Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1195  —  487. mál.
Síðari umræða.



Breytingartillaga


við tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


    Á eftir g-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: 10. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að íslenskt yfirráðasvæði, þ.e. landsvæði, innsævi, landhelgi og lofthelgi, sé skilgreint sem kjarnavopnalaust svæði í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Varatillaga:
    Á eftir g-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: 10. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að Ísland sé skilgreint sem kjarnavopnalaust svæði í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Tillaga til þrautavara:
    Á eftir g-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: 10. tölul. 5. mgr. orðist svo: Að Ísland sé friðlýst fyrir kjarnavopnum í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.



Greinargerð.

    Með megintillögunni er lagt til að fella brott þá tilvísun að við friðlýsingu Íslands og íslenskrar landhelgi fyrir kjarnavopnum skuli taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga. Mikilvægt er að slíkar skerðingar á fullveldisrétti séu skýrar og byggðar á vísun í þær skuldbindingar sem um kann að vera að ræða. Þá eru gerðar tvær orðalagsbreytingar; annars vegar er orðalag fært nær ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um kjarnavopnalaus svæði og hins vegar er lagt til að íslenskt yfirráðasvæði sé skilgreint með nákvæmari hætti.
    Með varatillögunni er brugðist við þeim sjónarmiðum að hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna kunni að standa í vegi þess að hafsvæði sé að fullu friðlýst fyrir umferð farartækja með kjarnavopn. Því er lagt til að tillöguliðurinn nái aðeins yfir landsvæði sem samræmist því sem forsætisráðherra ítrekaði við fyrri umræðu, að ekki standi til að setja kjarnavopn á íslenska grundu frekar en nokkru sinni áður.
    Þrautavaratillagan færir orðalag aftur að gildandi stefnu en er efnislega samhljóða varatillögunni.