Ferill 997. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1874  —  997. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um úthlutanir úr Kvikmyndasjóði.


     1.      Hver er fjárhæð vilyrða og veittra framleiðslustyrkja Kvikmyndasjóðs fyrir leikið sjónvarpsefni? Svar óskast sundurliðað eftir árunum 2015–2023.
    Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur umsjón með rekstri og starfsemi Kvikmyndasjóðs skv. 1. tölul. 3. gr. kvikmyndalaga, nr. 137/2001.
    Að undangengnu ferli innan Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fær umsækjandi um framleiðslustyrk vilyrði fyrir framleiðslustyrk áður en búið er að staðfesta öll skilyrði styrkveitingar. Vilyrði er því yfirlýsing um vilja til styrkveitingar að nánari skilyrðum uppfylltum sem umsækjandi þarf að sýna fram á. Gangi allt eftir í framvindu verkefnis er framleiðslustyrkur veittur á grundvelli vilyrðis, oft og tíðum ári síðar, vegna eðlilegrar framvindu í fjármögnun og þróun hins styrkta verkefnis.
    Eftirfarandi tafla sýnir fjárhæðir vilyrða og veittra framleiðslustyrkja úr Kvikmyndasjóði sundurliðað eftir styrkveitingarári á tímabilinu 2015–2023. Sá háttur er hafður á að ef til styrkveitingar kemur er eingöngu gerð grein fyrir fjárhæð styrks á úthlutunarári en ekki útgáfu vilyrðis, enda væri sú fjárhæð þá tvítalin. Þannig eru vilyrði ekki skráð í meðfylgjandi töflu hafi styrkur verið veittur á grundvelli þeirra síðar. Hafi vilyrði verið gefið út og ekki komið til styrkveitingar á grundvelli þess er gerð grein fyrir vilyrðinu miðað við ætlaðan upphafsdag framleiðslu.
    Taflan sýnir að á árinu 2023 hafa verið gefin út vilyrði vegna 255 millj. kr. styrkveitinga til verkefna sem ráðgert er að fari af stað í framleiðslu á því ári.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hvaða sjónvarpsstöð átti fyrst sýningarrétt þeirra verkefna sem hlotið hafa vilyrði eða framleiðslustyrk fyrir leikið sjónvarpsefni frá Kvikmyndasjóði? Svar óskast sundurliðað eftir árunum 2015–2023.
    Sömu forsendur gilda um framsetningu styrkja og vilyrða og áður kom fram. Þess skal getið að skv. 8. gr. reglugerðar nr. 229/2003, um Kvikmyndasjóð, eru tímabundin vilyrði og framleiðslustyrkir aðeins veittir sjálfstæðum framleiðendum sem hafa reynslu og/eða staðgóða þekkingu á kvikmyndagerð. Sjálfstæður framleiðandi er fyrirtæki sem hefur kvikmyndagerð að meginstarfi. Í sömu grein segir að skilyrði fyrir úthlutun til leikins sjónvarpsefnis sé að efnið sé ætlað til sýningar í sjónvarpi og sýningarréttur hafi verið tryggður í sjónvarpsstöð sem hafi umtalsverða dreifingu. Sjónvarpsstöðin má ekki vera með ráðandi eignarhlut á framleiðslunni, né heldur má hún vera með ráðandi eignarhlut í sjálfstæðu framleiðslufyrirtæki sem sækir um styrk vegna leikins sjónvarpsefnis, hvort sem litið er til eignaraðildar, hlutafjáreignar eða höfð hliðsjón af viðskiptalegri stöðu. Ráðandi eignarhlutur telst það vera þegar ein sjónvarpsstöð á meira en 25% hlut í framleiðslufyrirtæki (eða eignarhlutur tveggja eða fleiri sjónvarpsstöðva er 50% eða meiri) eða þegar meira en 90% af veltu framleiðslufyrirtækis á þriggja ára tímabili er afrakstur samstarfs við eina sjónvarpsstöð. Sýningarréttur skal renna aftur til framleiðanda innan sjö ára frá undirskrift samnings ef um forsölusamning er að ræða og innan 10 ára ef um samframleiðslusamning er að ræða.
    Því má hið styrkta verkefni ekki vera á viðskiptalegu eða listrænu forræði þeirrar fjölmiðlaveitu sem kann að gera samning um að taka efnið til sýningar. Forræði á verkefninu og staða framleiðanda við að hagnýta rétt til sýningar verður að liggja hjá framleiðanda, sem jafnframt er umsækjandi og styrkþegi. Þetta samhengi þarf að hafa í huga við mat upplýsinga um hvar sjónvarpsverk sem Kvikmyndasjóður styrkir er sýnt, þ.e. að við styrkveitingu er tekin afstaða til umsókna og lagt mat á hvort framleiðandi sé sjálfstæður gagnvart fjölmiðlaveitu, en styrkir eru ekki veittir til sýningaraðila né heldur er gert upp á milli slíkra aðila í málsmeðferð umsókna.
    Eftirfarandi tafla sýnir fjárhæð vilyrða og veittra framleiðslustyrkja 2015–2023 auk aðila sem kaupir sýningarrétt í sjónvarpi hérlendis:



















Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.