Ferill 876. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1720  —  876. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um hindranir fjölmiðla á Keflavíkurflugvelli.


     1.      Af hverjum og á hvaða forsendum og grundvelli, þ.m.t. lagalegum heimildum, var ákvörðun tekin um að beina flóðljósum að fjölmiðlafólki sem hindraði störf þess aðfaranótt 3. nóvember 2022 á Keflavíkurflugvelli?
    Í samtölum við ráðuneytið, í kjölfar aðgerða lögreglu á Keflavíkurflugvelli umræddan dag, upplýsti embætti ríkislögreglustjóra ráðuneytið um tildrög, undirbúning og framkvæmd aðgerða lögreglu hinn 3. nóvember 2022. Var þar sérstaklega fjallað um það þegar ljóskösturum bifreiða á vegum ISAVIA virtist hafa verið beint að fjölmiðlum sem staddir voru á svæðinu.
    Í samtölum ráðuneytisins við embætti ríkislögreglustjóra kom fram að starfsmenn embættisins hefðu ekki beint þeim tilmælum til ISAVIA að viðhafa nokkuð sem gæti hindrað störf fjölmiðla. Lögð hefði verið áhersla á það að ekki ætti að gera athugasemdir við það að fjölmiðlar væru að taka myndir af aðgerðum stoðdeildar ríkislögreglustjóra.
    Í kjölfar fréttaflutnings af atvikinu kannaði embætti ríkislögreglustjóra samskipti stoðdeildar embættisins og ISAVIA í aðdraganda og við framkvæmd aðgerðanna. Við þá könnun kom ekkert í ljós sem benti til þess að embætti ríkislögreglustjóra hefði gefið fyrirmæli um að starfsmenn ISAVIA skyldu beina ljóskösturum eins og gert var eða að störf fjölmiðla skyldu hindruð með einhverjum öðrum hætti.
    Samkvæmt niðurstöðu fundar ríkislögreglustjóra með fulltrúum ISAVIA, sem haldinn var 9. nóvember 2022, er líklegasta skýringin á atvikinu að misskilningur hafi orðið varðandi beiðni stoðdeildar um að fá að athafna sig í næði á haftasvæði flugvallarins, á þann hátt að í beiðninni hafi jafnframt falist fyrirmæli um að hefta ætti för fjölmiðla.

     2.      Telur ráðherra að sú ákvörðun sem getið er í 1. tölul. hafi verið í samræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála, íslensk lög og hefðbundnar verklagsreglur?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er líklegasta skýringin á atvikinu að misskilningur hafi orðið varðandi beiðni stoðdeildar um að fá að athafna sig í næði á haftasvæði flugvallarins. Að baki þessu lá því ekki ákvörðun um að hindra störf fjölmiðla.

     3.      Brást ráðuneytið við ofangreindum atvikum á einhvern hátt? Ef svo er, hvernig? Ef ekki, af hverju ekki?

    Eins og fram kemur hér að framan átti ráðuneytið í samskiptum við embætti ríkislögreglustjóra í kjölfar atviksins. Þær skýringar sem fram komu og vísað er til í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar voru taldar eiga við rök að styðjast.
    Þá var ráðuneytið upplýst um breytingar á verklagi, sem felast m.a. í því að starfsmenn ISAVIA skuli aðeins viðhafa ráðstafanir sem hafi það að markmiði að tryggja flugvernd og allar aðrar aðgerðir þeirra skuli metnar í samráði við stoðdeild ríkislögreglustjóra. Þá hafi verið farið yfir verkferla á Keflavíkurflugvelli í málum sem þessum til að tryggja rétta framkvæmd. Einnig hafi embætti ríkislögreglustjóra átt opinn fund með Blaðamannafélagi Íslands hinn 10. nóvember 2022 þar sem samskipti lögreglu og fjölmiðla hefðu verið sérstaklega rædd.
    Ráðuneytið telur að embætti ríkislögreglustjóra hafi brugðist við með fullnægjandi hætti með því að taka verklag aðgerða af þessu tagi til endurskoðunar og verður ekki annað ráðið en að þær breytingar sem gerðar hafa verið séu til þess fallnar að koma í veg fyrir að atvik sem þessi endurtaki sig.