Ferill 838. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1519  —  838. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um samskipti vegna greinargerðar setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað kemur fram í bréfi fyrrverandi ríkisendurskoðanda til forsætisnefndar Alþingis, dags. 17. febrúar 2021, og meðfylgjandi samantekt hans með athugasemdum við skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol ehf.?
     2.      Hvað kemur fram í bréfi forseta Alþingis til stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 28. apríl 2021?
     3.      Hvað kemur fram í bréfi stjórnar Lindarhvols ehf. til forseta Alþingis, dags. 11. maí 2021?
     4.      Hvað kemur fram í bréfi forseta Alþingis til stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 4. júní 2021?
     5.      Hvað kemur fram í bréfi stjórnar Lindarhvols ehf. til forseta Alþingis, dags. 22. júní 2021?
     6.      Hvað kemur fram í minnisblaði skrifstofu Alþingis, dags. 12. janúar 2022, um stöðu máls varðandi aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.?
     7.      Hvað kemur fram í bréfi forseta Alþingis til stjórnar Lindarhvols ehf., dags. 5. apríl 2022?
     8.      Hvað kemur fram í bréfi sem starfsmaður hjá skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu sendi forseta Alþingis vegna fyrirhugaðrar birtingar á greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol, dags. 20. apríl 2022?
     9.      Fundaði forseti með starfsmanni fjármála- og efnahagsráðuneytisins eftir að bréfið barst? Ef svo er, hverjir sátu fundinn og hvert var efni hans?
     10.      Hvað kemur fram í minnisblöðum og álitsgerð MAGNA lögmanna ehf. til forsætisnefndar, dags. 16. apríl 2021 og 31. ágúst 2021, vegna umfjöllunar um hvort veita skuli aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.?
     11.      Hefur forseti eða skrifstofa Alþingis synjað beiðni um að veittur verði aðgangur að minnisblöðum og/eða álitsgerð MAGNA lögmanna ehf. á grundvelli upplýsingalaga? Ef svo er, á hvaða lagagrundvelli var beiðninni synjað?


    Af 3. mgr. 8. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, leiðir að beina má fyrirspurnum til forseta á þingskjali og óska skriflegs svars „um stjórnsýslu á vegum þingsins.“ Skal fyrirspurn „vera skýr, um afmörkuð atriði og mál sem …“ varða stjórnsýslu Alþingis. Skv. 91. gr. þingskapa er með stjórnsýslu þingsins átt við þá starfsemi sem fer fram á vegum þingsins og forseti fer með æðsta vald í, sbr. 9. gr. þingskapa. Þá er jafnframt tekið fram að undir stjórnsýslu Alþingis falli ekki sú starfsemi sem fram fer af hálfu Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa.
    Svar forseta Alþingis við fyrirspurninni takmarkast því af þeim skilyrðum þingskapa að hún varði stjórnsýslu Alþingis og að unnt sé að svara henni í stuttu máli.
    Fyrirspurnin er í ellefu töluliðum. Samhengisins vegna þykir rétt að svara einstökum liðum fyrirspurnarinnar með eftirfarandi hætti.

1.
    1. tölul. fyrirspurnarinnar lýtur að erindi fyrrum setts ríkisendurskoðanda til forsætisnefndar, dags. 17. febrúar 2021, þar sem gerðar eru margvíslegar athugasemdir við skýrslu ríkisendurskoðanda frá apríl 2020 um Lindarhvol ehf., auk þess sem fundið er að ummælum þáverandi ríkisendurskoðanda um greinargerð setts ríkisendurskoðanda frá júní 2018. Í ljósi þess að efni bréfsins varðar störf þingnefndar, sbr. 1. mgr. 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa Alþingis, var samþykkt á fundi forsætisnefndar 22. febrúar 2021 að erindið gengi áfram til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hafði skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol ehf. til skoðunar. Ljóst er af þessu að bréfið varðar þingstörf en ekki stjórnsýslu Alþingis, sbr. 91. gr. þingskapa Alþingis.

2.
    Í 2., 3., 4. og 5. tölul. er spurst fyrir um hvað komi fram í bréfaskiptum forseta Alþingis og stjórnar Lindarhvols ehf. Umrædd bréfaskipti urðu í framhaldi af ákvörðun forsætisnefndar þann 2. febrúar 2021 að endurupptaka úrskurð sinn frá 4. nóvember 2020 þar sem synjað hafði verið um aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda. Í samskiptunum kemur fram sú fyrirætlan forsætisnefndar að veita aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda og viðbrögð stjórnar Lindarhvols ehf., sem lagðist gegn því. Framangreind bréfaskipti áttu sér stað á síðasta kjörtímabili.

3.
    Í 6. tölul. fyrirspurnarinnar er spurt um hvað komi fram í minnisblaði skrifstofu Alþingis, dags. 12. janúar 2022, um stöðu máls varðandi aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf. Minnisblaðið var tekið saman fyrir forsætisnefnd, sem kosin hafði verið í lok nóvember 2021 eftir alþingiskosningarnar 25. september 2021, svo að hún gæti gert sér grein fyrir stöðu málsins á því tímamarki. Í minnisblaðinu eru raktir helstu málavextir og viðeigandi réttarreglur um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis. Þá eru rakin samskipti við Lindarhvol ehf. á árinu 2021 og meðferð fyrri forsætisnefndar á málinu. Loks er vikið að framhaldi málsins. Ljóst er að um að ræða gagn sem unnið var fyrir forsætisnefnd. Ekki hefur af hálfu nefndarinnar verið tekin ákvörðun um birtingu minnisblaðsins.
    Í 7. og 8. tölul. fyrirspurnarinnar er spurst fyrir um hvað komi fram í bréfaskiptum forseta Alþingis, stjórnar Lindarhvols ehf. og starfsmanns fjármála- og efnahagsráðuneytis (fyrirsvarsmanns Lindarhvols ehf.) dags. 5. apríl 2022. Í þeim samskiptum er lýst fyrirætlan forsætisnefndar að veita aðgang að greinargerð setts ríkisendurskoðanda og viðbragða stjórnar Lindarhvols ehf. sem hafði lagst gegn því.
    Samhengisins vegna skal þess getið að forseta bárust einnig viðbrögð frá ríkisendurskoðanda 20. apríl 2022 og áður höfðu einnig borist athugasemdir frá fyrirsvarsmanni Lindarhvols ehf., 13. apríl 2022, sem ítrekuð voru með bréfi hans 20. apríl 2022 þar sem lagst var gegn afhendingu greinargerðarinnar.
    Loks skal upplýst að skrifstofa Alþingis hefur áður veitt aðgang að framangreindum bréfaskiptum.

4.
    Í 9. tölul. er spurt hvort forseti hafi fundað með starfsmanni fjármála- og efnahagsráðuneytis, eftir að bréfið barst. Þar er væntanlega átt við bréf ráðuneytisins frá 20. apríl 2022, sbr. 8. tölul. fyrirspurnarinnar. Því til svars átti forseti fund með umræddum starfsmanni 28. júní 2022 að ósk Lindarhvols ehf. en umræddur starfsmaður hefur farið með fyrirsvar fyrir Lindarhvol ehf. í samskiptum við Alþingi. Fundinn sátu auk forseta og umrædds starfsmanns, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ása Ólafsdóttir, fyrrv. stjórnarmaður í stjórn Lindarhvols ehf., og Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður og fyrrv. ráðgjafi félagsins. Auk þess sat starfsfólk laga- og stjórnsýslusviðs skrifstofu Alþingis fundinn. Á fundinum voru áréttuð viðhorf fjármála- og efnahagsráðuneytis og Lindarhvols ehf. til þess að veittur yrði aðgangur að greinargerð setts ríkisendurskoðanda, sbr. svör fyrirsvarsmanns Lindarhvols ehf. 13. og 20. apríl 2022.
    Til viðbótar ofangreindu skal upplýst að forseti átti fund með Flóka Ásgeirssyni lögmanni hjá Magna lögmönnum ehf. 24. maí 2022 þar sem farið var yfir grundvöll málsins. Þá átti forseti einnig fund með ríkisendurskoðanda 15. júní 2022 um málið þar sem hann ítrekaði áður framkomin sjónarmið frá 20. apríl 2022.

5.
    Í 10. og 11. tölul. er spurt um hvað komi fram í minnisblaði og álitsgerð Magna lögmanna ehf. til forsætisnefndar, dags. 16. apríl 2021 og í minnisblaði félagsins, dags. 31. ágúst 2021 og um aðgang að þeim. Til svars því skal upplýst að í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál 8. mars 2023 hafa umrædd minnisblöð og álitsgerð verið birt á vef Lindarhvols ehf. 1 Það hefur því ekki sjálfstæða þýðingu að lýsa því hvað komi fram í umræddum gögnum eða á hvaða lagagrundvelli beiðnir um aðgang að þeim hafa verið meðhöndlaðar.

1     lindarhvolleignir.is/2023/03/09/vegna-vinnuskjals-setts-rikisendurskodanda/