Ferill 840. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1441  —  840. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um vistráðningu (au pair).


     1.      Hver er afgreiðslutími umsókna um dvalarleyfi vegna vistráðningar frá ríkjum utan EES-svæðisins?
    Í eftirfarandi töflu má sjá meðalmálsmeðferðartíma afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um dvalarleyfi vegna vistráðninga frá ríkjum utan EES-svæðisins í dögum talinn, sem og fjölda útgefinna leyfa, á árunum 2019 til 15. mars 2023*.
         
Ár Meðalmálsmeðferðartími í dögum Útgefin dvalarleyfi
2019 109,5 115
2020 138,3 91
2021 112,1 95
2022 131,9 117
2023*
141,6
37

     2.      Hyggst dómsmálaráðherra skoða eða beita sér fyrir styttingu afgreiðslutímans?
    Margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar frá ríkjum utan EES-svæðisins dragist á langinn. Það getur t.d. komið til vegna mikils fjölda umsókna um dvalarleyfi hverju sinni en sem dæmi bárust Útlendingastofnun um 7.900 umsóknir um dvalarleyfi árið 2022 og voru 6.650 dvalarleyfi veitt það ár. Í framkvæmd hefur reynslan einnig verið sú að umsóknir og fylgigögn eru oftar en ekki ófullnægjandi sem krefst frekari vinnslu hjá stjórnvöldum og umsækjanda, svo sem við öflun vottorða hjá erlendum stjórnvöldum, löggildar þýðingar o.s.frv. Með aukinni stafvæðingu umsóknarferla hjá Útlendingastofnun standa vonir til þess að umsóknir verði fullunnar og reiðubúnar til afgreiðslu áður en unnt er að leggja þær fram. Þannig geti málsmeðferðartími við afgreiðslu dvalarleyfisumsókna styst, þar á meðal vegna vistráðningar.
    Ráðuneytið er sífellt með til skoðunar hvort þörf sé á að fjölga stöðugildum hjá undirstofnunum þess til að mæta auknu álagi og löngum málsmeðferðartíma. Starfsmönnum hefur fjölgað hjá Útlendingastofnun sl. ár, þeir voru um 45 árið 2016 en um 100 í upphafi árs. Við forgangsröðun verkefna hjá Útlendingastofnun hefur mikil áhersla verið lögð á að afgreiða umsóknir um alþjóðlega vernd en fjöldi slíkra umsókna hefur tugfaldast á liðnum árum og hefur sú aukning eðli máls samkvæmt áhrif á málsmeðferðartíma dvalarleyfisumsókna.