Ferill 717. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1347  —  717. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um málskostnað í meiðyrðamálum.

     1.      Hversu oft fékk aðili sem stefnt var fyrir meiðyrði árin 2017–2021 veitta gjafsókn? Óskað er eftir sundurliðun eftir hverju ári fyrir sig.
    Ráðuneytið hefur upplýsingar um fjölda umsókna um gjafsókn vegna meiðyrðamála og niðurstöður umsagna gjafsóknarnefndar í slíkum málum fyrir árin 2021, 2022 og fram til febrúar 2023. Slík greining liggur ekki fyrir vegna eldri umsókna.
    Árið 2021 bárust 14 umsóknir um gjafsókn vegna meiðyrðamáls. Í níu tilvikum var um að ræða umsóknir frá málshefjanda meiðyrðamáls (stefnanda). Mælt var með gjafsókn í einu tilviki, einni umsókn var vísað frá og sjö var synjað. Í fimm tilvikum var um að ræða umsóknir frá varnaraðila (stefnda). Einni umsókn var vísað frá og fjórum synjað.
    Árið 2022 bárust 14 umsóknir um gjafsókn vegna meiðyrðamáls. Í 11 tilvikum var um að ræða umsóknir frá málshefjanda (stefnanda). Mælt var með gjafsókn í þremur tilvikum og átta var synjað. Í þremur tilvikum var um að ræða umsóknir frá varnaraðila (stefnda). Mælt var með gjafsókn í einu tilviki en tveimur synjað.
    Fram til febrúar 2023 bárust tvær umsóknir um gjafsókn vegna meiðyrðamáls. Í báðum tilvikum var umsækjandi varnaraðili (stefndi) og í hvorugu tilvikanna var mælt með gjafsókn.

     2.      Hver var fjárhæð dæmds málskostnaðar aðila sem stefnt var fyrir meiðyrði árin 2017– 2021? Óskað er eftir sundurliðun eftir hverju máli fyrir sig eftir árum og eftir því hvort stefnandi eða stefndi vann málið.
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um fjárhæð dæmds málskostnaðar þess aðila sem stefnt var fyrir meiðyrði.