Ferill 1026. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1950  —  1026. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um eftirlit með sölu áfengis.


     1.      Hver ber ábyrgð á eftirliti með því hvort starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins samræmist áfengislögum, nr. 75/1998?
    Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, annast lögregla, tollgæsla og skattyfirvöld eftirlit með þeim sem hafa leyfi til atvinnustarfsemi samkvæmt lögunum.

     2.      Hversu oft hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins gerst brotleg við 18. gr. áfengislaga?
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra eru engar skráningar um brot af því tagi sem fyrirspurnin varðar í miðlægum gagnagrunni lögreglu, LÖKE.

     3.      Hvaða viðurlög eru við því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins gerist brotleg við 18. gr. áfengislaga?
    Brot gegn áfengislögum eða reglum settum samkvæmt þeim varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum, sbr. 27. gr. laganna. Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara, RS: 3/2021, um brot sem ljúka má með lögreglustjórasekt, skal sekt vegna brota á 1. mgr. 18. gr. áfengislaga ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 20.000–100.000.

     4.      Hvaða skyldur hvíla á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins samkvæmt áfengislögum sem handhafa einkaleyfis á smásölu áfengis?
    Lögin í heild leggja ákveðnar skyldur á áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
    Samkvæmt 12. gr. áfengislaga er sérstaklega fjallað um skyldur smásöluleyfishafa og að þeir skuli ábyrgjast fullnægjandi öryggis- og eftirlitsbúnað húsnæðis þess sem hýsa á útsölustaðinn, afmörkun og aðgreiningu húsnæðis og rekstrar frá öðrum verslunarrekstri, sem og hámarksafgreiðslutíma. Ráðherra kveður nánar á um hámarksafgreiðslutíma og sérstök skilyrði varðandi smásöluleyfi í reglugerð. Um það er fjallað í reglugerð nr. 177/1999 um smásölu og veitingar áfengis.
    Þá fjalla enn fremur lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, um skyldur sem lagðar eru á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

     5.      Hvaða skilyrði þarf Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að uppfylla um reksturinn samkvæmt áfengislögum?
    Um skilyrði fyrir rekstri er fjallað í 11. og 12. gr. áfengislaga. Þá eru nánari skilyrði að finna í 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 177/1999. Þar kemur einnig fram að sveitarstjórnir geta bundið veitingu smásöluleyfis ákveðnum skilyrðum um staðsetningu, afgreiðslutíma og önnur málefnaleg atriði.
    Þá fjalla enn fremur lög um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, um skilyrði sem lögð eru á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

     6.      Hvernig hafa sveitarfélög eftirlit með því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ræki skyldur sínar og uppfylli skilyrði sem um reksturinn gilda samkvæmt áfengislögum?
    Þær upplýsingar sem óskað er eftir liggja ekki fyrir og reyndist ekki unnt að taka þær saman vegna þess tíma sem það tæki

     7.      Hversu oft hefur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins fengið áminningu skv. 25. gr. áfengislaga? Hvenær voru þessar áminningar gefnar út og af hvaða sveitarfélögum?
    Sama svar og við 6. tölul. fyrirspurnarinnar.

     8.      Hvernig er eftirliti sveitarfélaga með skilyrðum fyrir smásöluleyfi vegna áfengisútsölu háttað?
    Sama svar og við 6. tölul. fyrirspurnarinnar.

     9.      Hversu oft hefur leyfisveitandi afturkallað smásöluleyfi vegna áfengisútsölu skv. 24. gr. áfengislaga? Hvenær voru þessi leyfi afturkölluð og hvaða leyfisveitandi afturkallaði þau?

    Sama svar og við 6. tölul. fyrirspurnarinnar.