Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1554  —  574. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Bjarna Garðarssyni um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga.


     1.      Hve margir erlendir sérfræðingar hafa fengið samþykktan 25% frádrátt frá tekjum fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf skv. 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á sl. fimm árum, sundurliðað eftir árum?
    Frádráttarheimild 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. reglugerð um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, nr. 1202/2016, tók gildi 1. janúar 2017 og felur í sér að þeir erlendu sérfræðingar sem uppfylla skilyrði laganna greiða einungis tekjuskatt af 75% tekna sinna fyrstu þrjú árin í starfi.
    Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir fjölda umsókna um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga frá árinu 2017 til 2022, sundurliðað eftir því hvort um er að ræða fyrirtæki, stofnun eða háskóla. Jafnframt má sjá hlutfall samþykktra umsókna í heild.

Yfirlit yfir fjölda umsókna vegna frádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga 2017–2022
2017 2018 2019 2020 2021 2022
Fjöldi umsókna alls 83 71 113 130 194 271
frá fyrirtækjum 47 39 75 92 121 199
frá stofnunum 7 14 9 13 40 31
frá háskólum 29 18 29 25 33 41
fjöldi samþykktra umsókna 58 54 88 95 161 233
hlutfall samþykktra umsókna 70% 76% 78% 73% 83% 86%

Heimild: Skattaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, byggt á upplýsingum nefndar um afgreiðslu umsókna vegna frádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga.




     2.      Hvað hefur þessi frádráttur kostað ríkissjóð á sl. fimm árum, sundurliðað eftir árum?

Tekjutap ríkis vegna frádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga 2017–2021
2017 2018 2019 2020 2021
Fjöldi einstaklinga sem nýtti ívilnun 55 106 194 251 347
áætlað tekjutap ríkis (millj. kr.) 1 12 54 99 139 176

    Vakin er athygli á því að tölur um tekjutap eru að hluta áætlaðar. Ástæða þess er sú að í tilviki um helmings þeirra einstaklinga sem hér um ræðir tók útreikningur Skattsins á tekjuskatti mið af sérstökum viðbótarforsendum sem tengdust flutningi viðkomandi til eða frá Íslandi, til dæmis hlutfallslegum dvalartíma hérlendis á tekjuárinu og tvísköttunarsamningum (þessi hópur er stundum kallaður „handreiknaðir“ við álagningu opinberra gjalda.) Þessar forsendur eru ekki varðveittar með aðgengilegum hætti í álagningarkerfi Skattsins og því er ekki unnt að endurtaka útreikninginn síðar með nákvæmlega sömu forsendum og í álagningunni til að kanna hver niðurstaðan hefði orðið án frádráttarins. Þessar viðbótarforsendur leiða að jafnaði til nálægt 10% hærri álagningar en ella og er tekið tillit til þess hér.

     3.      Eru til upplýsingar um hve margir erlendir sérfræðingar eru enn við störf á Íslandi eftir að þremur árum lýkur?
    Ekki hefur verið gerð sérstök greining á því hversu algengt er að einstaklingar fullnýti frádráttarréttinn, samfellt eða með hléum. Í gögnum Skattsins má þó sjá hvaða einstaklingar skila framtali eða fá frádrátt hverju sinni. Af þeim 55 einstaklingum sem nutu frádráttar tekjuárið 2017 skilaði 41 framtali hérlendis og 33 nutu frádráttar tekjuárið 2020, og 39 skiluðu framtali en enginn naut frádráttar tekjuárið 2021. Athuga ber að einstaklingur sem nýtir ívilnunina samfellt í alla þá 36 mánuði sem heimilt er nýtir í flestum tilvikum aðeins hluta úr árinu fyrsta og fjórða almanaksárið og birtist því fjórum sinnum í árlegum gögnum Skattsins. Af þeim 106 einstaklingum sem nutu frádráttar tekjuárið 2018 skiluðu 82 framtali hérlendis og 32 nutu frádráttar tekjuárið 2021, og við álagningu á tekjur ársins 2022 í maí nk. kemur í ljós hve margir þeirra skiluðu framtali þá.
    Frádráttarréttur gildir óháð þjóðerni og því njóta hans m.a. Íslendingar sem uppfylla það skilyrði að hafa ekki verið búsettir eða heimilisfastir hér á landi í tilgreindan lágmarkstíma fyrir upphaf starfa hér á landi skv. skilyrði b-liðar 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt gögnum Skattsins voru Íslendingar að meðaltali 20% allra þeirra sem nutu frádráttar á tímabilinu 2017–2021 og 24% á lokaárinu 2021. Líklegt er að stór hluti þeirra sé enn við störf á Íslandi að þremur árum liðnum, svo sem þeir sem hafa snúið heim að loknu námi erlendis.

     4.      Hefur verið gerð greining á því hvort þessi skattfrádráttur hafi laðað að sér fleiri erlenda sérfræðinga til starfa á Íslandi?
    Slík greining hefur ekki verið gerð svo vitað sé en leiða má að því líkur að skattfrádrátturinn hafi laðað fleiri erlenda sérfræðinga til starfa á Íslandi, sbr. aukinn fjölda umsókna í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar. Markmiðið með skattfrádrættinum er að laða til landsins sérfræðinga sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til starfa hér á landi og gera fyrirtækjum auðveldara að ráða til sín slíka aðila svo ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi. Ekki verður annað ráðið en að vel hafi tekist til við að laða til landsins erlenda sérfræðinga með umræddum skattfrádrætti.

     5.      Hvað mundi það kosta ríkissjóð ef veitt yrði heimild til þess að draga 35% frá tekjum með sama hætti fyrstu þrjú árin?
    Áætla má að ef frádráttarhlutfall yrði hækkað úr 25% í 35% gætu áhrif þess orðið um 80 millj. kr. tekjulækkun til viðbótar fyrir ríkissjóð á einu ári, miðað við verðlag og aðrar forsendur ársins 2023.
1    Heimild: Skattaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, byggt á gögnum Skattsins.