Ferill 860. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1737  —  860. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að skoða tillögu þessa í samhengi við stefnumótun Alþingis í málefnum eldra fólks undanfarin ár. Alþingi samþykkti sumarið 2021 þingsályktunartillögu þingmanna Flokks fólksins um að koma á fót embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Svo virðist sem ráðherra málaflokksins hafi ákveðið að setja það verkefni á hilluna og setja eigin áherslur í forgang, frekar en að fylgja skýrum vilja Alþingis þar sem þingsályktunartillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þeirra 54 alþingismanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.
    Í þingsályktun nr. 34/151 frá 13. júní 2021 um hagsmunafulltrúa eldra fólks segir: „Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn meti m.a. hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skuli vera. Starfshópurinn skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022.“
    Eftir að Alþingi samþykkti fyrrgreinda þingsályktunartillögu gekk dapurlega hægt hjá ráðherra að skipa starfshópinn sem ályktunin kvað á um að skyldi stofnað til og í raun var hann ekki skipaður fyrr en í apríl 2022, eftir að frestur til að skila ráðherra drögum að frumvarpi, sem Alþingi hafði kveðið skýrt á um með þingsályktuninni, rann út.
    Starfshópurinn virðist nú hafa lokið vinnu sinni. Formanni Flokks fólksins var í kjölfarið boðið að funda með ráðherra og formanni starfshópsins. Þar kom í ljós að formaður starfshópsins hugðist ekki skila ráðherra frumvarpi, heldur átti að mæla með því að öll slík fyrirheit yrðu sett á ís þar til að þessi aðgerðaáætlun sem hér er til umfjöllunar væri komin til framkvæmda og hægt að meta árangur hennar.
    Því miður virðist það liggja ljóst fyrir að ráðherra málaflokksins hefur ekki hugsað sér að framfylgja skýrum vilja löggjafans þrátt fyrir að allur þingheimur standi því að baki að eldra fólki skuli tryggður hagsmunafulltrúi.
    Öllum má vera ljóst að sú aðgerðaráætlun sem nú liggur fyrir Alþingi er í engu að tryggja þá hagsmuni sem embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks (hér eftir hagsmunafulltrúi) er ætlað að tryggja.
    Sameiginlegir snertifletir þessarar aðgerðaáætlunar við embætti hagsmunafulltrúa lúta helst að fræðslu og upplýsingum um þá þjónustu sem eldra fólki er þegar tryggð.
    Í aðgerðaáætlun þessari er boðað að tveir ráðgjafar verði ráðnir til island.is til að sinna almennri ráðgjöf varðandi réttindi og þjónustu eldra fólks. Slíkt átak er til bóta en skilar engan veginn þeirri vernd og því félagslega öryggi sem hagsmunafulltrúa er ætlað að sinna.
    Þá tryggir aðgerðaáætlunin ekki þá réttindagæslu sem hagsmunafulltrúi mundi tryggja, líkt og hliðstætt embætti umboðsmanns barna gerir í dag.
    Frá því að Flokkur fólksins var kjörinn á Alþingi hefur hann barist fyrir því að stofnað yrði embætti sem mundi sinna frumkvæðiseftirliti með högum eldra fólks, tryggja að ekki yrði gengið á rétt eldra fólks í bágri stöðu og vinna gegn félagslegri einangrun þeirra. Sú aðgerðaáætlun sem hér er til umfjöllunar er að einhverju leyti til bóta, en tekur í engu á þeim vanda sem þúsundir eldra fólks býr við í dag.
    Þá er það ámælisvert að hvorki í umræddri aðgerðaáætlun né áliti meiri hluta velferðarnefndar er fjallað um lausnir á því hvernig bregðast eigi við skorti á hjúkrunarrýmum. Það dugar ekki að vísa til þess að komi þessi áætlun til framkvæmda þá muni heimaþjónusta verða öflugri og því muni fólk síður þurfa að dvelja á hjúkrunarheimilum. Slíkt er óskhyggja og tekur ekki á þeim vanda sem þegar er til staðar og virðist ætla að verða viðvarandi. Þörf er á fleiri hjúkrunarrýmum og það strax. Öll framtíðaráform um bætta heimaþjónustu og dagdvöl eru góðra gjalda verð en taka í engu á þeim vanda sem þegar er uppi. Jafnframt verður að skoða slík áform í samhengi við þá tölulegu staðreynd að fjöldi þeirra sem verða 85 ára og eldri muni þrefaldast á næstu þremur áratugum.
    Minni hlutinn skorar á hæstvirtan ráðherra að fara að vilja löggjafans og leggja fram frumvarp um stofnun embættis hagsmunafulltrúa eldra fólks.

Alþingi, 9. maí 2023.

Guðmundur Ingi Kristinsson.