Ferill 942. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1472  —  942. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ríkislögmann, nr. 51/1985 (hlutverk ríkislögmanns).

Frá forsætisráðherra.



1. gr.

    Í stað 1.–3. mgr. 2. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ríkislögmaður fer með:
     a.      rekstur dómsmála fyrir íslenska ríkið og stofnanir þess fyrir íslenskum dómstólum,
     b.      mál fyrir íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu,
     c.      mál fyrir EFTA-dómstólnum, svo sem þegar óskað er eftir ráðgefandi áliti, sbr. lög um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið,
     d.      uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði,
     e.      kröfugerð einkaréttarlegs eðlis fyrir hönd ríkisins í sakamálum.
    Ráðherrar geta óskað lögfræðilegs álits ríkislögmanns um einstök málefni og aðstoðar við vandasama samningagerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í forsætisráðuneytinu og eru í því lagðar til breytingar á lögum um ríkislögmann hvað varðar hlutverk embættis ríkislögmanns.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í tengslum við fjárlagavinnu forsætisráðuneytisins í mars 2021 vegna fjárlaga fyrir árið 2022 fékk forsætisráðuneytið ráðgjafa til að rýna starfsemi og skipulag embættis ríkislögmanns. Ákveðið var að rýna starfsemina, greina styrkleika og veikleika og nota þann grunn til að ákveða næstu skref. Niðurstaða stefnumótunarvinnunnar var m.a. að rétt væri að endurskoða lög um ríkislögmann í því skyni að skýra frekar hlutverk embættis ríkislögmanns.
    Forsætisráðherra ákvað með minnisblaði, dags. 14. júní 2022, að skipa vinnuhóp til að vera ráðuneytinu til ráðgjafar við endurskoðun á lögunum um ríkislögmann. Í vinnuhópnum áttu sæti, auk fulltrúa forsætisráðuneytisins, fulltrúar embættis ríkislögmanns, dómsmálaráðuneytisins, Lögmannafélags Íslands, Dómarafélags Íslands og Félags forstöðumanna ríkisstofnana.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Niðurstaða vinnuhópsins var að ekki væri þörf á að gera aðrar breytingar á lögunum en að skerpa á ákvæðinu um verkefni ríkislögmanns og tryggja jafnframt að ákvæðið endurspeglaði þau verkefni sem hann sinnir. Í frumvarpinu er því lagt til að upptalning þeirra verkefna sem ríkislögmanni eru falin í lögunum verði gerð skýrari og þau sett upp í stafliði. Jafnframt er lagt til að tiltekið sé að ríkislögmaður fari með mál fyrir íslenska ríkið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og fyrir EFTA-dómstólnum. Ríkislögmaður sinnir þegar slíkum málum. Mál sem rekin eru fyrir Mannréttindadómstól Evrópu eru raunar vaxandi þáttur í starfsemi embættisins. Því er lagt til að í upptalningu á þeim verkefnum sem embættið sinnir sé þessa getið skýrlega. Í þessu sambandi má nefna að enda þótt ríkislögmanni sé falið að sinna tilteknum verkefnum samkvæmt lögunum fara ráðherrar og eftir atvikum ríkisstofnanir sem undir þá heyra með forræði á kröfugerð, röksemdum og ágreiningsatriðum í þeim málum sem ríkislögmaður sinnir.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að skoða samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Áform um lagasetninguna ásamt frummati á áhrifum voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 3. febrúar 2023 (mál nr. S-23/2023) en engar umsagnir bárust. Þá voru drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ríkislögmann kynnt í samráðsgáttinni 27. febrúar 2023 (mál nr. S-45/2023) en engar umsagnir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir því að efnisákvæði frumvarpsins hafi í för með sér fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð eða áhrif á stjórnsýslu ríkisins þar sem embættið sinnir þegar þeim verkefnum sem tilgreind eru í frumvarpinu.