Ferill 720. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1188  —  720. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um neyðarástand fjarskipta.


     1.      Hver er staða neyðarbirgða í landinu af íhlutum til fjarskipta í ljósi þess hve rekstur samfélagsins er háður fjarskiptainnviðum?
    Mikilvægir innviðir fjarskiptakerfa eru skilgreindir í lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019. Fjarskiptastofa fer með eftirlit vegna stafrænna grunnvirkja, sbr. f-lið 1. mgr. 11. gr. laganna. Fjarskiptastofa skal stuðla að því að fjarskiptanet hér á landi byggist á bestu framkvæmd og nýjustu stöðlum og ávallt sé litið til áreiðanleika- og öryggissjónarmiða, þ.m.t. við uppbyggingu nýrra fjarskiptainnviða. Fjarskiptastofu hefur ekki verið falið það hlutverk í lögum að fylgjast með nauðsynlegum neyðarbirgðum fjarskiptaþjónustu. Lögbundin skilgreining á svonefndum neyðarbirgðum fjarskiptainnviða liggur ekki fyrir.
    Í samráði við þjónustuaðila fjarskipta hefur Fjarskiptastofa skilgreint og skipt innviðum fjarskiptakerfa upp í eftirtalda flokka: a) gagnaflutningsnet, b) radíókerfi (RAN), c) símkerfi (kjarnar), d) kerfisþjónustu og e) aðra hluta. Í upplýsingasöfnun við undirbúning skýrslu starfshóps forsætisráðherra um neyðarbirgðir kom fram að þjónustuaðilar hafa gert ráðstafanir til að tryggja rekstraröryggi þessara fjarskiptainnviða með ýmsum leiðum, eins og með tvöföldu eða margföldu kerfi umfram afkastaþörf og með eigin íhluta- og varahlutalager sem gerir þeim kleift að sinna algengu viðhaldi og endurbyggja innviði eins og tengipunkta og senda með skömmum fyrirvara. Að öðru leyti er treyst á öflun íhluta- og varahluta af lager hjá erlendum birgjum og viðgerðarþjónustu erlendra aðila sem miðast að jafnaði við 30 daga.

     2.      Er til staðar aðgerðaáætlun í ráðuneytinu ef til kemur rof á fjarskiptum með tilliti til rafrænna skilríkja, rafrænna greiðslna, kredit- og debetkortagreiðslna og þess háttar? Ef svo er, hver er hún?
    Samkvæmt lögum um um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019, skal Fjarskiptastofa stuðla að áreiðanlegum fjarskiptum út frá hagsmunum almannavarna, neyðarfjarskipta og netöryggis og skal vera ráðgefandi aðili fyrir yfirvöld þegar almannavarnaástand er yfirvofandi, það stendur yfir og er afstaðið. Fjarskiptastofa skal samkvæmt lögunum jafnframt stuðla að öryggi og viðnámsþrótti fjarskiptainnviða, almanna- og þjóðaröryggi og samhæfðum viðbrögðum við sérstakar aðstæður, eftir atvikum með fyrirmælum um tilteknar ráðstafanir hjá fjarskiptafyrirtækjum. Þegar almannavarnaástandi hefur verið lýst yfir getur Fjarskiptastofa gefið fjarskiptafyrirtækjum fyrirmæli um aðgerðir til að tryggja fjarskiptasamband á tilteknu svæði, svo sem að opnað skuli fyrir reikiþjónustu samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laganna. Í samræmi við framangreint lögbundið hlutverk getur Fjarskiptastofa virkjað viðbragðsáætlun fyrir fjarskiptafyrirtæki ef rof verður á fjarskiptum. Þegar um alvarlegri tilvik er að ræða sem valda fjarskiptarofi í lengri tíma virkjast viðbragðsáætlun almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem tekur til fjarskipta og raforkudreifingar.
    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu málefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fellur löggjöf um þjónustu Stafræns Íslands og innlenda og erlenda greiðslumiðlun utan ábyrgðarsviðs háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.