Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1770  —  588. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um fjármögnunarviðskipti með verðbréf.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Rúnar Örn Olsen og Hörð Tulinius frá Seðlabanka Íslands og Jónu Björk Guðnadóttur og Andra Frey Stefánsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Auk þess barst nefndinni minnisblað um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Í frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um fjármögnunarviðskipti með verðbréf öðlist gildi. Með lögunum verði innleidd ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2365 frá 25. nóvember 2015 um gagnsæi í fjármögnunarviðskiptum með verðbréf og um endurnotkun og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (SFTR) og nauðsynleg ákvæði þar að lútandi lögfest, m.a. um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins og viðurlög fyrir brot, og reglugerðarheimildir ráðherra og heimildir Seðlabanka Íslands til að setja reglur. Um efni reglugerðarinnar vísast til greinargerðar með frumvarpinu.
    Auk framangreinds eru lagðar til breytingar á öðrum lögum. Annars vegar afleidd breyting á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018, sbr. 32. gr. SFTR, og hins vegar breyting á öðrum lögum á verðbréfamarkaði sem tengjast innleiðingu SFTR ekki með beinum hætti. Er þar um að ræða breytingu á stjórnvaldsfyrirmælaákvæði laga um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017, sem felur í sér samræmingu ákvæðis laganna við aðra nýlega löggjöf á fjármálamarkaði og nauðsynleg er til þess að innleiða megi með reglum Seðlabanka Íslands nýjar framseldar reglugerðir ESB um skortsölu og skuldatryggingar sem byggjast á tæknistöðlum frá Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni. Þá er lögð til breyting á lögfestingarákvæði laga um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021, sem leiðir af leiðréttingu á íslenskri þýðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014, um markaðssvik, og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB og tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB, 2003/125/EB og 2004/72/EB.

Breytingartillaga.
Lögfesting (2. gr.).
    Í 2. gr. frumvarpsins kemur fram að ákvæði SFTR-reglugerðarinnar skuli hafa lagagildi hér á landi, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 385/2021 frá 10. desember 2021 sem birt er með auglýsingu nr. 7/2022 í C-deild Stjórnartíðinda 21. október 2022, og bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að við 2. gr. bætist ný málsgrein þar sem fram komi að þegar vísað sé til „laga þessara“ í lögunum sé jafnframt átt við reglugerð ESB samkvæmt ákvæðinu. Breytingin er í samræmi við ákvæði annarra laga á sviði fjármálamarkaðar og er til þess fallin að draga úr vafa sem kynni annars að vera um beitingu eftirlitsheimilda.

Framsetning orðskýringa (3. gr.).
    Í 3. gr eru settar fram orðskýringar sem eiga við um hugtök sem fram koma í SFTR-reglugerðinni. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð frumvarpsins kemur fram að í reglugerðinni sé nokkuð um vísanir til hugtaka í skilningi annarra Evrópugerða sem teknar hafa verið upp í íslenskan rétt. Til þess að skýra hvaða merkingu þau hugtök í reglugerðinni skuli hafa eru þau því sett fram, í 3. gr., og skýrð með vísun til viðeigandi ákvæða í íslenskum lögum.
    Þar sem ekki er um að ræða orðskýringarákvæði í hefðbundnum skilningi heldur ákvæði sem ætlað er að leiðbeina um það hvernig skilja beri tiltekin hugtök reglugerðarinnar þegar þau eru heimfærð á innlent réttarumhverfi leggur meiri hlutinn til að fyrirsögn ákvæðisins verði skýring hugtaka. Þá leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á inngangsmálslið ákvæðisins til þess að endurspegla betur eðli ákvæðisins.
    Að auki telur meiri hlutinn að óskýrleika kunni að gæta varðandi túlkun 1., 6. og 19. tölul. ákvæðisins, þar sem ekki einungis er vísað til hugtaks, heldur einnig þess ákvæðis þar sem það kemur fram í reglugerðinni. Þar sem bæði hugtökin og tilvísanir sem fylgja þeim eru skáletruð mætti skilja ákvæðin sem svo að tilvísunin sé hluti hugtaksins, en ekki lýsing á því hvar hugtakið er að finna. Meiri hlutinn leggur til breytta framsetningu þannig að tilvísanir verði aðgreindar í sviga aftan við sjálft hugtakið á viðeigandi stöðum, þ.e. í 1., 6. og 19. tölul. 3. gr.

Eftirlit og upplýsingagjöf (4. gr.).
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um eftirlit Fjármálaeftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) samkvæmt lögunum. Fjallað er um valdheimildir ESA í 9. gr. SFTR með þeim hætti að vísað er til tiltekinna ákvæða í reglugerð 648/2012 (EMIR) sem innleidd eru með lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018. Er því gert ráð fyrir að þau ákvæði gildi einnig um sektar- og valdheimildir ESA þegar kemur að viðskiptaskrám samkvæmt SFTR. Í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram að tilefni sé til að auka skýrleika og sýnileika þessa fyrirkomulags og tryggja samræmi við innleiðingu EMIR. Leggur Seðlabankinn til breytingu þess efnis að í 4. gr. verði vísað til 9. gr. SFTR. Meiri hlutinn tekur undir þessa ábendingu og leggur til breytingu þess efnis að við 4. gr. bætist ný málsgrein þar sem fram kemur að um valdheimildir ESA sé nánar fjallað í 9. gr. SFTR.
    Þá leggur Seðlabankinn einnig til að við 4. gr. bætist ný málsgrein sem væri efnislega samhljóða 2. mgr. 5. gr. laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár til þess að tryggja samræmi við innleiðingu sambærilegra ákvæða EMIR. Meiri hlutinn tekur undir þá ábendingu og leggur til breytingu sem er til samræmis við tillögu í minnisblaði ráðuneytisins um málið.

Stjórnvaldssektir (8. gr.).
    Seðlabanki Íslands leggur til tvær breytingar á 8. gr. frumvarpsins. Annars vegar leggur Seðlabankinn til að við 8. gr. bætist ný málsgrein þar sem fram komi að nánar sé fjallað um sektarheimildir ESA í 9. gr. SFTR. Tillagan á við sömu rök að styðjast og samhljóða viðbót við 4. gr. sem gerð er grein fyrir hér framar og gerir meiri hlutinn hana að sinni.
    Að auki bendir Seðlabankinn á að engar heimildir eru í frumvarpinu fyrir Fjármálaeftirlitið til að beita viðurlögum við broti á 10. gr. frumvarpsins, sem kveður á um heimild Fjármálaeftirlitsins til að banna einstaklingi sem brýtur af sér með þeim hætti sem greinir í 1. eða 2. mgr. 8. gr. að gegna stjórnunarstörfum hjá eftirlitsskyldum aðila. Meiri hlutinn tekur undir þessa ábendingu og gerir tillögu Seðlabankans að breytingu að sinni.

Gildistaka (18. gr.).
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja kemur fram að samtökin telji nauðsynlegt að fresta gildistöku frumvarpsins til þess að veita eftirlitsskyldum aðilum hæfilegt svigrúm til aðlögunar að þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra samkvæmt reglugerðinni. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telji mögulegt að fresta gildistöku frumvarpsins til 1. nóvember 2023. Þó bendir ráðuneytið á að áform um innleiðingu reglugerðarinnar hafi verið birt í samráðsgátt 21. október 2021 og drög að frumvarpi í nóvember 2022. Þannig hafi verið tryggður fyrirsjáanleiki og tími til undirbúnings fyrir þær breytingar sem leiðir af reglugerðinni. Eftir móttöku minnisblaðsins hefur þó komið fram að svigrúm kunni að vera til þess að fresta gildistöku laganna til áramóta. Meiri hlutinn leggur því til að gildistaka frumvarpsins, utan 2. og 3. tölul. 19. gr., miðist við 1. janúar 2024.

    Auk framangreinds leggur meiri hlutinn til að í stað orðsins „hlutabréfum“ í f-lið 2. tölul. 1. mgr. 19. gr. komi: ríkisskuldum. Um er að ræða leiðréttingu á misritun.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þegar vísað er til laga þessara í lögunum er jafnframt átt við reglugerð ESB samkvæmt þessari grein.
     2.      Við 3. gr.
                  a.      Inngangsmálsliður greinarinnar orðist svo: Eftirfarandi hugtök í reglugerð (ESB) 2015/2365 hafa svofellda merkingu.
                  b.      Í stað orðanna „ Ársskýrsla skv. b-lið 1. mgr. 13. gr.“ í 1. tölul. komi: Ársskýrsla (í b-lið 1. mgr. 13. gr.).
                  c.      Í stað orðanna „ Hálfsárs- eða ársskýrslur skv. a-lið 1. mgr. 13. gr.“ í 6. tölul. komi: Hálfsárs- eða ársskýrslur (í a-lið 1. mgr. 13. gr.).
                  d.      Í stað orðanna „ Viðmið skv. 3. mgr. 4. gr.“ í 19. tölul. komi: Viðmið (í 3. mgr. 4. gr.).
                  e.      Fyrirsögn greinarinnar verði: Skýring hugtaka.
     3.      Við 4. gr. bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Um valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA er nánar fjallað í 9. gr. reglugerðar (ESB) 2015/2365.
                 Til þeirra rannsóknaraðgerða sem kveðið er á um í a–c-lið og e-lið 1. mgr. 62. gr. og 63. gr. reglugerðar (ESB) nr. 648/2012, sbr. lög um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018, sbr. 9. gr. reglugerðar (ESB) 2015/2365, þarf heimild dómara nema samþykki þess aðila sem rannsóknaraðgerðirnar beinast að liggi fyrir. Um beiðni um heimild dómara til rannsóknaraðgerða fer eftir XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.
     4.      Við 8. gr.
                  a.      Í stað orðanna „skv. 5. gr. eða 7. gr. laga þessara“ í 2. mgr. komi: skv. 5. eða 7. gr. laga þessara eða brýtur gegn ákvörðun þess um bann við að gegna stjórnunarstörfum skv. 10. gr.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Um sektarheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA er nánar fjallað í 9. gr. reglugerðar (ESB) 2015/2365.
     5.      Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2023“ í 1. málsl. 18. gr. komi: 1. janúar 2024.
     6.      Í stað orðsins „hlutabréfum“ í f-lið 1. mgr. 2. tölul. 19. gr. komi: ríkisskuldum.

    Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Guðbrandur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 11. maí 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Logi Einarsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.