Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1597  —  537. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (orkuskipti).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hluti atvinnuveganefndar fagnar því að verið sé að huga að orkuskiptum í sjávarútvegi en telur þó að huga þurfi betur að nokkrum atriðum áður en skynsamlegt er að frumvarpið verði að lögum. Við lestur umsagna við frumvarpið og minnisblaðsins frá ráðuneytinu vöknuðu ýmsar spurningar sem nauðsynlegt er að svara áður en áfram er haldið.

Upplýsingar og innviði skortir.
    Samkvæmt minnisblaði frá matvælaráðuneytinu frá 15. febrúar 2023 virðist ekki liggja fyrir hvers konar vistvæna orkugjafa átt er við í frumvarpinu. Ekki kemur nógu skýrt fram í frumvarpinu hvort öllum vistvænum orkugjöfum verði gefið jafnt vægi í framkvæmd. Til eru dæmi þess að vetni, metan og rafeldsneyti sé framleitt með jarðefnaeldsneyti sem grunnorku, en í þeim tilvikum eru þessir orkugjafar ekki vistvænir í raun.
    Tryggja þyrfti að til að njóta undanþágunnar þurfi bátar að vera knúnir raunverulega vistvænu eldsneyti, svo sem að skilyrði undanþágu sé að notaðir verði vottaðir vistvænir orkugjafar. Samkvæmt ráðuneytinu fjallar frumvarpið ekki um framleiðslu á orkugjöfum né vottanir þeirra, en þessi atriði þurfa að liggja fyrir ef frumvarpið á að verða að lögum. Það er einnig óljóst hvaða aðili muni sinna eftirliti með því að bátar uppfylli þessi skilyrði til þess að undanþágan fáist, en það er nauðsynlegt að slíku eftirliti verði sinnt, sbr. umsagnir frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Ungum umhverfissinnum.
    Í minnisblaðinu frá ráðuneytinu kemur enn fremur fram að í ráðuneytinu liggi hvorki fyrir hvernig hönnun viðkomandi skipa verður í kjölfar breytinga né upplýsingar um lífsferilsgreiningu á kolefnislosun í samanburði við önnur skip. Því er óljóst hvort frumvarpið uppfyllir raunverulega þau markmið sem því er ætlað, þ.e. að stuðla að orkuskiptum í sjávarútvegi. Þar að auki skortir hvata fyrir útgerðir til að leggjast í þessar breytingar, líkt og bent var á af hálfu Landverndar.
    Þá bendir Ísafjarðarbær á í umsögn sinni að þessi lagabreyting ein og sér dugi ekki til að stuðla að orkuskiptum í sjávarútvegi, það þurfi að tryggja innviði, svo sem varðandi flutningskerfi, framleiðslu á rafmagni og afhendingu á höfnum. Séu þessir innviðir ekki til staðar er ljóst að orkuskiptin sem stefnt er að verða ekki að veruleika.

Mat skortir á áhrifum þess að afnema brúttótonnahámark.
    Minni hlutinn styður breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar um afnám brúttótonnahámarks í þágu orkuskipta, þar sem vistvænir orkugjafar eru plássfrekari. Þó ber að hafa í huga ábendingar Landssambands smábátaeigenda um að heimild til stækkunar krókaaflamarksbáta kunni að leiða til stórfelldrar fækkunar smábáta með aflahlutdeild og þar með minnka vægi einyrkja í útgerð. Að þeirra mati er nauðsynlegt að samhliða slíkri lagasetningu verði komið til móts við sjónarmið félagsins um ákvæði sem efli línuívilnun, að komið verði á ívilnun við handfæraveiðar og að útgerð strandveiðibáta verði tryggð með 48 veiðidögum. Minni hlutinn tekur undir áhyggjur Landssambandsins og hvetur ráðuneytið til að huga að því að takmarka samþjöppun í þessum geira sem og að tryggja nýliðun.

Alþingi, 14. apríl 2023.

Gísli Rafn Ólafsson.