Ferill 774. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1344  —  744. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um tilraunir á föngum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra viðrað þá hugmynd við forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar að gerðar verði tilraunir með hugvíkkandi efni á 30 föngum í íslenskum fangelsum? Ef svo er, hefur ráðherra sett af stað vinnu í því skyni?

    Það er ekki í verkahring dómsmálaráðherra að taka ákvarðanir um læknisfræðilegar tilraunir, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 6/2022. Í samræmi við það hefur ekki verið sett af stað vinna innan ráðuneytisins hvað þetta varðar.
    Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum átti ráðherra óformlegt samtal við forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar þar sem þeir ræddu m.a. þá þróun sem hefur átt sér stað innan geðlæknisfræðinnar er varðar meðferð þar sem notast er við hugvíkkandi efni. Það er vel þekkt að margir einstaklingar innan fullnustukerfisins glíma við margháttaðan geðrænan vanda og er að mati ráðherra rétt að skoða allar hugmyndir og nýjungar er varðar bætta meðferð og þjónustu við þennan hóp.