Ferill 857. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1878  —  857. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023–2027.

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Sú aðgerðaáætlun sem hér er til umfjöllunar er byggð á áður samþykktri þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Sú stefna tók þá mið af þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og þingsályktun um lýðheilsustefnu til ársins 2030. Að baki þessari þingsályktunartillögu liggja því að minnsta kosti þrjár þegar samþykktar þingsályktanir.
    Í aðgerðaáætluninni er fjallað um 27 nánar tilgreind verkefni og lagt til að heilbrigðisráðherra vinni að þeim verkefnum næstu fimm árin og að gert verði ráð fyrir verkefnunum í fjárlögum hvers árs. Jafnframt skuli uppfæra aðgerðaáætlunina árlega, líkt og tíðkast t.d. um fjármálaáætlun.
    Þjóðin veit að þörf er á aðgerðum til að bæta geðheilbrigðisþjónustu og það sem fyrst. Ítrekað hefur verið fjallað um hve erfitt það getur verið fyrir fólk með geðheilbrigðissjúkdóma að komast í rétt úrræði innan heilbrigðiskerfisins. Biðlistar eru langir, húsakostur úreltur og margir upplifa fordóma í núverandi kerfi. Því er afar mikilvægt að stjórnvöld hefjist handa sem fyrst við að efla geðheilbrigðisþjónustu. Brýnt er að þær aðgerðir sem miða að því að bæta aðgengi fólks að geðheilbrigðisþjónustu komi til framkvæmda sem fyrst. Til þess þarf fjármagn. 2. minni hluta er það minnisstætt þegar samþykkt voru lög um niðurgreiðslu sjúkratrygginga á sálfræðiþjónustu. Nánast samdægurs gaf fjármála- og efnahagsráðherra það út að lögin yrðu að öllum líkindum ekki fjármögnuð í komandi fjárlögum. Úr því rættist og það hefur verið viðvarandi verkefni stjórnarandstöðunnar að kalla eftir viðhlítandi fjármagni til niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu allar götur síðan.
    Hvernig er fjármögnun þeirra aðgerða sem hér er mælt fyrir um háttað? Samkvæmt samþykktri stefnu í geðheilbrigðismálum átti við gerð þessarar aðgerðaáætlunar að meta fjárhagsleg áhrif aðgerða. Ef litið er til annarra aðgerðaáætlana, svo sem stefnumótandi byggðaáætlunar eða aðgerðaáætlunar gegn hatursorðræðu, má sjá að þar er iðulega tiltekið kostnaðarmat fyrir einstakar aðgerðir. Það er ekki svo í þessari áætlun. Aðgerðir eru tilteknar, ábyrgðaraðilar tilgreindir en kostnaðarmatið vantaði inn í áætlunina þegar hún var lögð fram og rædd við fyrri umræðu. Nú fyrir skömmu, rúmum tveimur mánuðum eftir framlagningu áætlunarinnar, barst velferðarnefnd skjal frá heilbrigðisráðuneytinu með tímasettu kostnaðarmati einstakra aðgerða.
    Það má segja að öll umfjöllun um ágæti þeirra aðgerða sem boðaðar eru falli í skuggann af því sem kemur fram í kostnaðarmati heilbrigðisráðuneytisins. Samkvæmt því er aðeins gert ráð fyrir fjármagni vegna 10 af 27 aðgerðum í fjárlögum næsta árs. Ef tekið er tillit til þess að áætlunin verði uppfærð árlega héðan í frá, má í raun segja að þessi aðgerðaáætlun geri aðeins ráð fyrir að 10 af 27 aðgerðum verði fjármagnaðar, enda má vel vera að önnur áform falli niður eða frestist þegar aðgerðaáætlunin verður endurskoðuð á næsta ári.
    Af þeim 6,7 milljörðum kr. sem áætlað er að þurfi til að fullfjármagna allar 27 aðgerðir þessarar áætlunar gera stjórnvöld ráð fyrir að veita 657 millj. kr. fram að næstu kosningum. 90% fjármagnsins sem þarf til að ráðast í þær aðgerðir sem þessi áætlun fjallar um verður ekki tryggt af sitjandi ríkisstjórn. Geðheilbrigðismál eru mikilvæg og mega ekki sitja á hakanum fram að næstu kosningum.
    Ekki er hægt að fjalla um áætlun sem þessa án þess að taka tillit til þess hvernig ríkisstjórnin hefur gengið til verka við framfylgd annarra þingsályktana. Flokkur fólksins lagði fram þingsályktunartillögu um hagsmunafulltrúa eldra fólks á síðasta kjörtímabili. Tillagan var samþykkt á Alþingi árið 2021, en með henni var stjórnvöldum falið að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Ráðherra málaflokksins lét hjá liggja að stofna starfshóp um verkefnið þar til að upphaflegur skilafrestur starfshópsins samkvæmt ályktuninni var liðinn. Síðan bárust þær fregnir í vor að ráðherra ætlaði ekki að fylgja ályktuninni með því að leggja fram frumvarp. Það er með öllu ótækt að ríkisstjórnin fylgi ekki samþykktum ályktunum Alþingis. Það er eins með þá þingsályktunartillögu og þessa. Með henni felst engin trygging fyrir því að ráðist verði í umræddar aðgerðir. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa þegar sýnt það í verki að ályktanir þingsins eru aðeins tillögur í þeirra augum, en ekki tilmæli.

Alþingi, 30. maí 2023.

Guðmundur Ingi Kristinsson.