Ferill 765. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1264  —  765. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um rafræn skilríki fyrir Íslendinga sem búa erlendis.


     1.      Hver er almennur gildistími rafrænna skilríkja, hvað þarf notandi að gera til að endurnýja þau og hvernig geta Íslendingar búsettir erlendis borið sig að við það?
    Hér á landi starfar Auðkenni ehf. sem fullgildur traustþjónustuveitandi í samræmi við lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, og reglugerð nr. 100/2020. Óskað var eftir umsögn Auðkennis um fyrirspurnina og byggjast svör ráðherra á upplýsingum frá fyrirtækinu.
    Almennur gildistími rafrænna skilríkja sem Auðkenni gefur út er fimm ár en mögulegt er að fá skilríki á svonefndu Auðkenniskorti með styttri gildistíma. Ef skilríki sem gefið hefur verið út á skráningarstöð er við það að renna út getur notandi fengið útgefið nýtt skilríki í sjálfsafgreiðslu í smáforriti frá Auðkenni eða öðru í símanúmeri áður en skilríkið rennur út. Aðilar sem geta ekki nýtt sér þennan möguleika þurfa að mæta í eigin persónu á skráningarstöð á Íslandi og framvísa gildum persónuskilríkjum.

     2.      Er stefnt að því að fela sendiráðum og eftir atvikum ræðismönnum að bjóða upp á afgreiðslu og endurnýjun rafrænna skilríkja fyrir Íslendinga búsetta erlendis? Ef svo er, hvenær má búast við að af því verði?
    Auðkenni vinnur að því með utanríkisráðuneytinu að opna skráningarstöðvar í sendiráðum Íslands sem munu bæta aðgengi Íslendinga búsettra erlendis að slíkri þjónustu.

     3.      Hafa íslensk stjórnvöld rætt við stjórnvöld í öðrum ríkjum að þau geri Íslendingum búsettum þar kleift að sækja um eða endurnýja rafræn skilríki án þess að þurfa að koma til Íslands?
    Ekki er kunnugt um slíkar milliríkjaviðræður.

     4.      Hvernig er að öðru leyti fyrirhugað að koma til móts við Íslendinga erlendis sem þurfa á rafrænum skilríkjum að halda en hafa ekki tök á að ferðast til Íslands til að sækja um þau eða endurnýja?
    Auðkenni vinnur að breytingum á smáforriti Auðkennis sem mun gera einstaklingum með íslensk vegabréf kleift að nota lífkennaupplýsingarnar sínar, annars vegar þær sem fram koma í vegabréfi og hins vegar svokallaða „liveliness“-greiningu á andliti sínu, fyrir sjálfsafgreiðslu rafrænna skilríkja. Þegar sú lausn er tilbúin munu Íslendingar búsettir erlendis, sem hafa gild íslensk vegabréf, geta sótt skilríki í gegnum lífkennaleiðina. Þessi breyting kallar á samþykki eftirlitsaðila í samræmi við starfsleyfi Auðkennis.