Ferill 728. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1187  —  728. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um auðkenningu umsækjenda af hálfu ISNIC.


     1.      Hvernig eru erlendir ríkisborgarar auðkenndir af hálfu ISNIC er þeir sækja um lén ef þeir eru ekki krafðir um kennitölu líkt og íslenskir ríkisborgarar?
     2.      Telur ráðherra að þetta fyrirkomulag standist jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944?


    Internet á Íslandi hf. (ISNIC) er einkafyrirtæki en ekki stjórnvald og heyrir ekki stjórnarfarslega undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. ISNIC gegnir hlutverki skráningarstofu samkvæmt 8. gr. laga um íslensk landshöfuðlén, nr. 54/2021, og sér um skráningu léna undir landsléninu .is og rekstur á tæknilegum innviðum því tengdum. Starfsemi ISNIC lýtur eftirliti Fjarskiptastofu skv. 13. gr. sömu laga. Leitað var til ISNIC vegna fyrirspurnarinnar og eru svör ráðherra byggð á upplýsingum frá fyrirtækinu.
    Krafa er ekki gerð um kennitölu rétthafa við nýskráningu léns og skiptir þá ekki máli hvort um íslenskan eða erlendan rétthafa er að ræða. Hins vegar kjósa innlendir aðilar í langflestum tilvikum að nota kennitölu hjá ISNIC sér (og ISNIC) til mikils hægðarauka. Sé kennitala notuð við skráningu rétthafa léns sækir ISNIC hluta skráningarupplýsinganna sjálfvirkt í Þjóðskrá og uppfærir þar reglulega. Þetta eitt og sér telst ekki ígildi auðkenningar. Innlendir aðilar geta skráð lén án kennitölu en ótvírætt hagræði felst í því að kennitala sé gefin upp. Ef engin kennitala er gefin upp fyrir innlendan greiðanda léns er ekki mögulegt að stofna reikning með virðisaukaskatti eða bankakröfu í íslenskum banka á viðkomandi rétthafa/greiðanda. Að því leyti getur verið kerfislega nauðsynlegt fyrir innlenda greiðendur léna að gefa upp kennitölu sína. Þá má taka fram að allir geta stofnað tengilið (NIC-auðkenni) hjá ISNIC og á hvaða kennitölu sem er. Kjósi notandi hins vegar að nota auðkenningarþjónustuna Ísland.is, sem ISNIC býður upp á við innskráningu, er um að ræða auðkenningu í þeim skilningi sem spurt er um. Þjónusta Ísland.is er aðeins í boði fyrir þá sem hafa íslenska kennitölu.
    ISNIC notar ekki kennitölur sem einkvæmt viðskiptamannanúmer, eins og tíðkast á Íslandi, heldur stofnar hver viðskiptamaður/notandi sitt „NIC-auðkenni“ (viðskiptamannanúmer) og notar það síðan sem einn eða fleiri af fjórum tengiliðum lénsins (rétthafi, tengiliður rétthafa, greiðandi og tæknilegur tengiliður). Tengiliðirnir geta ýmist verið með eða án kennitölu, innlendir jafnt sem erlendir, búsettir á Íslandi eða erlendis. Flest lén hafa fleiri en einn tengilið, sem oft eru óskyldir aðilar (hýsingarfyrirtæki, umboðsmaður og þess háttar).
    Ef upp kemur grunur um ranga skráningu rétthafa léns, eða að beiðni þar til bærra innlendra yfirvalda, eða í tilviki deilu um lén, fer oftar en ekki af stað auðkenningarferli þar sem ISNIC getur á grundvelli eigin reglna og lénalaga krafið viðkomandi rétthafa um að sanna á sér deili. Þar sitja innlendir og erlendir aðilar við sama borð.
    Í svonefndri „hvítbók internetsins“, internetstaðlinum RFC 1591, sem ISNIC starfar eftir, kemur beinlínis fram að ISNIC skuli meðhöndla alla rétthafa léna jafnt og af sanngirni óháð uppruna eða hverju öðru og er það gert.
    Framangreint verklag gefur ekki tilefni til athugasemda að mati ráðherra.