríki eða ríkjum aðstoð við rannsókn sakamáls. Þá hefur fjöldi ríkja skuldbundið sig með samningum, gjarnan fjölþjóðlegum, til að veita öðru ríki margvíslega aðstoð við rannsókn sakamála. Alþjóðleg réttaraðstoð í sakamálum er grundvallarþáttur í baráttunni gegn hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og netglæpum, sem og öðrum glæpum sem fara þvert á landamæri og því mikilvægt að ríki setji sér ekki hindranir við meðferð slíkra mála. Markvisst hefur verið unnið að því á alþjóðlegum vettvangi að stuðla að greiðri og skilvirkri réttaraðstoð við rannsókn sakamála enda hefur þróun undanfarinna ára sýnt að brotastarfsemi virðir ekki landamæri og því er nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu sífellt að aukast. Í samræmi við þetta á Ísland aðild að mörgum fjölþjóðlegum samningum sem hafa það að markmiði að efla samvinnu og samstarf þjóða í baráttu gegn ýmiss konar afbrotum.
    Grundvallarsamningur á þessu sviði er Evrópuráðssamningurinn um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 1959. Samkvæmt samningnum skuldbinda samningsaðilar sig til að veita hver öðrum, samkvæmt ákvæðum samningsins, víðtæka gagnkvæma aðstoð í sakamálum. Meðal annarra samninga á þessu sviði sem Ísland á aðild að má nefna samninginn um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 29. maí 2000 og bókun við hann frá 16. október 2001 og Norðurlandasamninginn um gagnkvæma dómsmálaaðstoð frá 26. maí 1975. Þá kveða Evrópusamningurinn um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 1990, samningur Evrópuráðsins um tölvubrot frá 2001, samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 1988 og samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri brotastarfsemi frá 2000 á um gagnkvæma aðstoð í sakamálum ásamt fleiri samningum sem Ísland er aðili að á vettvangi Evrópuráðsins eða Sameinuðu þjóðanna. Nú síðast undirritaði Ísland aðra viðbótarbókun við samninginn um tölvubrot er varðar aukna samvinnu og upplýsingar um rafræn sönnunargögn (bókun nr. 224) í maí á síðasta ári. Vinna við fullgildingu bókunarinnar er hafin og standa vonir til að innleiðing hennar muni auka skilvirkni og gæði rannsókna þar sem rafræn sönnunargögn koma við sögu.
    Þá er vert að taka það fram að sé sakborningur í sakamáli hér á landi erlendur ríkisborgari sem staddur er erlendis er ávallt hægt að skoða þann möguleika að óska eftir framsali á honum á grundvelli laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

    Framangreint svar var unnið í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið sem fer með netöryggismál í Stjórnarráðinu.