Ferill 661. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1226  —  661. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar.


     1.      Hvaða rannsóknir liggja fyrir á lífríki Breiðafjarðar með tilliti til nýtingar á hörpudiski og öðrum hryggleysingjum?
    Þar sem Hafrannsóknastofnun veitir árlega ráðgjöf um helstu nytjastofna þá leitaði ráðuneytið til stofnunarinnar varðandi rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar. Í svari stofnunarinnar kemur fram að Hafrannsóknastofnun veitir árlega ráðgjöf um helstu nytjastofna en þar af eru fimm stofnar hryggleysingja í Breiðafirði: rækja í Kolluál, hörpudiskur, ígulkerið skollakoppur, beitukóngur og sæbjúgu (utarlega í firðinum). Nánari upplýsingar um stöðu einstaka stofna er að finna í útgefnum ráðgjafarskjölum og tækniskýrslum Hafrannsóknastofnunar sem er að finna á vefsvæði stofnunarinnar ( www.hafogvatn.is/is/ veidiradgjof).
    Hafrannsóknastofnun veitti ráðgjöf á árunum 2000 til 2022 fyrir hörpudisk á tveimur skilgreindum veiðisvæðum í Breiðafirði, í Breiðasundi nærri Stykkishólmi og utarlega í Hvammsfirði. Ráðgjöfin byggir á niðurstöðum nokkuð umfangsmikilla tilraunaveiða og könnunarleiðangra með myndavélum og plógum sem farnir voru á árunum 2014–2019. Kort af veiðisvæðum og mat á lífmassa úr leiðöngrum er að finna á eftirfarandi vefslóð Hafrannsóknastofnunar ( heima.hafro.is/~jonasp/) en niðurstöðum kannana og tilraunaveiða hefur verið gerð skil í eldri tækniskýrslum stofnunarinnar ( www.hafogvatn.is/is/ veidiradgjof/horpudiskur). Tilraunaveiðarnar og kannanirnar voru samstarf aflahlutdeildarhafa og Hafrannsóknastofnunar, en veiðibann hafði þá verið í gildi frá árinu 2003 þegar stofn hörpudisks hrundi í Breiðafirði. Niðurstöður tilraunaveiðanna leiddu í ljós að veiðiþol stofnsins er lítið, en meiri nýliðunar hafði gætt í suðurhluta fjarðarins og stóðu þeir stofnar betur en í norðurhlutanum eftir tilraunaveiðarnar. Í framhaldinu var aflamark lagt til í Breiðasundi og Hvammsfirði. Almennt var lækkun lífmassa vísitalna umtalsvert meiri en það magn sem var veitt og styður það eldri vísbendingar um að óbeinn veiðidauði sé mjög hár við plógveiðar á skel. Nýleg þróun á veiðitækni til að mynda hjá tveimur framleiðendum „skelsuga“ í Noregi gæti skipt sköpum varðandi framtíð veiða á svæðum eins og í Breiðafirði, þá bæði fyrir skel og ígulker. Frá því að samstarfi heimamanna og Hafrannsóknastofnunar lauk árið 2019 hafa ekki verið farnar rannsóknarferðir til að meta ástand stofnsins. Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar árið 2022 kom fram að: ,,Án upplýsinga úr stofnmælingaleiðöngrum mun Hafrannsóknastofnun ekki geta metið ástand hörpudisks í Breiðafirði árið 2023.“
    Veiðiráðgjöf fyrir ígulkerið skollakopp og beitukóng byggir á tímaháðum breytingum í afla og inntaksgögn eru afli og afli á sóknareiningu, en ekki er stuðst við stofnmælingar í ráðgjöf eins og sakir standa. Rannsóknarleiðangur með neðansjávarmyndavélum á ígulkeraslóð var síðast farinn árið 2018 auk þess að æxlunarferill skollakopps var metinn út frá gögnum áranna 2016–2017. Tveir leiðangrar með beitukóngsgildrum hafa verið farnir í Breiðafjörð, fyrst árin 1997/1998 skömmu eftir að veiðar hófust og svo aftur árið 2012.
    Að auki er vert að minnast á að á undanförnum árum hefur Hafrannsóknastofnun unnið að rannsóknum á þangi og þara í Breiðafirði með tilliti til nýtingar. Byrjað var á að meta heildarmagn klóþangs í firðinum árið 2016 og síðan hefur verið unnið að því að rannsaka endurvöxt klóþangs eftir skurð og áhrif þangtekju á nokkra þætti í lífríki fjörunnar. 1 Einnig er unnið að úttekt á magni og dreifingu hrossa- og stórþara í Breiðafirði. Samhliða hefur verið unnið að rannsóknum á áhrifum nýtingar á tegundir sem nýta þang og þara sem búsvæði. Þessar niðurstöður eru enn í vinnslu en munu liggja fyrir á næstu mánuðum eða ári.
    Varðandi frekari rannsóknir þá fyrirhugar Hafrannsóknastofnun að fara í stofnmælingaleiðangur í apríl í Snæfellsnesrækju, en ekki var farið í leiðangra á árunum 2021 og 2022.

     2.      Telur ráðherra þörf á ítarlegri rannsóknum á nýtingu sjávarfangs þar og stöðu nytjastofna á svæðinu?
    Ráðherra telur mikilvægt að rannsóknir séu stundaðar á nýtingu sjávarfangs í Breiðafirði og að fyrir liggi góðar rannsóknir um stöðu nytjastofna á svæðinu. Með auknum rannsóknum má treysta ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu veiðistofna í firðinum og vakta áhrif nýtingar á lífríki fjarðarins. Hins vegar eru margir veiðistofnar hryggleysingja í Breiðafirði smáir, hagsmunaaðilar eru fáir og vöktun á þessum stofnum hefur verið afar takmörkuð síðustu ár, m.a. vegna forgangsröðunar verkefna. Hafrannsóknastofnun hefur í gegnum tíðina staðið að vöktun hörpudisksstofnsins í Breiðafirði og einnig stundað ýmsar rannsóknir á öðrum botnlægum hryggleysingjum og sjávargróðri. Breiðafjörður er einnig mikilvæg uppeldisslóð okkar helstu nytjastofna og því er mikil þörf er að vakta vel og stunda grunnrannsóknir á lífríkinu og nytjategundum í Breiðafirði. Umfangsmiklar veiðar voru stundaðar á hörpudiski á árabilinu 1970–2003 og í seinni tíð hafa skollakoppur og beitukóngur einnig verið nýttir.
    Ráðuneytið leitaði jafnframt til Hafrannsóknastofnunar varðandi mat á þörf á frekari rannsóknum. Í svari stofnunarinnar kemur fram að hún telji að auka þurfi bæði rannsóknir og vöktun í Breiðafirði og að svæðið henti vel til rannsókna sem byggja á heildstæðri nálgun þar sem vöktun á lífríki, veiðistofnum og aðkoma hagsmunaaðila og samfélags fer saman. Jafnframt kom fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn ráðherra að í Breiðafirði sé að finna frjósömustu grunnslóð við Ísland.


1    Skýrslu má finna hér: www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/klothang-i-breidafirdi-utbreidsla-og-magn-hv-2019-16