Ferill 848. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1753  —  848. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigurjóni Þórðarsyni um sjúkrahúsið í Stykkishólmi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þær framkvæmdir sem nú standa yfir við Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi taki til alls hússins, þar á meðal til 4. hæðar, í stað þess að húsið verði gert upp að hluta? Ef svo er ekki, hvaða rök liggja að baki þeirri ákvörðun?

    Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hefur umsjón með fasteignum ríkisins og stýrir framkvæmdum við breytingar, endurbætur og nýbyggingar. Samkvæmt upplýsingum FSRE eru tvö verkefni á hennar forræði, annars vegar yfirstandandi framkvæmd við gerð 18 rýma hjúkrunarheimilis innan veggja sjúkrahússins og hins vegar viðhaldsverkefni næstu ár.
    Framkvæmdir við sjúkrahúsið í Stykkishólmi, í tengslum við nýtt hjúkrunarheimili, hafa verið unnar í samræmi við frumathugun frá október 2016.
    Áður en framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili hófust þurfti að fara í nauðsynlegar framkvæmdir innan sjúkrahússins, bæði í eldri og yngri hluta þess. Samhliða framkvæmdum við nýja hjúkrunarheimilið hefur verið farið í að skipta um alla glugga í gamla sjúkrahúsinu og þeir færðir til upprunalegs horfs og húsnæðið einangrað og klætt að nýju.
    Helstu viðhaldsframkvæmdir sem gert er ráð fyrir að ráðast í á næstu árum og teljast til eðlilegs viðhalds eru: Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að skipta út opnanlegum fögum, u.þ.b. 100 talsins, í nýjum hluta sjúkrahússins. Í öðru lagi að uppfæra vatnsúðakerfi í nýjum hluta sjúkrahússins og setja upp kerfi þar sem það er ekki til staðar í dag. Í þriðja lagi að uppfæra brunahólfun flóttaleiða samkvæmt gildandi reglugerð. Aðrar áætlaðar viðhaldsframkvæmdir eru minni háttar.