Ferill 809. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1248  —  809. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2022.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd fjögurra ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 30.–31. ágúst 2022, um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins (nr. 1/2022), um ungt fólk á Vestur-Norðurlöndum (nr. 2/2022), um útlistun og samanburð á áætlunum og fyrirkomulagi vestnorrænu landanna í náttúrutengdri ferðaþjónustu og aðgengi að náttúru (nr. 3/2022) og um vestnorrænt samstarf á sviði jafnréttis (nr. 4/2022).

Greinargerð.

    Á ársfundi Vestnorræna ráðsins árið 2022, sem haldinn var 30.–31. ágúst 2022, voru samþykktar fjórar ályktanir.
    Sú fyrsta fjallar um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins. Árið 2002 var gerður samstarfssamningur milli Vestnorræna ráðsins annars vegar og ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands hins vegar. Sá samningur kveður á um árlega skýrslugjöf vestnorrænna samstarfsráðherra til Vestnorræna ráðsins um framfylgd ályktana þess. Í ályktun nr. 1/2022 hvetur ráðið samstarfsráðherrana til þess að efla árlega skýrslugjöf sína með því að skiptast á að vera í forsvari fyrir sameiginlega skýrslugerð til ráðsins.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2022 er kallað eftir því að barnamálaráðherrar Vestur-Norðurlanda haldi samráðsfund á árinu 2023 þar sem þeir bæru saman reynslu og gögn landanna um stöðu ungmenna hvað varðar heilbrigði, líðan, tómstundaiðkun, samfélagsmiðlanotkun og önnur viðfangsefni með það að markmiði að greina sameiginlegar áskoranir og ræða heildstæðar aðgerðir varðandi þær.
    Með ályktun nr. 3/2022 skorar Vestnorræna ráðið á ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda að rannsaka og bera saman stefnu og fyrirkomulag landanna þriggja í náttúrutengdri ferðaþjónustu, þ.m.t. aðgengi að og verndun náttúrunnar í tengslum við vaxandi ferðaþjónustu í löndunum, með það að markmiði að greina bestu starfsvenjur. Á Vestur-Norðurlöndum hefur ferðaþjónusta vaxið mikið á undanförnum árum og hafa löndin þrjú átt í samstarfi á þessu sviði í mörg ár. Í tengslum við aukinn fjölda ferðamanna hafa komið upp ýmsar áskoranir, eins og til að mynda hvað varðar aðgang að náttúrunni og náttúruupplifun. Löggjöf, reglur og hefðir um náttúruvernd, nýting náttúrunnar, eignarréttur og aðgangur að náttúrunni er mismunandi milli Vestur-Norðurlanda. Löndin þrjú hafa ólíka reynslu af því að mæta áskorunum þegar kemur að aðgangi að náttúrunni og nærumhverfi. Í sameiginlegri markaðssetningu hafa löndin lagt áherslu á stórbrotna náttúru og náttúruupplifun. Í ljósi þessa geta vestnorrænir stjórnmálamenn lært hver af öðrum með því að bera saman bækur sínar þegar kemur að reynslu, regluverki, stefnu og aðgerðum hvað varðar náttúrutengda ferðaþjónustu á svæðinu.
    Fjórða ályktunin, nr. 4/2022, fjallar um jafnréttismál út frá kynjajafnrétti og réttindum hinsegin fólks. Í ályktuninni voru jafnréttisráðherrar landanna þriggja hvattir til að halda fund á árinu 2023 til að bera saman bækur sínar um framfylgd áætlunar norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál árin 2019–2024, þar á meðal viðauka við áætlunina um jöfn réttindi og möguleika hinsegin fólks. Þá voru ráðherrarnir hvattir til að leita lausna á mögulegum sameiginlegum vestnorrænum úrlausnarefnum á vettvangi jafnréttismála.