Ferill 1057. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1932  —  1057. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um ættleiðingu barna og stöðu barna þegar foreldri fellur frá.


     1.      Hversu margar umsóknir um stjúpættleiðingu eða frumættleiðingu hafa borist Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu ár hvert árin 2018–2022 þar sem annað blóðforeldrið er látið? Óskað er eftir sundurliðun eftir árum og aldri barna við umsókn ár hvert.
    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum og umsögn frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna fyrirspurnarinnar en sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fjallar um erindi vegna ættleiðinga á landsvísu og veitir leyfi til ættleiðingar og gefur út forsamþykki hér á landi vegna ættleiðingar erlends barns. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu bárust embættinu á árunum 2018–2022 alls ein umsókn um stjúpættleiðingu þar sem annað blóðforeldri var látið, alls fjórar umsóknir um frumættleiðingu þar sem annað blóðforeldrið var látið og ein umsókn um frumættleiðingu þar sem báðir blóðforeldrar voru látnir.
    Nánari sundurliðun sem óskað var eftir er eftirfarandi:

Tafla 1. Sundurliðun umsókna um stjúpættleiðingu eða frumættleiðingu árin 2018–2022 þar sem annað blóðforeldri var látið:

Ár Stjúpættleiðing Frumættleiðing Aldur barna þegar umsókn var lögð fram
2018 1 1 Fjögurra ára í báðum tilvikum
2021 0 1 Ellefu ára
2022 0 3 Fjögurra ára, átta ára og ellefu ára

     2.      Í hve mörgum tilvikum var leitað umsagna náinna skyldmenna og þá hverra?
    Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu var á árunum 2018–2022 leitað umsagna náinna skyldmenna í einu máli. Í því máli var leitað eftir afstöðu móðurömmu og -afa barns. Í öðru máli sem er enn í vinnslu hjá sýslumanni er samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni verið að afla upplýsinga um nánustu aðstandendur viðkomandi barns til þess að unnt sé að afla afstöðu þeirra. Fjórar umsóknir voru hins vegar afturkallaðar af hálfu umsækjenda og var þar af leiðandi ekki aflað umsagna í þeim tilvikum.

     3.      Hve mörgum umsóknum var hafnað og hversu margar voru samþykktar?
    Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu lauk einu máli af fyrrnefndum sex málum með útgáfu leyfis til ættleiðingar en í því máli var leitað afstöðu nánustu skyldmenna barnsins. Eins og áður hefur komið fram er eitt mál í vinnslu hjá embættinu og þá voru fjórar umsóknir afturkallaðar af hálfu umsækjenda.
     4.      Hversu margar umsóknir um stjúpættleiðingu eða frumættleiðingu eru óafgreiddar hjá embættinu þar sem annað eða báðir foreldrar eru látnir?
    Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu er í vinnslu hjá embættinu ein umsókn um frumættleiðingu þar sem báðir kynforeldrar eru látnir en umsóknin barst árið 2022.

     5.      Hefur ráðherra sett skýrar verklagsreglur fyrir sýslumenn til þess að vinna eftir, sbr. 46. gr. b laga nr. 76/2003, og tryggja þannig og vernda réttindi barnsins til framtíðar? Ef ekki, má vænta þess að slíkar verklagsreglur verði settar?
    Hinn 1. janúar 2022 tók gildi ný reglugerð, sbr. reglugerð nr. 1450/2021 um ráðgjöf, sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns á grundvelli barnalaga, nr. 76/2003. Í VII. kafla reglugerðarinnar er fjallað um ráðgjöf skv. 46. gr. b barnalaga, nr. 76/2003. Er þar kveðið á um ráðgjöf á grundvelli ákvæðisins, markmið með ráðgjöf, hver veitir ráðgjöf og framkvæmd og umfang ráðgjafar.