Ferill 868. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1820  —  868. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um Heilsugæsluna Grafarvogi.


     1.      Hvenær varð ljóst að færa þyrfti starfsemi Heilsugæslunnar Grafarvogi úr húsnæðinu í Spöng og til hvaða aðgerða var gripið þegar ljóst var orðið að færa þyrfti starfsemina úr því húsnæði?
    Í lok árs 2021 var ljóst að flytja þyrfti starfsemi Heilsugæslunnar Grafarvogi úr húsnæðinu í Spöng en þá lá fyrir úttektarskýrsla frá verkfræðistofu sem sýndi ótvírætt myglusmit á báðum hæðum hússins í Spönginni 35. Skýrslan var kynnt á fundi með fulltrúum heilsugæslunnar 24. nóvember 2021. Í framhaldi af skýrslunni skiptust leigutakinn, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) og fasteignafélag sem er eigandi húsnæðisins á hugmyndum um til hvaða ráða væri hægt að grípa. Ljóst var að húsnæðið væri gjörsamlega ónothæft og að aðgerðir til lagfæringa mundu valda starfsfólki og skjólstæðingum enn meiri óþægindum en áður ef starfsemin yrði þar á meðan á framkvæmdum stæði. HH ákvað því að flytja úr húsnæðinu eins fljótt og auðið yrði. Strax var farið að leita að nýrri aðstöðu fyrir Heilsugæsluna Grafarvogi.

     2.      Hvaða möguleikar voru kannaðir við leigu á tímabundnu húsnæði undir Heilsugæsluna Grafarvogi meðan framkvæmdir eru í húsnæðinu í Spöng:
                  a.      í Grafarvogi,
                  b.      sem næst Grafarvogi?

     Húsnæði fyrir heilsugæslu þarf að uppfylla ströng skilyrði um hreinlæti, aðgengi og flóttaleiðir, ásamt því að vera staðsett í nágrenni við skjólstæðingana. Það er því ekki áhlaupaverk að finna með stuttum fyrirvara samastað fyrir margþætta og sérhæfða heilbrigðisstarfsemi heilsugæslustöðvar, auk tveggja geðheilsuteyma, með alls um 35 starfsmenn og á tólfta þúsund skjólstæðinga, starfsemi sem fram að þessu hafði farið fram í 1.500 fermetra húsnæði.
    HH leitaði fyrst eftir aðstoð fasteignafélagsins, sem gat ekki vegna skemmda á húsnæðinu staðið við leigusamninginn í Spönginni. Fasteignafélagið benti á laust húsnæði í eigu félagsins utan Grafarvogs, í Mosfellsbæ og við Höfðabakka en var ekki þegar á reyndi tilbúið að aðlaga það fyrir heilsugæslurekstur. Fasteignafélagið benti einnig á minna húsnæði í eigu félagsins í Spönginni, sem rúmað gæti fáeina starfsmenn heilsugæslustöðvarinnar.
    Víðtæk leit hófst hjá fasteignafélögum og fasteignasölum að húsnæði sem væri laust eða við það að losna innan Grafarvogs. Starfsmenn HH leituðu einnig sjálfir að húsnæði með því að fara um hverfið, leita í auglýsingum og fylgja eftir ábendingum.
    Einnig var rætt við Reykjavíkurborg, sem glímdi reyndar við húsnæðisskort vegna rakaskemmda í grunn- og leikskólum á þessum tíma, en fyrir dyrum stóð að breyta skipulagi velferðarþjónustu borgarinnar sem opnaði vissa möguleika, en verið var að sameina þjónustumiðstöðvar borgarinnar í Árbæjar og Grafavogshverfi. Um tíma stóð til að hin sameinaða þjónustumiðstöð flyttist í sameiginlegt húsnæði á Höfða, en við það hefði húsnæði þjónustumiðstöðvar Grafarvogs á Gylfaflöt 4 losnað. HH fékk vilyrði borgarinnar og eiganda húsnæðisins fyrir forgangi að þessu húsnæði ef málin skipuðust á þann hátt, sem hefði orðið góð lausn fyrir heilsugæslustarfsemina. Þær vonir brugðust og sameiginleg þjónustumiðstöð starfar til bráðabirgða á Gylfaflöt.
    Til að þjóna skjólstæðingum sem best í erfiðri stöðu var ákveðið að skipta starfseminni upp á fleiri en einn stað. Þannig mundi bráðaþjónusta geta verið í litla rýminu í Spönginni sem fasteignafélagið átti og taldi öruggt fyrir starfsemina. Þar var ætlunin að vera með fáeina starfsmenn, þ.e. lækna, hjúkrunarfræðinga og ritara. Ákveðið var að vera með aðra hluta starfseminnar, svo sem heilsuverndarþjónustu, ung- og smábarnavernd og mæðravernd og sálfræðiþjónustu, fjær upphaflegu starfsstöðinni. Varð niðurstaðan sú að bráðaþjónustan flutti í Spöngina 39 í júní 2022 og heilsuverndarþjónustan á 1. hæð í Hraunbæ 115 1. júlí 2022.
    Því miður fór hins vegar fljótlega að bera á því síðastliðið haust að nýja húsnæðið í Spönginni var ekki eins gott og vonir stóðu til. Starfsmenn kvörtuðu yfir þungu lofti og grunsemdir um mygluskemmdir vöknuðu einnig á þessum stað. Þá trufluðu framkvæmdir annars staðar í húsinu starfsemina. Þessar aðstæður þóttu ekki boðlegar skjólstæðingum og starfsfólki. Því var ákveðið að leigja stærra húsnæði á neðri hæðinni í Hraunbæ 115, þangað sem það sem eftir var af starfseminni í Spönginni flutti í byrjun febrúar 2023.

     3.      Hvers vegna var ákveðið að færa starfsemina í Heilsugæsluna Árbæ frekar en Heilsugæsluna Höfða?
    Í spurningunni felst hugsanlega ákveðinn misskilningur því heilsugæslustarfsemin í Grafarvogi hefur ekki verið færð „í Heilsugæsluna Árbæ“ þó að starfsemi Grafarvogsstöðvarinnar hafi tímabundið verið flutt á neðri hæð í sama húsi og Heilsugæslan í Árbæ starfar í. Þessar tvær heilsugæslustöðvar eru aðskildar starfseiningar með aðskilinn rekstur. Þær starfa eins og aðrar heilsugæslustöðvar eftir kröfulýsingu og innan fjármögnunarlíkans heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Heilsugæslustöðvarnar geta samt mögulega átt samstarf og notið góðs hvor af annarri í nábýlinu á meðan þær eru tímabundið í sömu byggingu.
    Ekki er vitað til þess að húsnæði hafi verið laust hjá Höfða eða í nágrenni heilsugæslustöðvarinnar.

     4.      Hvernig rímar leiðakerfi Strætó við flutning Heilsugæslunnar Grafarvogi í Heilsugæsluna Árbæ fyrir íbúa Grafarvogs og var höfð hliðsjón af því við ákvarðanatöku um flutning í umrætt húsnæði?
    Til að komast frá Spönginni í Hraunbæ 115 má ýmist taka einn eða tvo strætisvagna og samkvæmt reikniforriti á vefsíðu Strætó er ferðatími um hálf klukkustund. Fyrir þá íbúa í Grafarvogi sem búa nær Árbænum er ferðatíminn styttri; úr Fjallkonufold er hægt að taka einn vagn og ferðatíminn er 20–25 mínútur. Strætisvagnaleiðir voru kannaðar og málið rætt við stjórnendur hjá Strætó áður en ákvörðun um flutning var tekin.

     5.      Hvað er áætlað að notendur Heilsugæslunnar Grafarvogi verði lengi samanlagt án heilsugæslustöðvar innan hverfis?
    Samkvæmt upplýsingum fasteignafélagsins er stefnt að því að húsnæðið í Spönginni 35 verði tilbúið til notkunar á ný um áramótin 2023 og 2024. Framkvæmdasýsla ríkisins – Ríkiseignir vinna nú að gerð nýs leigusamnings um húsnæðið, sem tekur mið af tímaáætlun eiganda um framkvæmdir og byggist á breyttri hönnun húsnæðisins.