Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1706  —  144. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010 (uppbygging innviða).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hólmfríði Bjarnadóttur, Hildi Dungal og Skúla Þór Gunnsteinsson frá innviðaráðuneytinu, Auði Önnu Magnúsdóttur og Andrés Skúlason frá Landvernd, Helenu Mjöll Jóhannsdóttur og Eydísi Franzdóttur frá Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Lárus M.K. Ólafsson og Sigríði Mogensen frá Samtökum iðnaðarins, Jóhannes Stefánsson frá Viðskiptaráði Íslands, Guðjón Axel Guðjónsson og Sverri Jan Norðfjörð frá Landsneti, Ernu Hrönn Geirsdóttur og Theodór Kjartansson frá Reykjavíkurborg, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vigdísi Häsler og Hilmar Vilberg Gylfason frá Bændasamtökum Íslands, Ólaf Árnason frá Skipulagsstofnun, Mörtu Rós Karlsdóttur og Hönnu Björgu Konráðsdóttur frá Orkustofnun, Unni Valborgu Hilmarsdóttur, Þorleif Karl Eggertsson og Magnús Magnússon frá Húnaþingi vestra, Rósu Magnúsdóttur, Helga Guðjónsson, Snædísi K. Bergmann og Svövu Svanborgu Steinarsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Trausta Fannar Valsson dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Gunnar Axel Axelsson frá Sveitarfélaginu Vogum og Ívar Pálsson lögmann Sveitarfélagsins Voga.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Akureyrarbæ, Bláskógabyggð, Bændasamtökum Íslands, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Húnaþingi vestra, Landsneti, Landvernd, Múlaþingi, Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Vogum, Viðskiptaráði Íslands og Þingeyjarsveit. Nefndin sendi tillögur að breytingum á frumvarpinu til umsagnar þeirra aðila sem sent höfðu umsögn um frumvarpið. Um þær tillögur bárust nefndinni umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Landvernd, Reykjavíkurborg, Náttúrusamtökum Suðvesturlands, Akureyrarbæ, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Vogum, Þingeyjarsveit og Múlaþingi.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagslögum með það að markmiði að einfalda stjórnsýslu í tengslum við framkvæmdir í flutningskerfi raforku og byggist frumvarpið á tillögum starfshóps sem skipaður var í framhaldi af aftakaveðri sem gekk yfir land í desember 2019. Meðal annars er lagt til að heimilt verði að taka sameiginlega skipulagsákvörðun sem nái til einnar framkvæmdar vegna flutningskerfis raforku, þvert á sveitarfélagamörk. Heimilt verði að skipa sérstaka stjórnsýslunefnd, svokallaða raflínunefnd, sem hafi það hlutverk að undirbúa og afgreiða skipulagsákvörðun vegna framkvæmdarinnar, gefa út sameiginlegt framkvæmdaleyfi og hafa yfirumsjón með eftirliti með framkvæmdinni.

Umfjöllun.
Skipulagsvald sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja á fót raflínunefndir að ósk og frumkvæði framkvæmdaraðila að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Raflínunefndin hafi það hlutverk að afgreiða skipulag fyrir framkvæmdir í flutningskerfi raforku þvert á sveitarfélagamörk, gefa út framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmdunum. Lagt er til að sveitarfélög sem framkvæmdin liggur um tilnefni fulltrúa í nefndina auk þess sem fulltrúi Skipulagsstofnunar eigi þar sæti. Nefndin hafi sjálfstætt stjórnsýsluvald og afgreiði skipulagsáætlun sem gangi framar skipulagsáætlunum sveitarfélaganna. Náist ekki samkomulag í nefndinni er lagt til að málinu verði vísað til ráðherra sem taki ákvörðun um val á valkosti og hvaða skilyrðum framkvæmdin skuli háð í skilmálum skipulagsins. Ráðherra skuli við töku ákvörðunarinnar taka mið af gildandi landskipulagsstefnu og niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar auk þess að hafa stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku til hliðsjónar.
    Í umsögnum og á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að framangreint fyrirkomulag frumvarpsins um raflínunefnd og aðkomu ráðherra feli í sér inngrip í skipulags- og sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaga sem varið sé af 78. gr. stjórnarskrárinnar og skapi óásættanleg fordæmi um takmörkun á þeim rétti sveitarfélaga.
    Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að ákvæði 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um að „sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða“. Ákvæðið mælir fyrst og fremst fyrir um að staða sveitarfélaganna og starfsumhverfi ráðist af því „sem lög ákveða“ en í ákvæðinu felast þó ákveðin efnisatriði. Löggjafinn getur t.d. ekki afnumið sveitarstjórnarstigið og kjarninn í sjálfstjórn sveitarfélaga felst í lýðræðislegum rétti íbúa til að kjósa stjórn sveitarfélags í almennum kosningum. Í grundvallaratriðum felur sjálfstjórn sveitarfélaga í sér að stjórn sveitarfélags sem er lýðræðislega kjörin af íbúum sveitarfélagsins sjálfs er sjálfstæð gagnvart öðrum stjórnvöldum þrátt fyrir að hvorugt þessara atriða komi fram með beinum hætti í ákvæðinu. Orðalagið „sem lög ákveða“ veitir löggjafanum þó verulegt svigrúm en honum er heimilt að breyta sveitarfélagaskipan og ákveða verkefni þeirra. Þrátt fyrir að sveitarfélög skuli „ráða málefnum sínum“ sjálf þá ræðst það að meginstefnu af gildandi lögum á hverjum tíma hvaða málefni það eru og hversu miklu um útfærslu þeirra sveitarfélög fá að ráða. Þá hefur verið litið svo á að ákvæði 1. mgr. 78. gr. feli ekki í sér neina verulega takmörkun á heimildum hins almenna löggjafa til að fela stjórnvöldum á vegum ríkisins eftirlit með störfum sveitarfélaganna og jafnvel umtalsvert íhlutunarvald í málefnum þeirra. Í grein Trausta Fannars Valssonar um sjálfstjórn sveitarfélaga er fjallað um hvort almenna löggjafanum sé óheimilt að færa tiltekin verkefni frá sveitarfélögum til annarra stjórnvalda vegna eðlis verkefnanna og eru í því skyni nefnd dæmi um staðbundin verkefni eins og gerð og samþykkt staðbundinna skipulagsáætlana um landnotkun. Fram kemur að ekki verði slíkar ályktanir dregnar af 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar og felst réttur til að sinna ákveðnum staðbundnum verkefnum þar með ekki í sjálfsstjórn sveitarfélaganna. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að nú þegar setja ýmis lög takmarkanir á heimildir sveitarfélaga til ákvarðanatöku um landnotkun við skipulagsgerð. Má þar m.a. vísa til ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 um landsskipulagsstefnu sem ráðherra leggur fyrir Alþingi til samþykktar. Sveitarfélögum er skylt að taka mið af landsskipulagsstefnu við gerð skipulagsáætlana eða breytinga á þeim og, eftir því sem við á, samræma þær landsskipulagsstefnu innan fjögurra ára frá samþykkt hennar, sbr. 4. mgr. 10. gr. laganna. Þá er sveitarstjórnum skylt að samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir verndar- og orkunýtingaráætlun innan fjögurra ára frá samþykkt hennar, sbr. 7. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Ljóst er að frumvarpið felur í sér frávik frá meginreglum skipulagslaga um að sveitarfélög fari með skipulagsvaldið og leggur meiri hlutinn áherslu á að öll slík frávik ber að túlka þröngt. Meiri hlutinn áréttar að ákvæði frumvarpsins eru skýrt afmörkuð að efni, þ.e. taka einungis til lagningu raflína í flutningskerfi raforku. Framkvæmdir við meginflutningskerfi raforku eru sérstaks eðlis, liggja yfir mörk nokkurra sveitarfélaga og eru ólíkar ýmsum öðrum samfélagslegum innviðum. Þá er uppbygging og viðhald flutningskerfis raforku þjóðhagslega mikilvæg út frá sjónarmiðum um afhendingaröryggi raforku um allt land og markvissri atvinnu- og byggðaþróun. Með vísan til framangreinds telur meiri hlutinn mikilvægt að umfjöllun um skipulagsbreytingar og framkvæmdaleyfi í flutningskerfi raforku geti hlotið þá sérstöku málsmeðferð sem mælt er fyrir um í frumvarpinu ef til ágreinings kemur og ekki tekst að leysa hann í hefðbundnu skipulagsferli. Þá telur meiri hlutinn tillögur frumvarpsins rúmast innan þeirra heimilda löggjafans sem 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir. Meiri hlutinn leggur áherslu á að skipulagsmál raflína fara ekki sjálfkrafa til vinnslu og afgreiðslu raflínunefndar samkvæmt frumvarpinu heldur þarf að óska eftir því hverju sinni að ráðherra skipi slíka nefnd um afmarkaða framkvæmd. Meiri hlutinn telur farsælast að sveitarfélög nái sjálf að leysa ágreining vegna fyrirhugaðrar lagningar raflínu en á sama tíma nauðsynlegt að fyrir hendi sé farvegur til að aðstoða við lausn hans vegna þeirra þjóðhagslegu mikilvægu hagsmuna að raforkuöryggi verði tryggt um allt land. Með frumvarpinu er lagður til slíkur farvegur.

Breytingartillögur.
Raflínuskipulag og umhverfismat.
    Gerðar voru athugasemdir við að í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að samþætta raflínuskipulag og umhverfismat þess og umhverfismat framkvæmdar en með því væri aðkoma hagsmunasamtaka og almennings skert. Í samráði við innviðaráðuneytið og Skipulagsstofnun telur meiri hlutinn rétt að leggja til ákveðnar breytingar á frumvarpinu þannig að frumvarpið snúist aðeins um skipulag raflína og framkvæmdaleyfi í tengslum við það. Lagt er til að falla frá því að samþætta gerð umhverfismats vegna raflínuframkvæmdar á grundvelli laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, og breytinga á skipulagi vegna raflínulagningar. Framkvæmdaraðili geti þannig hafið umhverfismat framkvæmdar og eftir atvikum klárað það áður en breyting á skipulagi vegna lagningar raflínu hefst. Með breytingum þessum er verið að undirstrika að stefnumótun um lagningu raflína fer fram á skipulagsstigi. Almenna reglan verður sú að tillaga að raflínuskipulagi verður unnin ásamt umhverfismati áætlunarinnar skv. III. kafla laga nr. 111/2021, um umhverfismat framkvæmda og áætlana, og að við afgreiðslu skipulagsins verði höfð hliðsjón af umhverfismatsskýrslu áætlunarinnar. Þetta er í samræmi við það sem almennt tíðkast í skipulagsmálum, t.d. er aðalskipulag eða aðalskipulagsbreyting umhverfismetin samhliða gerð hennar. Að baki þessari breytingu liggur það sjónarmið að hún uppfylli betur markmið frumvarpsins um aukna skilvirkni og að ein skipulagsákvörðun og eitt framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir tiltekinni framkvæmd í flutningskerfi raforku án íhlutunar í núverandi feril umhverfismats framkvæmda sem er kveðið á um í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021. Með vísan til þess sem hér er rakið leggur meiri hlutinn til breytingar á 3. mgr. c-liðar 7. gr. frumvarpsins og að 1. mgr. sömu greinar falli brott. Þrátt fyrir framangreinda meginreglu er þó rétt að mati meiri hlutans að í frumvarpinu verði heimild til að sameina skýrslugerð um umhverfismat raflína samkvæmt IV. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, og skýrslugerð um umhverfismat raflínuskipulagstillögu samkvæmt frumvarpinu og leggur til nýtt ákvæði þess efnis sem verði að finna í e-lið 7. gr. frumvarpsins. Bent er á að í 8. og 9. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, er nú þegar að finna ákvæði um forsamráð og samþættingu, en slík ákvæði voru ekki til staðar þegar raflínufrumvarpið var fyrst lagt fram á 151. löggjafarþingi.

Afgreiðsla og gildistaka raflínuskipulags.
    Í d-lið 7. gr. er fjallað um afgreiðslu og gildistöku raflínuskipulags. Í 1. mgr. kemur fram að þegar frestur til athugasemda sé liðinn skuli raflínunefnd fjalla um tillögu að raflínuskipulagi á nýjan leik og á grundvelli niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum taka afstöðu til þess hvaða valkostur skuli valinn ef leyfi verður veitt og að hvaða skilyrðum uppfylltum. Með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir er ekki gert ráð fyrir að umhverfismati framkvæmdar þurfi að vera lokið svo að unnt sé að kynna og afgreiða tillögu að raflínuskipulagi. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að skv. 1. mgr. 16. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skal sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar við afgreiðslu áætlunar hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum sem borist hafa við tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu. Sú skylda nær til raflínunefndar varðandi gerð raflínuskipulags og telur meiri hlutinn rétt að leggja til breytingar á orðalagi 1. mgr. d-liðar 7. gr. þannig að kveðið sé á um að líta skuli til þessara atriða við afgreiðslu raflínuskipulagsins.
    Í 4. mgr. d-liðar 7. gr. er mælt fyrir um aðkomu ráðherra að málinu komist raflínunefnd ekki að sameiginlegri niðurstöðu um samþykkt tillögunnar innan átta vikna frá því að afstaða sveitarfélaganna lá fyrir. Tillögunni skal þá vísað til ráðherra sem taki ákvörðun um val á valkosti og hvaða skilyrðum framkvæmdin skuli háð í skilmálum skipulagsins. Ráðherra skuli við töku ákvörðunarinnar taka mið af gildandi landskipulagsstefnu og niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar auk þess sem stefna stjórnvalda um flutningskerfi raforku skuli einnig höfð til hliðsjónar. Með vísan til þess sem að framan er rakið leggur meiri hlutinn til breytingar þannig að vísað verði til umhverfismatsskýrslu og athugasemda við tillöguna og umhverfismatsskýrsluna í stað niðurstaða mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Bent var á að þar sem frumvarpið tekur til framkvæmda sem falla undir raforkulög, nr. 65/2003, og kerfisáætlun sé rétt að ráðherra skuli við ákvörðun sína einnig líta til þeirra. Tekur meiri hlutinn undir það og leggur til breytingu þess efnis. Sú breyting er jafnframt til samræmis við orðalag 3. mgr. a-liðar 7. gr. þar sem fram kemur að við gerð raflínuskipulags skuli auk landskipulagsstefnu taka mið af ákvæðum raforkulaga, gildandi stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku og samþykktri kerfisáætlun.

Beiðni um skipan raflínunefndar og samsetning nefndarinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er ráðherra heimilt að skipa raflínunefnd að beiðni aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd í flutningskerfi raforku. Með vísan til þeirrar heimildar raflínunefndar að taka bindandi skipulagsákvörðun þvert á sveitarfélög um tiltekna framkvæmd í flutningskerfi raforku sem frumvarpið mælir fyrir um telur meiri hlutinn eðlilegt að þau sveitarfélög sem framkvæmd nær til hafi einnig heimild til að óska eftir að máli sé komið í þann skipulagsfarveg sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og leggur til breytingu þess efnis á 5. gr. Þannig verður jafnræðis betur gætt milli viðkomandi sveitarfélaga og framkvæmdaraðila.
    Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. skal setja fram beiðni um skipun raflínunefndar á undirbúningsstigi framkvæmdar og áður en ferli samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana er hafið. Bent var á að hvergi er að finna skilgreiningu á undirbúningsstigi framkvæmdar. Þá sé flutningsfyrirtæki skylt skv. 9. gr. a raforkulaga, nr. 65/2003, að leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins en í henni skuli m.a. felast langtímaáætlun sem sýni þá þætti í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum. Þar af leiðandi hafi stærstur hluti framkvæmda í flutningskerfi raforku næstu tíu árin hlotið einhverja umfjöllun á þeim vettvangi og því vandséð að það fyrirkomulag sem frumvarpið mælir fyrir um geti nýst fyrir þær framkvæmdir. Auk þess sé ekki víst að ágreiningur liggi fyrir á fyrstu stigum undirbúnings framkvæmdar heldur geti komið upp síðar. Einnig kom fram að þar sem staða aðalskipulags sveitarfélaga með tilliti til fyrirhugaðrar raflínu gæti verið ólík eftir einstaka málum þyrfti að vera fyrir hendi viðeigandi svigrúm til þess að hægt væri að óska eftir skipun raflínunefndar við mismunandi aðstæður. Við umfjöllun nefndarinnar var töluvert rætt um tímamark beiðni um skipan nefndarinnar, m.a. hvort ætti að vera hægt að óska eftir skipun slíkrar nefndar hvenær sem er í ferlinu eða festa við ákveðið tímamark, t.d. að slík beiðni sé sett fram áður en skipulagsferli hefst með gerð lýsingar skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Að mati meiri hlutans er rétt að opna fyrir að beiðni um skipan nefndarinnar geti komið fram á síðari stigum. Með vísan til þess sem áður er rakið að fallið verði frá því að samþætta gerð umhverfismats vegna raflínuframkvæmdar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og breytinga á skipulagi vegna raflínulagningar getur beiðni um skipan raflínunefndar komið fram eftir að umhverfismatsferli er hafið og/eða að loknu ferlinu. Varðandi tímamark í skipulagsferlinu telur meiri hlutinn rétt að binda heimildina við ákveðið tímamark þar sem heimildir laganna taki til nýrra raflínuverkefna en gilda ekki afturvirkt um þær raflínur sem þegar eru á staðfestu aðalskipulagi. Bendir meiri hlutinn á að skipulagslýsing og kynning skipulagstillögu með þeim athugasemdum og ábendingum sem fram koma á því stigi getur verið gagnlegt stjórntæki og mikilvæg forsenda fyrir því að hægt sé að meta hvort þörf er á að gera raflínuskipulag eða unnt að halda áfram með hefðbundin skipulagsferli. Umsagnir opinberra stofnana og athugasemdir frá einstaklingum og lögaðilum við skipulagslýsingu og skipulagstillögu geta verið þess eðlis að sveitarstjórn eða fleiri sveitarstjórnir telja ekki vera fyrir hendi grundvöll til að halda áfram á eigin vegum með hefðbundið skipulagsferli. Að mati meiri hlutans er því ekki rétt að binda heimildina við gerð lýsingar skv. 30. gr. skipulagslaga. Leggur meiri hlutinn þess í stað til að miðað verði við að beiðni um skipun nefndar þurfi að setja fram áður en samþykkt hefur verið á fundi a.m.k. einnar sveitarstjórnar að auglýsa skipulagstillögu á grundvelli 31. gr. skipulagslaga. Samkvæmt framangreindu verður ekki hægt að fara fram á að raflínunefnd sé skipuð þegar a.m.k. ein hlutaðeigandi sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa skipulagstillögu á grundvelli 31. gr. skipulagslaga.
    Í 3. mgr. 5. gr. er kveðið á um hverjir skuli eiga sæti í nefndinni. Þar segir að í nefndinni skuli eiga sæti einn fulltrúi hvers sveitarfélags sem viðkomandi framkvæmd á að ná til auk eins fulltrúa Skipulagsstofnunar sem skuli vera formaður nefndarinnar. Fram komu athugasemdir um við að ekki væri gert ráð fyrir fulltrúa stjórnvalda á sviði orkumála í nefndinni en nauðsynlegt væri að innan nefndarinnar væri fulltrúi með þekkingu á raforkumálum. Þá var gagnrýnt að Skipulagsstofnun færi með formennsku í nefndinni, þ.e. að stofnuninni væri bæði ætlað að veita raflínunefnd ráðgjöf og annast gerð raflínuskipulags í umboði hennar og að veita nefndinni formennsku. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og telur rétt að leggja til breytingar á 3. mgr. 5. gr. með vísan til þessa. Þannig eigi fulltrúi ráðherra orkumála sæti í nefndinni og fulltrúa ráðherra skipulagsmála falið að fara með formennsku í nefndinni í stað Skipulagsstofnunar. Hlutverk Skipulagsstofnunar verði að starfa með nefndinni, þ.e. veita henni ráðgjöf og annast gerð raflínuskipulags í umboði hennar og samkvæmt þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í frumvarpinu. Verður hlutverk stofnunarinnar þar með sambærilegt og hún hefur samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að til viðbótar við að viðkomandi sveitarfélög eigi fulltrúa í raflínunefndinni er gert ráð fyrir að víðtækt samráð verði viðhaft á öllum stigum, þ.e. að nefndinni beri við vinnu sína að leita álits viðkomandi sveitarfélags reglulega. Þá ber henni að leita umsagnar sveitarfélagsins um lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. 3. mgr. c-liðar 7. gr. frumvarpsins, umsagnar um raflínuskipulagstillöguna skv. 4. mgr. sömu greinar og umsagnar um endanlega tillögu raflínunefndar ásamt athugasemdum og umsögn nefndarinnar um þær skv. 2. mgr. d-liðar 7. gr. Auk þess ber að kynna raflínuskipulagið almenningi þar sem almenningur getur komið með athugasemdir.
    Í 19. gr. frumvarpsins er kveðið á um að lögin taki gildi 1. febrúar 2023. Það tímamark er liðið og leggur meiri hlutinn til að lögin öðlist gildi 1. nóvember 2023. Gefst þar með tími til að undirbúa gildistöku laganna, m.a. setningu reglugerða á grundvelli þeirra. Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Bjarni Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. maí 2023.

Ingibjörg Isaksen,
frsm.
Friðjón R. Friðjónsson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.