Ferill 896. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1834  —  896. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, o.fl. (verkefnaflutningur til sýslumanns).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalstein Þorsteinsson, Hönnu Dóru Hólm Másdóttur og Björn Inga Óskarsson frá innviðaráðuneyti, Valgerði Rún Benediktsdóttur og Karl Björnsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Guðmund Ásgeirsson og Kristínu Helgadóttur frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Hagsmunasamtökum heimilanna og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá bárust nefndinni minnisblöð frá innviðaráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, sem fela í sér að verkefni stofnunarinnar verði færð til sýslumanns. Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er markmið tilfærslunnar að skapa trausta umgjörð um innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga samkvæmt ákvæðum barnalaga, nr. 76/2003, eða á grundvelli þjóðréttarlega samninga um innheimtu krafna, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og bæta þjónustu við meðlagsgreiðendur.

Umfjöllun.
Niðurlagning Innheimtustofnunar sveitarfélaga fjórum árum eftir gildistöku.
    Með frumvarpinu er lagt til að verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga flytjist til ríkisins ásamt óinnheimtum kröfum stofnunarinnar, fasteign hennar, skrifstofubúnaði og innheimtu- og upplýsingakerfum í eigu stofnunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir að önnur réttindi eða skuldbindingar stofnunarinnar færist til ríkisins. Með frumvarpinu er ekki lagt til að stofnunin verði lögð niður við verkefnaflutninginn heldur fái hún nýtt nafn og fari áfram með þau réttindi, skyldur, eignir og skuldbindingar stofnunarinnar sem ekki verða sérstaklega fluttar frá stofnuninni á grundvelli 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að þriggja manna verkefnisstjórn fari með yfirstjórn IHS. Þá er hlutverki verkefnisstjórnar lýst í 2. mgr. sömu greinar en þar segir m.a. að verkefnisstjórnin fari með forræði yfir IHS, ráðstafi hagsmunum og svari fyrir skyldur stofnunarinnar. Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir að sérstök starfsemi verði í IHS umfram það að gæta að hagsmunum sveitarfélaga vegna óútkljáðra mála. Lagt er til í c-lið 9. gr. frumvarpsins að lögfest verði ákvæði til bráðabirgða þess efnis að IHS verði lögð niður 1. janúar 2028, þ.e. fjórum árum eftir gildistöku laganna 1. janúar 2024, sbr. 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins.
    Við umfjöllun nefndarinnar var töluvert rætt um hvort nauðsynlegt væri að stofnunin, eða í reynd skel hennar, starfaði áfram í fjögur ár eftir gildistöku laganna og flutning verkefna stofnunarinnar til ríkisins. Nefndin óskaði eftir minnisblaði innviðaráðuneytisins til frekari skýringar á þessari tillögu frumvarpsins og barst það 25. apríl 2023. Þar er áréttað að Innheimtustofnun sveitarfélaga sé í eigu sveitarfélaga og beri öll sveitarfélög landsins sameiginlega ábyrgð á eignum og skuldbindingum stofnunarinnar. Í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir að aðrar eignir eða skuldbindingar en þær sem tilteknar eru í frumvarpinu færist yfir til ríkisins sé nauðsynlegt að ákveða fyrirsvar vegna þeirra réttinda og skuldbindinga sem ekki færast til ríkisins. Með því að leggja til að stofnunin verði ekki lögð niður heldur starfrækt áfram undir stjórn verkefnisstjórnar sé tryggt að slíkt fyrirsvar sé fyrir hendi. Í minnisblaðinu kemur fram að einkum hafi verið horft til þeirrar óvissu sem kunni að skapast um fyrirsvar vegna mögulegra réttinda og skuldbindinga stofnunarinnar ef hún yrði lögð niður áður en mál sem varða stofnunina hafa verið leidd til lykta en þar séu sérstaklega höfð í huga dómsmál á hendur stofnuninni vegna starfsmannamála en óvíst sé hvenær meðferð þeirra ljúki. Einnig sé horft til þess að almennur fyrningartími krafna sé fjögur ár, sbr. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, og því nauðsynlegt að sveitarfélögin hafi skýrt fyrirsvar um málefni stofnunarinnar á því tímabili eftir að verkefni hennar hafi verið færð til ríkisins. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og þær skýringar sem fram koma í minnisblaði ráðuneytisins og telur fjögur ár hæfilegan tíma.

Fjárhagsleg skipting ríkis og sveitarfélaga vegna flutnings verkefna frá Innheimtustofnun til sýslumanns.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga var lýst eindregnum vilja sambandsins að verkefnið næði fram að ganga, þ.e. að verkefni stofnunarinnar yrðu flutt til ríkisins. Hins vegar gerði sambandið athugasemdir við þá kostnaðarskiptingu sem lögð er til í frumvarpinu en þar er lagt til að framlög ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga skv. a-lið 8. gr. a laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, lækki um 0,075% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs og tryggingagjöldum eða úr 2,111% í 2,036%, sbr. a-lið 7. tölul. 12. gr. frumvarpsins. Fjárhæðin nemur 750 millj. kr. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að lækkunin nemi áætluðum kostnaðarauka ríkisins vegna verkefnaflutningsins til að tryggja að ekki verði verulegar breytingar á tekjum eða útgjöldum ríkis eða sveitarfélaga vegna verkefnaflutningsins. Sambandið er ósammála kostnaðarmatinu og telur fjárhæðina vera of háa. Benti sambandið m.a. á að ríkið hefði mikla möguleika á að ná fram samlegðaráhrifum við önnur verkefni þar sem útgreiðsla og innheimta meðlaga yrði á sömu hendi en ekki væri tekið nægilegt tillit til þessara hagræðingarmöguleika við útreikninginn. Þá verði að líta til þess að hér sé búið að vera samfelldur hagvöxtur um áraraðir og greiðslugeta skuldara, m.a. meðlagsskuldara, því almennt góð og þar með líkur til að innheimta gangi vel og haldist stöðug. Ríkið hafi einnig tækifæri til að hafa áhrif á innheimtu meðlaga með ákvörðunum sem teknar eru í tengslum við almannatryggingakerfið, t.d. með breytingum á barnabótum o.fl. Með vísan til skýrslu Ríkisendurskoðunar um Innheimtustofnun sveitarfélaga megi einnig leiða líkur að því að rekstur stofnunarinnar hafi engan veginn verið fullnægjandi og hafi það leitt til þess að framlög til Jöfnunarsjóðs hafi verið hærri en ef reksturinn hefði verið í réttu horfi og þurfi að taka tillit til þess við ákvörðun um lækkun framlaga til sjóðsins. Nefndin óskaði eftir minnisblaði innviðaráðuneytisins með nánari skýringum á fjárhagslegri skiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna flutnings verkefnanna til ríkisins með hliðsjón af athugasemdum Sambands íslenskra sveitarfélaga og barst það nefndinni 3. maí 2023. Í minnisblaðinu kemur fram að horft hafi verið til meðaltals á greiðslum sjóðsins á tímabilinu 2012–2021, en að gert sé ráð fyrir því að rekstrarkostnaður verði að einhverju marki lægri en verið hefur hjá sveitarfélögum. Því hafi verið miðað við fjárhæð sem nemur 750 millj. kr. Þá koma einnig fram önnur sjónarmið, m.a. að ekki verði talið rétt að líta til sjónarmiða um tækifæri ríkisins til þess að hafa áhrif á innheimtu meðlaga til framtíðar, enda sé ekki hægt að ganga út frá því að ákvarðanir stjórnvalda leiði til hærra innheimtuhlutfalls. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til þeirra sjónarmiða sem fram koma í minnisblaði ráðuneytisins.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn leggur til breytingartillögur sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringar.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við c-lið 6. gr. bætist: og í stað orðsins „hann“ í sama málslið kemur: foreldrið.
     2.      1. tölul. 12. gr. orðist svo: Lög nr. 100/2007, um almannatryggingar:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 1. mgr. kemur: sýslumanni.
                      2.      2. mgr. fellur brott.
                      3.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Tilkynning til sýslumanns.
                  b.      Í stað orðanna „Innheimtustofnun sveitarfélaga“ í 1. mgr. 51. gr. laganna kemur: sýslumaður.

    Njáll Trausti Friðbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara um að í kostnaðarskiptingu frumvarpsins hefði þurft að koma betur til móts við sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Alþingi, 22. maí 2023.

Vilhjálmur Árnason,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Bjarni Jónsson.
Ingibjörg Isaksen. Orri Páll Jóhannsson. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir,
með fyrirvara.