Ferill 854. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1821  —  854. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um endurupptöku mála í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur.


     1.      Hversu margir einstaklingar fengu mál sitt endurupptekið hjá kærunefnd útlendingamála í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-351/2022 sem féll 13. október 2022?
    Samkvæmt upplýsingum frá kærunefnd útlendingamála fengu alls 11 einstaklingar mál sitt endurupptekið í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-351/2022.

     2.      Hversu margir þeirra höfðu þegar verið fluttir úr landi þegar dómur féll?
    Engum af þeim 11 einstaklingum sem fengu mál sitt endurupptekið hafði verið vísað úr landi í fylgd lögreglu þegar dómurinn féll 13. október 2022. Tveir einstaklingar höfðu þegið aðstoð lögreglu við farmiðakaup og akstur til Keflavíkurflugvallar, annar í febrúar 2022 og hinn í apríl 2022, og voru þeir því farnir úr landi er dómurinn féll.

     3.      Hversu margir þeirra voru fluttir úr landi eftir að dómur féll?
    Tveir einstaklingar voru fluttir úr landi í fylgd lögreglu eftir að dómurinn féll 13. október, báðir í nóvember.

     4.      Hver var heildarkostnaður ríkissjóðs af þeim flutningi fólks úr landi sem getið er að framan?
    Líkt og fram kemur í svari dómsmálaráðherra við skriflegri fyrirspurn um kostnað við flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd úr landi, sbr. þskj. 391 – 127. mál sem lagt var fram á 152. löggjafarþingi, þá er rekstrarkostnaður og launakostnaður lögreglumanna hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra ekki aðgreindur eftir verkefnum, en stoðdeild sinnir auk flutninga útlendinga, sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, flutningum í fylgd vegna framsals sakamanna, flutningi fanga og framkvæmd frávísana samkvæmt ákvörðunum teknum af lögreglu. Að því sögðu er ekki hægt að setja fram heildarkostnað ríkissjóðs af flutningi þeirra einstaklinga sem að framan greinir.
    Útlagður kostnaður stjórnvalda vegna fargjalda fyrir tvo einstaklinga, sbr. svar við 2. lið, og vegna flutnings tveggja einstaklinga í fylgd, sbr. svar við 3. lið, þ.m.t. fargjalda, dagpeninga, túlkaþjónustu, eftirlits með flutningi og sérfræðingaþjónustu, var alls 3.135.213 kr.