Ferill 952. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1975  —  952. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um tekjuskatt (eftirlitsheimildir, endurgreiðsla og séreignarsparnaður).

Frá Kristrúnu Frostadóttur.


    Við 5. gr. bætist nýr stafliður, b-liður, svohljóðandi: Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Falli íbúðarhúsnæði undir lög um almennar íbúðir skal endurgreiða byggjendum þess 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað.

Greinargerð.

    Hér er lagt til að vinna manna við nýbyggingu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir lög um almennar íbúðir verði undanþegin þeirri lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts sem lögð er til í frumvarpinu. Endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu manna við nýbyggingu almennra íbúða verði þannig áfram 60%. Tilgangur breytingarinnar er að styðja við óhagnaðardrifin leigufélög og viðhalda hvata til byggingar leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða fjárhagsvanda.