Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1558  —  624. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um úrskurði þóknananefndar.


     1.      Hversu margir úrskurðir þóknananefndar um laun fyrir setu í stjórnum og nefndum á vegum ráðuneyta eru í gildi í dag?
    Þóknananefnd berst erindi frá viðkomandi ráðuneyti þar sem óskað er eftir að nefndin ákvarði þóknun fyrir nefnda- eða stjórnarstörf. Þetta á við nefndir og stjórnir sem eru að hefja störf og einnig þær sem lokið hafa störfum. Nefndin hefur upplýsingar um þá úrskurði sem hún hefur afgreitt en ekki upplýsingar um hversu margir úrskurðir nefndarinnar eru enn þá í gildi í dag. Úrskurðirnir halda vanalega gildi sínu á meðan tímabundnar nefndir eða fastanefndir eru að störfum en þóknananefnd hefur ekki upplýsingar um í hvaða tilvikum það á enn þá við þar sem slíkar nefndir starfa á vegum annarra ráðuneyta.

     2.      Hversu há eru laun stjórnar- og nefndarmanna samkvæmt þeim úrskurðum?
    Við ákvarðanir sínar byggir nefndin á svokallaðri nefndareiningu sem nú nemur 2.747 kr. Algengt er að þóknananefnd úrskurði þrjár einingar fyrir hverja unna klukkustund. Matið er byggt á grundvelli erinda frá viðkomandi ráðuneytum þar sem lýst er umfangi nefndar- eða stjórnarstarfsins og vinnuframlagi nefndarmanna. Ákvarðaðar þóknanir geta því verið misháar eftir því hversu viðamikil viðfangsefni eiga í hlut.