Ferill 658. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1331  —  658. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um byggingarrannsóknir og rannsóknir tengdar rakavandamálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er framtíðarsýn ráðherra í byggingarrannsóknum í ljósi fjölda frétta af lekavandamálum og rakaskemmdum? Hefur aðgerðaáætlun verið gerð til að stemma stigu við þessum vandamálum?
     2.      Hve stór hluti rannsóknarstyrkja Rannís fer til rannsókna á rakaskemmdum, myglu og byggingargöllum, svo sem á útbreiðslu þeirra og orsökum?
     3.      Er gert ráð fyrir áframhaldandi útgáfu sérrita og Rb-blaða sem áður voru gefin út af Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og höfðu að geyma lausnir sem henta íslenskum aðstæðum og veðráttu? Ef svo er, með hvers konar fjárveitingu?
     4.      Hve mörg ársverk eru unnin í byggingarrannsóknum?
     5.      Telur ráðherra farsælt að enginn opinber og óháður aðili úrskurði um notagildi og hæfi byggingarefna fyrir íslenskt veðurfar?
     6.      Er einhver sjálfstæður aðili að störfum fær um að stunda rannsóknir hér á landi er lúta að notagildi og hæfi byggingarefna og getur úrskurðað um þau atriði?
     7.      Er nauðsynlegt að hafa rannsóknaraðstöðu hér á landi til að meta nýjar, óreyndar eða lítt reyndar lausnir í byggingariðnaði með tilliti til íslensks veðurfars?
     8.      Er þörf á sérstakri rannsóknastofnun fyrir byggingariðnaðinn miðað við sérstöðu hráefna og veðurfars á Íslandi?


    Málefni Rannsóknastofu byggingariðnaðarins sem fóru til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og féllu áður undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti heyra núna undir innviðaráðuneyti, sbr. 5. tölul. 7. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Framkvæmd laga um byggingarvörur, nr. 114/2014, þar sem lýst er kröfum til byggingarefnis mannvirkja, og reglugerðar um Ask – mannvirkjarannsóknarsjóð nr. 1025/2021 heyrir undir innviðaráðherra.
    Að mati ráðherra eru hagnýtar rannsóknir í byggingariðnaði mikilvægur þáttur í að varna tjóni af völdum raka- og mygluskemmda í mannvirkjum sem veldur húseigendum þungum búsifjum, fyrir utan heilsufarsleg áhrif af þessum sökum.
    Askur – mannvirkjarannsóknasjóður er fjármagnaður sameiginlega af innviðaráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, sem tilnefna bæði í fagráð sjóðsins, sbr. breytingarreglugerð nr. 1081/2022. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast framkvæmd úthlutana á styrkjum úr sjóðnum. Í síðustu úthlutun árið 2022 var lögð sérstök áhersla á greiningar á raka og myglu í mannvirkjum. Eitt af markmiðum úthlutunar 2022 var styðja við verkefni sem stuðla sérstaklega að aukinni þekkingu á raka- og mygluskemmdum í íslenskum mannvirkjum, samanburði og þróun aðferða við mælingar og mat á umfangi slíkra skemmda og jafnframt hvernig unnt sé að fyrirbyggja þær og bregðast við þeim með árangursríkum hætti. Alls bárust umsóknir um styrki til 62 verkefna á sviði nýsköpunar og rannsókna. Áætlaður kostnaður verkefnanna er 804 millj. kr. og sótt er um styrki fyrir 59% kostnaðar eða 472 millj. kr.
    Leitað var til Rannsóknamiðstöðvar Íslands, sem er umsýsluaðili Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs, um upplýsingar sem gætu komið að gagni við að svara fyrirspurninni. Í svörum frá Rannsóknamiðstöð Íslands kom fram að leitað hefði verið eftir úthlutunum styrkja tengdum rakaskemmdum, myglu og byggingargöllum aftur til ársins 1987. Engir styrkir hafa verið veittir til rannsókna eða nýsköpunar tengdri rakaskemmdum, myglu og byggingargöllum úr Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði (eða fyrirrennurum þeirra), sem eru stærstu samkeppnissjóðir landsins fyrir nýsköpun og rannsóknir. Nýsköpunarsjóður námsmanna veitti 1.020.000 kr. styrk árið 2022 og 932.000 kr. styrk árið 2016 í sitthvort verkefnið tengt myglu í byggingum. Einnig var leitað eftir því hvort íslenskir aðilar hefðu fengið styrki úr samevrópska samfjármögnunarverkefninu M-ERA.NET, sem styður við verkefni tengd verkfræði og efnisfræði (e. materials science), en svo reyndist ekki vera.
    Að öðru leyti er til þess vísað að eftirlit með byggingarefni og mannvirkjarannsóknum fellur utan ábyrgðarsviðs ráðuneytisins samkvæmt forsetaúrskurði, nr. 6/2022.