Ferill 809. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1747  —  809. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2022.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Þóru Árnadóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Hildi Edwald, ritara Íslandsdeildar.
    Með tillögunni er skorað á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd fjögurra ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 30.–31. ágúst 2022.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2022 hvetur ráðið samstarfsráðherrana til þess að efla árlega skýrslugjöf sína með því að skiptast á að vera í forsvari fyrir sameiginlega skýrslugerð til ráðsins í samræmi við samstarfssamning sem gerður var árið 2022 milli Vestnorræna ráðsins annars vegar og ríkisstjórnar Íslands og landstjórna Færeyja og Grænlands hins vegar.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2022 er kallað eftir því að barnamálaráðherrar Vestur-Norðurlanda haldi samráðsfund á árinu 2023 og beri saman reynslu og gögn landanna um stöðu ungmenna hvað varðar heilbrigði, líðan, tómstundaiðkun, samfélagsmiðlanotkun og önnur viðfangsefni.
    Með ályktun nr. 3/2022 skorar Vestnorræna ráðið á ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda að rannsaka og bera saman stefnu og fyrirkomulag landanna þriggja í náttúrutengdri ferðaþjónustu, þ.m.t. aðgengi að og verndun náttúrunnar í tengslum við vaxandi ferðaþjónustu í löndunum, með það að markmiði að greina bestu starfsvenjur.
    Með fjórðu ályktuninni, nr. 4/2022, eru jafnréttisráðherrar landanna þriggja hvattir til að halda fund á árinu 2023 til að bera saman bækur sínar um framfylgd áætlunar norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál árin 2019–2024, þar á meðal viðauka við áætlunina um jöfn réttindi og möguleika hinsegin fólks. Þá eru ráðherrarnir hvattir til að leita lausna á mögulegum sameiginlegum vestnorrænum úrlausnarefnum á vettvangi jafnréttismála.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Diljá Mist Einarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Jakob Frímann Magnússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.
    

    Alþingi, 8. maí 2023.

Bjarni Jónsson,
form., frsm.
Birgir Þórarinsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Logi Einarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Teitur Björn Einarsson. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.