Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1164  —  462. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur um rafeldsneyti.


     1.      Hver er stefna stjórnvalda um framleiðslu rafeldsneytis á Íslandi til notkunar innan lands?
    Í orkustefnu fyrir Ísland og aðgerðaáætlun hennar, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, er að finna aðgerðir sem snúa að innlendri eldsneytisframleiðslu. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er fjallað um innlent endurnýjanlegt eldsneyti og Orkusjóður hefur styrkt verkefni í því skyni að auka innlenda eldsneytisframleiðslu, þ.m.t. rafeldsneytisframleiðslu.
    Þessar aðgerðir eru hluti af markmiðum Íslands í loftslagsmálum, þ.e. að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2040 og ná kolefnishlutleysi sama ár. Aukin eftirspurn er eftir vistvænu eldsneyti og ljóst er að til að ná markmiðum orkustefnu þarf á næstu árum að auka framleiðslu innan lands á vistvænu eldsneyti til að það geti leyst innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi

     2.      Hver er stefna stjórnvalda um framleiðslu rafeldsneytis á Íslandi til útflutnings?
    Innlendir endurnýjanlegir orkugjafar þurfa í auknum mæli að mæta vaxandi eftirspurn eftir vistvænum valkostum sem leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að standa við markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og mæta þeirri áskorun sem felst í að verða óháð jarðaefnaeldsneyti. Slík áform er að finna í framangreindum stefnum og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Orkuskipti með innlendum orkugjöfum stuðla að bættu orkuöryggi landsins sem er mikilvægt markmið í sjálfu sér. Stjórnvöld geta með sínum áherslum stutt við innlenda framleiðslu og hvatt til notkunar til orkuskipta innanlands.
    Um þessar mundir er mikil þróun og verulega aukin eftirspurn eftir „grænu vetni“ og rafeldsneyti víða í Evrópu. Með „grænu vetni“ er átt við vetni sem framleitt er með endurnýjanlegri raforku. Grænt vetni og annað rafeldsneyti sem er af endurnýjanlegum uppruna á eftir að gegna lykilhlutverki í næstu áföngum í orkuskiptum þjóða og við að ná loftslagsmarkmiðum þeirra. Veruleg nýsköpun á sér stað á því sviði og mun hún stuðla, ásamt almennu lögmáli framboðs og eftirspurnar, að aukinni framleiðslu á slíkum endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Ísland býr við þá sérstöðu að 99,9% raforkuframleiðslu í landinu er af endurnýjanlegum uppruna. Ef vilji er til þess að Ísland geti tekið þátt í framangreindri þróun og mætt vaxandi eftirspurn er ljóst að það þarf aukna raforkuframleiðslu svo að hægt sé að auka framleiðslu á innlendum orkugjöfum. Mikill áhugi er sem stendur erlendis frá á útflutningi á vetni frá Íslandi. Eitt af þeim verkefnum sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun orkustefnu er að kanna möguleika á sviði framleiðslu og útflutnings á vetni til lengri tíma og tækifæri í alþjóðlegu samstarfi á því sviði.

     3.      Hvernig sjá stjórnvöld fyrir sér að stuðla að notkun rafeldsneytis í flugumferð til og frá landinu í ljósi þess að í dag er hægt að nýta rafeldsneyti sem allt að helming eldsneytis millilandaflugvéla án uppfærslu á búnaði?
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur nú skipað starfshóp sem mun sérstaklega taka til skoðunar hvaða leiðir eru færar til að hraða orkuskiptum í flugi með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug og leggja fram tillögur þar að lútandi. Starfshópnum verður jafnframt falið að skoða fýsileika slíkrar framleiðslu hér á landi og hvaða kröfur eru gerðar til slíkrar starfsemi. Hópurinn skal skoða regluverk ESB um flugvélaeldsneyti (ReFuel) samhliða tengdri löggjöf um ETS-kerfið og um endurnýjanlega orkugjafa (REDII) og áhrifin á eftirspurn eftir endurnýjanlegu eldsneyti.