Ferill 936. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1641  —  936. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Hildi Sverrisdóttur um sjóði á vegum ráðuneytisins og stofnana þess.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða sjóði starfrækja ráðuneytið og stofnanir þess?
     2.      Hver fer með umsýslu hvers sjóðs?
     3.      Hvaða lög og reglur gilda um útdeilingu fjármuna úr hverjum sjóði?
     4.      Hvað kostaði að starfrækja hvern sjóð árið 2022?
     5.      Hver var kostnaðurinn við að starfrækja hvern sjóð í hlutfalli við þá fjármuni sem var úthlutað úr sjóðnum árið 2022?


    Á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis eru starfræktir fjórir sjóðir: loftslagssjóður, Orkusjóður, húsafriðunarsjóður og fornminjasjóður.
     Loftslagssjóður (14-190-131): Ráðuneytið starfrækir sjóðinn en Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) annast umsýslu hans. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Fyrir loftslagssjóði fer sérstök stjórn sem skipuð er af ráðherra til tveggja ára í senn. Stjórn mótar áherslur sjóðsins og viðmið/reglur um útdeilingu fjármuna hverju sinni er aftur tekur mið af áherslum og stefnumótun stjórnvalda hverju sinni. Bókfærður kostnaður við umsýslu sjóðsins á árinu 2022 nam 7,2 millj. kr. og nemur það 7,5% af veittum styrkjum er námu rúmlega 96 millj. kr.
     Orkusjóður (14-505-101): Orkustofnun starfrækir sjóðinn og annast umsýslu hans. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um Orkusjóð, nr. 76/2020. Fyrir Orkusjóði fer sérstök stjórn sem skipuð er af ráðherra til fjögurra ára í senn. Stjórn sjóðsins mótar áherslur og viðmið/reglur um útdeilingu fjármuna hverju sinni í samræmi við eðli verkefna er aftur tekur mið af áherslum og stefnumótun stjórnvalda hverju sinni. Bókfærður kostnaður við umsýslu sjóðsins á árinu 2022 nam 75 millj. kr. eða sem nemur um 7% af veittum styrkjum er námu tæplega 1,1 milljarði kr.
     Fornminjasjóður (14-451-610): Minjastofnun starfrækir sjóðinn og annast umsýslu hans. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012. Úthlutun styrkja er í samræmi við úthlutunarreglur nr. 1245/2022 sem staðfestar voru af ráðherra í október 2022 að fenginni umsögn fornminjanefndar. Bókfærður kostnaður við umsýslu sjóðsins á árinu 2022 nam um 5,2 millj. kr. eða sem nemur um 7,7% af veittum styrkjum er námu rúmlega 67,5 millj. kr.
     Húsafriðunarsjóður (14-452-610): Minjastofnun starfrækir sjóðinn og annast umsýslu hans. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012. Úthlutun styrkja er í samræmi við úthlutunarreglur nr. 577/2016 sem staðfestar voru af forsætisráðherra í júní 2016 að fenginni umsögn húsafriðunarnefndar. Bókfærður kostnaður við umsýslu sjóðsins á árinu 2022 nam 5 millj. kr. eða sem nemur um 2% af veittum styrkjum er námu 250 millj. kr.
    Í tilfellum fornminja- og húsafriðunarsjóðs er mikilvægt að fram komi að starfsemi nefndanna nær yfir stærra hlutverk en að úthluta úr sjóðunum. Meðal annarra verkefna er t.d. að vinna með stofnuninni að stefnumörkun um verndun byggingararfs og verndun fornleifa og fornleifarannsókna. Þá hafa nefndirnar einnig það hlutverk „að fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu húsa og mannvirkja, afnám friðlýsingar, breytingar á friðlýstum húsum og mannvirkjum eða förgun þeirra“ og „að fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu fornleifa og afnám friðlýsingar“ (sjá b-lið 2. mgr. 8. gr. og b-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 80/2012). Sjá margvísleg hlutverk nefndanna í 8. og 9. gr. laganna. Að teknu tilliti til þessa má þannig gera ráð fyrir að kostnaður vegna umsýslu veittra styrkja eingöngu sé lægri en fram kemur hér að framan en ekki liggja fyrir aðgreindar kostnaðarupplýsingar hvað verkefni nefndanna varðar.