Ferill 837. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1518  —  837. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um takmörkun aðgangs að bréfi og fylgiskjali þess.


    Af 3. mgr. 8. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, leiðir að beina má fyrirspurnum til forseta á þingskjali og óska skriflegs svars „um stjórnsýslu á vegum þingsins“. Skal fyrirspurn „vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem …“ varða stjórnsýslu Alþingis. Samkvæmt 91. gr. þingskapa er með stjórnsýslu þingsins átt við þá starfsemi sem fer fram á vegum þingsins og forseti fer með æðsta vald í, sbr. 9. gr. þingskapa. Þá er jafnframt tekið fram að undir stjórnsýslu Alþingis falli ekki sú starfsemi sem fram fer af hálfu Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa.
    Svar forseta Alþingis við fyrirspurninni takmarkast því af þeim skilyrðum þingskapa að hún varði stjórnsýslu Alþingis og að unnt sé að svara henni í stuttu máli.

     1.      Hefur forseta borist bréf frá settum ríkisendurskoðanda, dags. 27. júlí 2018?
    Já, bréfið var sent forseta Alþingis í tilefni af starfslokum setts ríkisendurskoðanda, en því fylgdi jafnframt „Greinargerð setts ríkisendurskoðanda vegna eftirlits með framkvæmd samnings fjármála- og efnahagsráðherra og Lindarhvols ehf. og endurskoðun ársreikninga félagsins. – Staða verkefnisins í lok maí 2018“. Í niðurlagi bréfsins óskar settur ríkisendurskoðandi lausnar frá setningu sinni.

     2.      Telur forseti að varðveisla bréfsins hjá Alþingi falli undir verksvið hans sem forseta skv. 9. gr. þingskapalaga þar sem fram kemur að forseti fari með æðsta vald í stjórnsýslu Alþingis?
    Bréf setts ríkisendurskoðanda frá 27. júlí 2018 lýtur að stöðu verkefnis sem honum var fengið og ósk um lausn hans sem setts ríkisendurskoðanda og varðar því starfsemi þingsins og rekstur, og er varðveitt í skjalasafni Alþingis, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Það viðfangsefni fellur undir stjórnsýslu þingsins í skilningi 91. gr. sömu laga sem forseti hefur æðsta vald í, sbr. 9. gr. þingskapa Alþingis. Um stöðu fylgiskjals bréfsins, greinargerð setts ríkisendurskoðanda, er fjallað í svari við 3. tölul.

     3.      Telji forseti varðveislu bréfsins hjá Alþingi ekki falla undir verksvið hans skv. 9. gr. þingskapalaga, getur forseti upplýst hvort og þá á hvaða lagagrundvelli hann telur sér heimilt að takmarka aðgang þingmanna að efni bréfsins og fylgiskjali sem því kann að hafa fylgt?
    Engar takmarkanir eru eða hafa verið á aðgangi alþingismanna eða almennings að bréfi setts ríkisendurskoðanda frá 27. júlí 2018. Hvað varðar fylgiskjalið, greinargerð setts ríkisendurskoðanda, skal upplýst að með úrskurði forsætisnefndar 4. nóvember 2020 var beiðni blaðamanns hjá Viðskiptablaðinu um aðgang að greinargerðinni synjað. Eins og rakið er í úrskurðinum var á því byggt að um væri að ræða gagn í máli sem ríkisendurskoðandi hafði í hyggju að kynna Alþingi að lokinni athugun sinni og væri það því undanþegið aðgangi, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Kæmi slík regla, sem geymdi sérstaka takmörkun, í veg fyrir að skrifstofu Alþingis væri heimilt að veita aðgang að greinargerðinni. Forsætisnefnd ákvað að taka málið til skoðunar á ný 2. febrúar 2021. Eftir að afstaða fyrirsvarsmanna Lindarhvols ehf. og ríkisendurskoðanda lá fyrir um fyrirhugaða birtingu greinargerðar setts ríkisendurskoðanda ákvað forsætisnefnd á fundi sínum 25. apríl 2022 að fresta ákvörðun sinni á meðan nefndin hefði málið til frekari athugunar á vettvangi hennar.
    Þá verður einnig að líta til þess að við útvíkkun á gildissviði upplýsingalaga með lögum nr. 72/2019 voru upplýsingalög látin taka til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar, sem settar eru á grundvelli þeirra. Með lögum nr. 162/2019, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, var í þingsköpum kveðið á um aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis, sbr. nú 93. gr. þingskapa Alþingis. Með reglum nr. 90/2020, um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis, eru í 3. gr. upptalin þau gögn sem varða stjórnsýslu Alþingis. Ekki er gert ráð fyrir að þar falli undir gögn sem verða til í samskiptum forseta Alþingis við stofnanir þingsins, umboðsmann Alþingis eða Ríkisendurskoðun, sem varða beinlínis eftirlitsstörf þeirra. Almennt verður að gera ráð fyrir að slík gögn séu ekki aðgengileg enda varða þau sjálfstæði þessara stofnana, þar með talið gagnvart Alþingi. Í þessu samhengi má jafnframt benda á að skv. 4. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er sérstaklega tilgreint að lögin taki ekki til umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Um aðgang að upplýsingum hjá þessum stofnunum fer eftir því sem segir í lögum um þær eða reglum settum á grundvelli þeirra.
    Hvað viðkemur aðgangi alþingismanna að greinargerð setts ríkisendurskoðanda við núverandi aðstæður fer um hann skv. 2. mgr. 50. gr. og 51. gr. þingskapa Alþingis. Á þeim grundvelli hafa nefndarmenn í forsætisnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd haft aðgang að skjalinu í trúnaði.