Ferill 823. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1268  —  823. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aukið aðgengi að hjálpartækjum fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.


Frá velferðarnefnd.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að auka aðgengi að hjálpartækjum fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu með úthlutun nýrra hjálpartækja í samræmi við 4. gr. laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008, og reglugerð nr. 233/2010, um úthlutun á hjálpartækjum á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
    Í framangreindu skyni verði 70 millj. kr. varið árin 2024 og 2025 til kaupa á hjálpartækjum í samræmi við reglugerð nr. 233/2010, 35 millj. kr. hvort ár, og komi það fjármagn til viðbótar því fjármagni sem gert hefur verið ráð fyrir í fjármálaáætlun.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að tryggt verði aukið fjármagn til kaupa á nýjum tegundum hjálpartækja fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu sem geta aukið verulega lífsgæði þeirra sem geta nýtt sér þessi hjálpartæki.
    Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu (hér eftir Þjónustu- og þekkingarmiðstöð) sér samkvæmt reglugerð nr. 233/2010 um úthlutun á hjálpartækjum sem nauðsynleg eru vegna blindu, sjónskerðingar og samþættrar sjón- og heyrnarskerðingar, í samræmi við eftirfarandi skilgreiningar:
     Blindur: Einstaklingur telst blindur ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón hans er minni en 5%, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 10 gráðu sjónsvið.
     Sjónskertur: Einstaklingur telst sjónskertur ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón hans er minni en 30% á betra auga, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 20 gráðu sjónsvið, eða ef stafrænt mat sýnir erfiðleika vegna sjónskerðingar með lestur 10 punkta leturs með venjulegum sjónglerjum, við athafnir daglegs lífs og umferli.
     Samþætt sjón- og heyrnarskerðing: Einstaklingur telst með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu ef saman fer sjón- og heyrnarskerðing sem takmarkar athafnasemi hans og hamlar þátttöku í samfélaginu í slíkum mæli að hann þarfnast sértækrar þjónustu, laga þarf umhverfi að þörfum viðkomandi eða nýta sérstakan tæknibúnað til að mæta þörfum hans.
    Þá sér Þjónustu- og þekkingarmiðstöð um úthlutun á hjálpartækjum fyrir lögblinda einstaklinga og hefur við úthlutun byggt á eftirfarandi skilgreiningu, sem þó er ekki skilgreind í framangreindri reglugerð: Einstaklingur telst lögblindur ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón hans er minni en 10% á betra auga, með venjulegum sjónglerjum, eða innan við 15 gráðu sjónsvið eða hálft sjónsvið á báðum augum.
    Almennt gildir að hjálpartæki sem úthlutað er af Þjónustu- og þekkingarmiðstöð er í eigu hennar og ber að skila að notkun lokinni.
    Þörf fyrir aukið fjármagn byggist á því að undanfarin ár hefur orðið mikil þróun á sviði hjálpartækja. Nýjar tegundir hjálpartækja sem bjóða upp á gervigreind og íslenska talgervla eru komnar á markað sem gjörbreyta aðstæðum blindra og sjónskertra og auka lífsgæði þess hóps til muna. Ný tæki með íslenskum talgervli og höfuðborinni stækkun gera einstaklingum til að mynda kleift að færa mynd nær sér og fá þannig betra aðgengi til upplýsingaöflunar og aukið sjálfstæði við að lesa, horfa á sjónvarp og myndbönd og taka þátt í viðburðum með félögum og fjölskyldu. Slík tæki auka möguleika blindra og sjónskertra á að geta tekið þátt í félagslegri virkni sem er áskorun fyrir flesta í þeim hópi. Þá er jafnframt komið á markað tæki sem skannar texta í ýmiss konar formi og les upp á íslensku og ensku eða flytur texta á tölvuform. Slík tæki nýtast vel einstaklingum sem eru blindir eða með mikla sjónskerðingu, auk þess sem þau geta aukið sjálfstæði nemenda til muna í háskólanámi.
    Eins og fram hefur komið hafa fjárframlög vegna sjónhjálpartækja verið óbreytt undanfarin ár, þrátt fyrir að ör þróun hafi orðið á tæknilausnum. Umrædd ný hjálpartæki eru dýr og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð áætlar að um 300 einstaklingar geti nýtt sér nýja tegund hjálpartækja sem bjóða upp á gervigreind og íslenska talgervla. Hvert nýtt tæki kostar á bilinu 300–500 þús. kr. Til að hægt sé að mæta kostnaði við úthlutun nýrra tækja þarf Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin viðbótarfjárframlag árin 2024 og 2025, að upphæð 35 millj. kr. fyrir hvort ár.
    Aukið aðgengi að nauðsynlegum hjálpartækjum fer saman við markmið með gerð landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vinnur nú að, en það er liður í lögfestingu samningsins sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með samningnum skuldbinda aðildarríkin sig m.a. til að láta fötluðu fólki í té aðgengilegar upplýsingar um ferliaðstoð, búnað og hjálpartækni, þar á meðal nýja tækni, auk annarra tegunda aðstoðar, stuðningsþjónustu og búnaðar. Jafnframt skuldbinda þau sig til að sjá til þess að ný tækni sé tiltæk og notuð, þ.m.t. upplýsinga- og samskiptatækni, ferliaðstoð, búnaður og hjálpartækni sem hentar fötluðu fólki.
    Með auknu fjármagni má auka aðgengi blindra, sjónskertra og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu að nauðsynlegum hjálpartækjum og þar með getu þeirra til samfélagsþátttöku og möguleika til sjálfstæðis í daglegu lífi.