Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1610  —  667. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um kostnað ríkissjóðs við að draga úr tekjuskerðingum.


     1.      Hver yrði árlegur aukakostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið ef hætt yrði að skerða bætur vegna tekna lífeyrisþega, maka þeirra eða sambúðarmaka? Svar óskast sundurliðað eftir tekjum lífeyrisþega annars vegar og tekjum maka eða sambúðarmaka hins vegar.
    Hér eru metin útgjöld ríkissjóðs vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) til örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþega á árinu 2023. Ef ekki væri um neinar tengingar við tekjur lífeyrisþega að ræða ykist kostnaður ríkissjóðs um 81,9 milljarða kr. á ári. Auk þess mætti gera ráð fyrir fjölgun lífeyrisþega vegna þeirra sem eru það tekjuháir að þeir hafa ekki sótt um greiðslur úr almannatryggingum og eru því ekki í gögnum TR.
    Skerðingar bóta af tekjum maka voru afnumdar árið 2008. Tekjutengingar miðast við skattstofn skv. 22. og 30. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og því eru það einungis fjármagnstekjur sem eru metnar sameiginlegar með samsköttunaraðilum og myndar helmingur fjármagnstekna samskattaðra aðila stofn til frádráttar bótum, eða sá hluti sem færður er á viðkomandi einstakling samkvæmt álagningarskrá. Er það í samræmi við 5. mgr. 22. gr. og 6. mgr. 30. gr. laga um almannatryggingar sem og 5. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hver yrði árlegur aukakostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið ef örorkulífeyrisþegar hefðu eitt frítekjumark, 4.200.000 kr. á ári, óháð því hvaðan tekjur kæmu?
    Gert er ráð fyrir að kostnaður yrði um 16 milljarðar kr. á ári miðað við fjölda örorkulífeyrisþega í janúar 2023.

     3.      Hver yrði árlegur aukakostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið ef örorkulífeyrisþegar hefðu eitt frítekjumark, 6.000.000 kr. á ári, óháð því hvaðan tekjur kæmu?
    Gert er ráð fyrir að kostnaður yrði um 18 milljarðar kr. á ári miðað við fjölda örorkulífeyrisþega í janúar 2023.

     4.      Hver yrði árlegur aukakostnaður ríkissjóðs við almannatryggingakerfið af því að fella sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu, skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, inn í tekjutryggingu, skv. 22. gr. laga um almannatryggingar, þannig að hætt yrði að skerða uppbótina um 65% vegna annarra tekna lífeyrisþega?
    Ef miðað er við fjölda örorkulífeyrisþega í janúar 2023, tekjuáætlun ársins og að engin ytri tekjuskerðing sé gerð við útreikninga á sérstakri framfærsluuppbót örorkulífeyrisþega er árlegur kostnaðarauki ríkissjóðs metinn á um 18 milljarða kr.

     5.      Hver yrði beinn kostnaður ríkissjóðs á ársgrundvelli af breytingum í 1.–4. tölul. fyrirspurnar?
    Fjárhæðir í svari við 1.–4. tölul. er beinn kostnaður.

     6.      Hvaða áhrif má ætla að breytingarnar í 1.–4. tölul. fyrirspurnar hefðu á tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga?
    Í eftirfarandi töflu er gengið út frá því að persónuafsláttur lífeyrisþega sé almennt fullnýttur, 5% þeirra búi erlendis, meðalskattbyrði sé um 35% og meðalútsvar sé um 14,5%. Þá er gert ráð fyrir að um fimmtungur af metnum kostnaðarauka samkvæmt svari við 1.–4. tölul. skili sér aftur í ríkissjóð í gegnum tekjuskatt.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.