Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1544  —  513. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá dómsmálaráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.

              a.      Ekki hefur verið skipað í embætti en þrír starfsmenn hafa verið ráðnir til starfa.
              b.      Ráðið var í tvö ótímabundin stöðugildi og eitt tímabundið stöðugildi.
              c.      Um er að ræða eitt nýtt tímabundið stöðugildi.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Frá nóvember 2021 hefur ráðuneytið auglýst þrjú stöðugildi. Ekkert embætti hefur verið auglýst hjá ráðuneytinu.

     3.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá dómsmálaráðuneyti við skipan nýrrar ríkisstjórnar í nóvember 2017 samanborið við fjölda stöðugilda í september 2022? Hafi orðið breyting á málefnasviði ráðuneytisins á þessum tíma er óskað eftir að tilgreind sé breyting á starfsmannafjölda með tilliti til þess.
    Fjöldi stöðugilda sem telja mætti til ráðuneytisins í nóvember 2017 var 41,6 samanborið við 55,2 stöðugildi í nóvember 2022.
    Árið 2017 var málefnasvið dómsmálaráðuneytisins hluti af innanríkisráðuneytinu sem skipt var upp í dómsmálaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Sú skipting var ekki komin til að fullu í nóvember 2017 og ekki búið að fylla öll stöðugildi nýs ráðuneytis. Við endurskipulagningu ráðuneytanna síðastliðin áramót var skrifstofa löggjafarmála færð yfir til dómsmálaráðuneytisins. Með skrifstofunni fluttust sex stöðugildi til ráðuneytisins en einnig var tekin ákvörðun um að bæta við tímabundnu 80% stöðugildi.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá dómsmálaráðuneyti á kjörtímabilinu?
    Á kjörtímabilinu hefur ráðuneytið bætt við sig tveimur tímabundnum stöðugildum ásamt því að fá sex stöðugildi flutt úr forsætisráðuneytinu. Ekki er um eiginlega kostnaðaraukningu að ræða vegna stöðugildanna sem fluttust úr forsætisráðuneytinu þar sem fjárheimildir fluttust með. Kostnaðurinn við tímabundnu stöðugildin er u.þ.b. 7,5 millj. kr. á árunum 2021 og 2022.