Ferill 179. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1651  —  179. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Bjarna Garðarssyni um mat Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) á húsnæðisþörf stofnana ríkisins.


     1.      Hvernig fer mat FSRE á húsnæðisþörf stofnana ríkisins fram áður en hún auglýsir markaðskannanir og/eða leitar að húsnæði með skuldbindingu um viðskipti?
    Þegar FSRE fær beiðni um að afla húsnæðis fer fram þarfa- og valkostagreining vegna þarfa viðkomandi ríkisaðila. Tilgangur þeirrar greiningar er að kanna þær þarfir sem fyrirhugað er að leysa og þá kosti sem til greina koma við úrlausn þeirra. Við þarfagreiningu er gerð grein fyrir eðli og umfangi verkefnis og skilgreind sú þörf sem því er ætlað að leysa. Almennt er tekið mið af þróun starfseminnar næstu 5–10 ár en jafnframt hugað að lengri framtíð eftir því sem aðstæður leyfa. Þegar þessar forsendur liggja fyrir er efnt til samráðs við notandann eða eftir atvikum notendur. Við mat á rýmisþörf á tiltekinni starfsemi er tekið tillit til þeirra viðmiða sem sett hafa verið fyrir almenna og sértæka notkun húsnæðis á vegum ríkisins ásamt reynslu af gerð sambærilegra mannvirkja.

     2.      Hvaða svæði og hvaða sveitarfélög koma til greina þegar FSRE auglýsir eftir húsnæði „miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu“ eins og fram kom í nýlegri auglýsingu? Hvaða forsendur liggja að baki slíku skilyrði?
    Almennt þegar auglýst er eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu koma öll sveitarfélög til greina. Hins vegar getur eðli starfsemi stofnana og samsetning þjónustuþega þeirra kallað á að staðsetning sé miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, nálægt þungamiðju íbúaþróunar svæðisins, og nálægð við stofnbrautir, almenningssamgöngur og aðra skrifstofu- og þjónustustarfsemi. Einnig getur nálægð við aðrar stofnanir og samstarfsaðila skipt máli fyrir starfsemi viðkomandi stofnunar. Í tilfelli stórra vinnustaða kemur einnig til álita að taka tillit til áhrifa ferða starfsfólks til og frá vinnu m.a. vegna loftslagsáhrifa. Staðsetning er þannig einn þáttur í heildstæðu mati út frá þeim valkostum sem boðnir eru í hverju tilviki fyrir sig.

     3.      Hversu oft á síðustu tíu árum hefur Framkvæmdasýslan (FSRE) gert samninga við aðra aðila en lægstbjóðendur óháð staðsetningu tilboðsgjafa? Svar óskast sundurliðað eftir árum, tilvikum og röksemdum fyrir því að ekki hafi verið samið við lægstbjóðanda.
    Skoðuð voru verkefni sl. tíu ára eða frá nóvember 2012. Við mat á tilboðum í leiguverkefni á vegum stofnunarinnar er ávallt byrjað á að skoða hvort lægsta tilboð uppfylli kröfur húslýsingar.
    Hér má sjá yfirlit yfir þau verkefni þar sem ekki var samið við lægstbjóðanda og ástæður þess en í flestum tilfellum uppfyllti lægstbjóðandi ekki kröfur húslýsingar:

Stofnun Ár Ástæða
Samgöngustofa 2013 Nálægð við samstarfsaðila
Fiskistofa, Akureyri 2016 Stóðst ekki kröfur húslýsingar
Hafró 2016 Stóðst ekki kröfur húslýsingar
Vegagerðin 2018 Stóðst ekki kröfur húslýsingar
Heilsugæsla Mosfellsumdæmis 2018 Stóðst ekki kröfur húslýsingar
Skatturinn 2021 Stóðst ekki kröfur húslýsingar
Geðheilsa austur 2018 Stóðst ekki kröfur húslýsingar
Heilsugæslan Hlíðum 2021 Stóðst ekki kröfur húslýsingar
Geðheilsa suður 2019 Stóðst ekki kröfur húslýsingar
Heilsugæslan Akureyri 2021 Stóðst ekki kröfur húslýsingar