Ferill 931. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1657  —  931. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Hildi Sverrisdóttur um sjóði á vegum ráðuneytisins og stofnana þess.


     1.      Hvaða sjóði starfrækja ráðuneytið og stofnanir þess?
     Framkvæmdasjóður aldraðra starfar á grundvelli laga um málefni aldraðra og er í vörslu heilbrigðisráðuneytisins. Nánar er kveðið á um hlutverk sjóðsins í reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra, nr. 468/2014.
     Lýðheilsusjóður er starfræktur hjá embætti landlæknis á grundvelli reglugerðar um lýðheilsusjóð, nr. 1260/2011.
     Landspítali: Landspítali starfrækir ekki sjóði en er með bókhaldslega umsjón nokkurra sjóða sem hafa tengingu við Landspítala í skipulagsskrá, hvort sem þeir eru nýttir til að styrkja spítalann eða til vísindastarfa. Meðfylgjandi listi er ekki tæmandi þar sem hann er einungis yfir þá sjóði sem beðið var um að hafa í bókhaldslegri umsjón hjá Landspítala. Sjóðirnir eru allir stofnaðir með sér kennitölu, skipulagsskrá og hafa yfir sér stjórn.
    Sjóðir í bókhaldslegri umsjón Landspítala eru:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hver fer með umsýslu hvers sjóðs?
     Framkvæmdasjóður aldraðra: Heilbrigðisráðuneytið.
     Lýðheilsusjóður: Embætti landlæknis annast daglega umsýslu og reikningshald lýðheilsusjóðs.
     Landspítali: Sjóðirnir hafa allir sjálfstæða stjórn sem ákveður hvernig fjármunum sjóðsins er varið. Fjármálasvið Landspítala bókar og greiðir í samræmi við ákvörðun stjórnar.

     3.      Hvaða lög og reglur gilda um útdeilingu fjármuna úr hverjum sjóði?
     Framkvæmdasjóður aldraðra: Lög um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra, 468/2014.
     Lýðheilsusjóður: Lýðheilsusjóður starfar í samræmi við reglugerð um lýðheilsusjóð, nr. 1260/2011, með síðari breytingum. Sjóðurinn hefur sett sér starfsreglur sem staðfestar eru af heilbrigðisráðherra. 1
     Landspítali: Sjóðirnir eru allir með skipulagsskrá sem listar upp reglur við útdeilingu fjármuna og hvernig skipað er í stjórn.

     4.      Hvað kostaði að starfrækja hvern sjóð árið 2022?
     Framkvæmdasjóður aldraðra: Á árinu 2022 nam kostnaður fyrir þjónustu samkvæmt þjónustusamningi við Framkvæmdasjóð aldraðra rúmlega 32 millj. kr. Í þjónustusamningnum felst húsnæði, tölvu- og símkerfi, skjalavarsla, vinnuframlag, sérfræðiþjónusta, almenn þjónusta og vörukaup ásamt nefndarlaunum stjórnarmanna.
     Lýðheilsusjóður: Á árinu 2022 var rekstrarkostnaður lýðheilsusjóðs tæpar 2,5 millj. kr.
     Landspítali: Landspítali hefur ekki tekið greiðslu fyrir bókhaldslega umsjón sjóðanna. Annar kostnaður er í ársreikningum sjóðanna. Landspítali ráðstafar árlega fé í Vísindasjóð Landspítala. Á árinu 2022 var framlagið 120 millj. kr.

     5.      Hver var kostnaðurinn við að starfrækja hvern sjóð í hlutfalli við þá fjármuni sem var úthlutað úr sjóðnum árið 2022?
     Framkvæmdasjóður aldraðra: Kostnaðurinn er 1% af þeim fjármunum sem var úthlutað úr sjóðnum árið 2022.
     Lýðheilsusjóður: Fjárlög Lýðheilsusjóðs námu 254,9 millj. kr. á árinu 2022 en 65% af þeirri upphæð fóru til embættis landlæknis í lýðheilsu- og forvarnastarf, sbr. 4. gr. reglugerðar um lýðheilsusjóð. Eftirstöðvarnar, eða 89,2 millj. kr., eru til úthlutunar og reksturs á sjóðnum. Hlutfall rekstrarkostnaðar nam tæpum 2,5 millj. kr. á árinu 2022 sem er 2,8% af þeirri fjárhæð sem var úthlutað úr sjóðnum.
     Landspítali: Sjá svar við 4. tölul. fyrirspurnarinnar.

1     lydheilsusjodur.is/content/files/public/Starfsreglur_lydheilsusjods_2020.pdf