Ferill 751. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1695  —  751. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015 (starfsleyfi).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórarin Örn Þrándarson frá menningar- og viðskiptaráðuneyti og Sigrúnu Henríettu Kristjánsdóttur og Sigurjónu Sigurðardóttur frá Samgöngustofu.
    Umsagnir bárust frá Samgöngustofu og Samkeppniseftirlitinu.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015, verði breytt á þann veg að afnumið verði skilyrði um að ökutækjaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð. Jafnframt er lagt til að kveðið verði skýrar á um skilyrði fyrir útgáfu og niðurfellingu starfsleyfis með það að markmiði að fyrirbyggja mistúlkun. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það sé einn liður í einföldun regluverks í ferðatengdri þjónustu og byggist m.a. á tillögum vinnuhóps sem skipaður var fulltrúum úr Stjórnarráðinu og Samkeppniseftirlitinu sem var falið að vinna úr tillögum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, þar um, sbr. skýrslu OECD frá 10. nóvember 2020 um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað skilyrðis um fasta starfsstöð verði ökutækjaleigum skylt að hafa geymslustað fyrir skráningarskyld ökutæki sín og gert að tilkynna um hann til Samgöngustofu. Geymslustaðir geti verið í fleiri en einu sveitarfélagi og skal jákvæð umsögn viðkomandi sveitarfélags liggja fyrir. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að með því að fella niður skilyrði um fasta starfsstöð sé verið að afnema aðgangshindrun að þeim markaði sem um ræðir auk þess sem liðkað sé enn fyrir því að starfsemi sem þessi sé rekin rafrænt, sbr. núgildandi heimild í 3. gr. laganna.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru lagatæknilegs eðlis, leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðið „annað“ í 1. gr. falli brott.
     2.      Á eftir b-lið 2. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Orðið „hennar“ í 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     3.      5. gr. orðist svo:
                 8. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
                 Leyfisbréf skal vera sýnilegt á vefsíðu leyfishafa eða aðgengilegt leigutaka með öðrum hætti.
     4.      6. gr. orðist svo:
                 6. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
                 Leyfisbréf skal vera sýnilegt á vefsíðu leyfishafa eða aðgengilegt leigutaka með öðrum hætti.
     5.      8. gr. orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 12. gr. laganna.
                  a.      1. tölul. fellur brott.
                  b.      Í stað orðanna „starfsstöð eða útibú“ í 2. tölul. kemur: starfsemi.
                  c.      9. tölul. orðast svo: Um skyldu til að leyfisbréf sé sýnilegt á vefsíðu leyfishafa eða aðgengilegt leigutaka með öðrum hætti.

    Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 4. maí 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Helgi Héðinsson,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Friðjón R. Friðjónsson. Teitur Björn Einarsson.
Hanna Katrín Friðriksson.