Ferill 807. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1244  —  807. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um þróunaráætlun og tilraunaverkefni fyrir ræktun lyfjahamps og notkun kannabislyfja í lækningaskyni.


Flm.: Ásmundur Friðriksson, Vilhjálmur Árnason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra í samráði við menningar- og viðskiptaráðherra að setja á fót starfshóp sem hafi það hlutverk að útbúa frumvarp sem heimili fyrirtækjum að sækja um leyfi fyrir ræktun lyfjahamps til kannabisræktunar og fyrir framleiðslu og dreifingu á kannabislyfjum í lækningaskyni. Um verði að ræða fjögurra ára tilraunaverkefni sem hefjist 1. janúar 2024. Heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis fyrir 31. desember 2023.



Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi er endurflutt frá 152. löggjafarþingi óbreytt en með uppfærðum upplýsingum um sambærilegt tilraunaverkefni í Danmörku.
    Stefna stjórnvalda og heilbrigðiskerfisins varðandi kannabisefni hér á landi þarfnast talsverðrar umræðu og þess að grundvöllur verði skapaður til frekari rannsókna, hvort sem er á ræktun plantnanna Cannabis sativa og Cannabis indica eða annarra plantna sem eru þeim skyldar.
    Álit flutningsmanna er að tilraunaverkefni áþekkt því sem stendur yfir í Danmörku myndi skapa opinskáar umræður hér á landi. Verkefnið myndi byggjast á rannsóknum og jafnvel skapa ný tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði á orkuríkum svæðum, til að mynda á Suðurnesjum.
    Tilraunaverkefnið í Danmörku hófst 1. janúar 2018 og hefur þegar verið framlengt umfram þann tímaramma sem upphaflega lá fyrir. Verkefnið skiptist í þróunaráætlun um ræktun hamps, sem heimilar að rækta hampjurtina Cannabis sativa í því skyni að vinna úr henni lyf og síðan tilraunaverkefni um notkun efna úr hampjurtinni í lækningaskyni. Úttekt á fyrri hluta verkefnisins var unnin af danska heilbrigðisráðuneytinu og skýrsla gefin út haustið 2020. Niðurstaða úttektarinnar var sú að tilraunaverkefnið hefði í grundvallaratriðum þótt veita góða og örugga umgjörð um notkun kannabis sem lyfs í læknisfræðilegum tilgangi.
    Í úttekt danska heilbrigðisráðuneytisins kemur einnig fram að upp hafi komið nokkrar áskoranir, m.a. hefur vöruúrval á kannabislyfjum þótt takmarkað og þær vörur sem í boði hafa verið þótt dýrar og heimilislæknar verið tregir til að ávísa vörunum. Fram kemur í úttektinni að þessir þættir hafi leitt til þess að sjúklingar hafi leitað á ólöglegan kannabismarkað fyrir sjálfsmeðferð með kannabisefnum.
    Samkvæmt þeim reglum sem gilda um tilraunaverkefnið hafa allir læknar í Danmörku heimild til þess að ávísa kannabislyfjum til sjúklinga sem glíma við langvinna verki og aðra kvilla ef sjúklingur hefur þegar prófað hefðbundin lyf án viðunandi árangurs. Með tilraunaverkefninu er ekki síst stefnt að því að afla þekkingar um áhrif og aukaverkanir kannabisefna og að koma í veg fyrir að sjúklingar með langvarandi verki þurfi að nálgast kannabisvörur með ólöglegum hætti. Í leiðbeiningum dönsku lyfjastofnunarinnar um kannabislyf eru nefndir fjórir sjúklingahópar sem til greina koma fyrir meðferð með lyfseðilsskyldum kannabislyfjum: einstaklingar með MS-sjúkdóminn, einstaklingar með mænuskaða, sjúklingar í krabbameinslyfjameðferð og sjúklingar með langvinna verki.

    Flutningsmenn leggja til að skipaður verði starfshópur sem verði falið að kanna, ræða og gera drög að frumvarpi um eftirfarandi:
     .      Skilgreiningu leyfa til ræktunar, framleiðslu og dreifingar á kannabis í lækningaskyni.
     .      Útgáfu leyfa.
     .      Þróunaráætlun sem gildi til fjögurra ára og verði í samræmi við reglur um lyfjaprófsáætlanir.
     .      Lista yfir þær kannabisvörur sem heimilt verði að framleiða og dreifa og ávísa megi löglega af læknum og afgreiða í apóteki.
     .      Umsóknarform og umsóknarferlið.
     .      Skilyrði fyrir útgáfu leyfa og að ræktendur tryggi rekjanleika í báðar áttir og geti tilgreint þá aðila sem þeir hafa fengið aðföng frá, svo sem útsæði og fræ.
     .      Meðhöndlun og pökkun framleiðslunnar sem uppfylli kröfur laga og reglugerðar um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     .      Markaðssetningu.
     .      Gjaldtöku.
     .      Tillögu að breytingum á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, ásamt reglugerðum.
     .      Önnur atriði sem nauðsynlegt er að tiltaka í lagafrumvarpinu.

    Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar leggja til að heimilt verði á grundvelli sérstakrar þróunar- og tilraunaáætlunar að framleiða virk efni úr kannabis í læknisfræðilegum tilgangi til að skapa grundvöll til að meta notkun kannabisefna í lok reynslutímabils sem verði fjögur ár. Hér er ekki lögð til lögleiðing á kannabis eða afglæpavæðing kannabisefna. Flutningsmenn telja að líta verði af alvöru til þeirrar tilraunaáætlunar sem Danir hafa unnið að, byggja á reynslu þeirra og annarra þjóða og skapa grundvöll fyrir athugun þess að leyfa kannabis í lækningaskyni til reynslu. Ljóst er að tilraunaverkefnið í Danmörku hefur ekki farið fram án gagnrýni og er því mikilvægt að litið verði til þeirra annmarka sem kunna að hafa verið á verkefninu og lærdómur af þeim dreginn. Slæmt er að fólk sem reynir að lina þjáningar með kannabis þurfi að gerast lögbrjótar eða upplifi sig sem slíka.
    Ekki er réttlætanlegt að meina sjúklingum um aðgang að kannabisvörum til að vernda þá sem hugsanlega geta misnotað þær. Ljóst er að langvinnir verkir eru stórt samfélagslegt vandamál og mikill kostnaður fyrir samfélagið í formi tapaðrar starfsgetu og álags fyrir heilbrigðiskerfið. Þrátt fyrir að sannanir fyrir jákvæðum áhrifum kannabis sem lyfs í læknisfræðilegum tilgangi séu enn sem komið er takmarkaðar þykir ávinningur af læknisfræðilegum kannabisvörum þó vega þyngra en neikvæðu áhrifin.