Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1176  —  489. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um biðtíma eftir afplánun í fangelsum landsins.


     1.      Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að stytta langa biðlista eftir afplánun í fangelsum landsins?
    Stytting biðlista eftir afplánun í fangelsi er eitt af forgangsatriðum dómsmálaráðherra. Það er óviðunandi að fjöldi dómþola skuli hefja afplánun refsingar nokkrum árum eftir að dómur fellur og slíkt leiðir jafnframt til þess að varnaðaráhrif refsingarinnar verða minni en annars.
    Á fjáraukalögum 2022 fékk dómsmálaráðherra samþykkt 150 millj. kr. framlag til styrkingar reksturs fangelsanna og 250 millj. kr. varanlegt framlag til rekstursins á fjárlögum. Með auknum fjárveitingum verður m.a. lögð áhersla á að nýta betur þau fangarými sem eru til staðar með það að markmiði að refsingar fyrnist ekki og að biðtími eftir afplánun verði styttri.

     2.      Er að mati ráðherra hægt að stytta biðtíma eftir afplánun með öðrum leiðum en auknum fjárveitingum til Fangelsismálastofnunar?
    Að mati ráðherra eru tækifæri til að stytta biðtíma eftir afplánun með öðrum leiðum en auknum fjárveitingum til Fangelsismálastofnunar. Árin 2020 og 2021 var farið í sérstakar aðgerðir til að stytta boðunarlista í fangelsi. Sem dæmi má nefna að lögum nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, var breytt tímabundið, t.d. með það að markmiði að fleiri dómþolar ættu möguleika á að fullnusta dóm sinn með samfélagsþjónustu í stað fangelsis. Gilda þessi tímabundnu ákvæði til ársins 2024 en innan dómsmálaráðuneytisins er nú unnið að því að leggja mat á hvort æskilegt væri að gera þau ákvæði varanleg og jafnframt hvort fara þurfi í frekari aðgerðir til styttingar á boðunarlista í fangelsi. Slíkar aðgerðir er mikilvægt að skoða vandlega, m.a. út frá þeim varnaðaráhrifum sem refsingum er ætlað að hafa.

     3.      Hver hefur verið meðalbiðtími þeirra 279 karla og 38 kvenna sem biðu eftir afplánun í lok september 2022, sbr. svar ráðherra á þskj. 532 á yfirstandandi þingi?
    Þeir dómþolar sem voru á boðunarlista eftir afplánun í fangelsi 20. nóvember sl. höfðu verið á listanum í að meðaltali 2,2, ár. Í einhverjum tilvikum höfðu dómþolar sjálfir óskað eftir lengri fresti og í öðrum tilvikum hefur reynst erfitt að hafa uppi á þeim, t.d. vegna þess að þeir eru erlendis. Þess ber jafnframt að geta að töluverður fjöldi dómþola fer aldrei á boðunarlista þar sem þeir sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms og hefja þá afplánun um leið.

     4.      Hver er heildarfjöldi fangelsisrýma í landinu? Hver er viðbúin nýting þeirra á næsta ári?
    Heildarfjöldi rýma í fangelsum landsins er 177 og nú fer fram greiningarvinna á því með hvaða hætti sé best að fjölga fangelsisrýmum. Miðað við upplýsingar um fjárveitingar sem liggja til grundvallar er áætlað að hægt verði að nýta um 160–168 pláss á hverjum tíma að meðaltali eða um 90–95% rýma.

     5.      Hvaða áhrif hafa stórar sakamálarannsóknir þar sem margir sæta gæsluvarðhaldi á biðlista í fangelsum landsins?
    Á Íslandi eru ekki til staðar sérstök gæsluvarðhaldsfangelsi og því eru þeir sem sæta gæsluvarðhaldi vistaðir meðal afplánunarfanga í fangelsum landsins, aðallega í lokuðu fangelsunum á Hólmsheiði og Litla-Hrauni. Til viðbótar við þau 177 rými í fangelsum landsins eru fjögur einangrunarpláss á Hólmsheiði sem eingöngu er hægt að nota fyrir gæsluvarðhaldseinangrun. Það er því ljóst að ef margir einstaklingar sæta gæsluvarðhaldi þá hefur það þau áhrif að færri pláss eru fyrir afplánunarfanga sem því nemur. Slíkt hefur haft þau áhrif að stofnunin hefur þurft að hægja á boðun til afplánunar í fangelsi. Þá hefur ekki alltaf verið hægt að bregðast við því ef menn mæta ekki til afplánunar á réttum tíma, þ.e. með því að fela lögreglu að handtaka þá og færa til afplánunar eins og lög um fullnustu refsinga gera ráð fyrir.
    Rétt er að halda því til haga að margir sem sæta gæsluvarðhaldi, sérstaklega í stórum sakamálum, eru í fangelsi þar til dómur fellur og enda því aldrei á boðunarlista Fangelsismálastofnunar þar sem afplánun þeirra hefst um leið og dómur berst stofnuninni. Kemur gæsluvarðhald þá til frádráttar refsingunni.

     6.      Hver hefur þróun fjárveitinga til Fangelsismálastofnunar verið frá 2008 og til dagsins í dag? Hversu mörg ár hefur Fangelsismálastofnun sætt kröfu um niðurskurð frá árinu 2008?
    Þróunin hefur verið neikvæð nánast öll árin á grunnfjárheimildum Fangelsismálastofnunar. Frá árinu 2008 og til ársins í ár hefur verið niðurskurður öll árin og hagræðingarkrafa. Þó er rétt að benda á að nýjum verkefnum hefur oft fylgt fjármagn, t.d. var byggt nýtt fangelsi á Hólmsheiði á þessum tíma. Á fjáraukalögum 2022 var samþykkt 150 millj. kr. framlag til styrkingar starfseminni og 250 millj. kr. varanlegt framlag á fjárlögum 2023.

     7.      Hefur Fangelsismálastofnun síðla hluta þessa árs hætt að boða fanga til afplánunar vegna bágrar fjárhagsstöðu fangelsa landsins? Ef svo er, telur ráðherra þá stöðu boðlega fyrir íslenskt samfélag?
    Fangelsismálastofnun hefur ekki hætt að boða fanga til afplánunar á þessu ári. Þegar slíkt hefur verið gert hefur reynst erfitt að vinda ofan af því. Í stað þess að hætta að boða dómþola til afplánunar hefur verið lengt í boðunarferlinu. Þá má einnig nefna að dæmi eru um að ekki hafi verið hægt að taka við gæsluvarðhaldsföngum frá lögreglu sem hefur þá þurft að vista þá á lögreglustöð í einhvern tíma í stað fangelsis.

     8.      Telur ráðherra forsvaranlegt að opin úrræði á borð við Sogn þurfi að hætta starfsemi vegna þess að fjármagn til reksturs þeirra skortir?
    Af hálfu dómsmálaráðherra stendur ekki til að fækka opnum úrræðum, en til skoðunar eru ýmsar útfærslur um að fjölga rýmum í þeim opnu úrræðum sem þegar eru til staðar og verða þær kynntar von bráðar. Árétta ber að aukið fjármagn fékkst í rekstur Fangelsismálastofnunar í fyrsta skipti nú í ár frá árinu 2008 en fjárveitingarvaldið er í höndum Alþingis.