Ferill 825. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2013  —  825. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur um lögbundna þjónustu sveitarfélaga í skólum fyrir einhverf börn og önnur fötluð börn.


     1.      Hvaða skylda hvílir á sveitarfélögum til að styðja sérstaklega við einhverf börn á skólagöngu þeirra og hvernig eiga sveitarfélög að framkvæma þá skyldu?
    Um málefni barna með sérþarfir er fjallað í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Í 22. gr. laga um leikskóla segir að börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun eigi rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans. Þjónusta þessi á að fara fram undir handleiðslu sérfræðinga samkvæmt ákvörðun leikskólastjóra og skólaþjónustu í samráði við foreldra. Í 17. gr. laga um grunnskóla segir að nemendur eigi rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.
    Í reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum, nr. 444/2019, er fjallað um skyldur sveitarfélaga og réttindi nemenda til að njóta menntunar við hæfi hvers og eins. Hluti af skyldum sveitarfélaga gagnvart skólaþjónustu samkvæmt reglugerðinni snýr beint að stuðningi við nemendur á þessum skólastigum en einnig að stuðningi við starfsfólk leik- og grunnskóla og starfsemi skóla. Í reglugerðinni kemur einnig fram að fræðsluyfirvöld í hverju sveitarfélagi skuli fylgjast með og stuðla að því að nemendum og skólum sé tryggður aðgangur að skólaþjónustu. Jafnframt ber sveitarfélögum að gera sérstaklega ráð fyrir rými í leik- og grunnskólum til að veita skólaþjónustu þegar á þarf að halda vegna nemenda með sérþarfir, stuðnings og þjálfunar, óháð því hver veitir þjónustuna.
    Í reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskóla, nr. 585/2010, er enn fremur fjallað um rétt nemenda með sérþarfir og skyldur sveitarfélaga og skóla. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að allir nemendur fái jöfn tækifæri á eigin forsendum til náms og virkrar þátttöku í grunnskólum án aðgreiningar þannig að komið sé til móts við náms-, líkams-, félags- og tilfinningalegar þarfir þeirra. Í reglugerðinni kemur fram að skólastjóri beri ábyrgð á að mat á sérþörfum og skipulagning stuðnings fari alltaf fram í samráði við foreldra og kennara og að skóli skuli gera áætlun um stuðning í námi og kennslu í samræmi við metnar þarfir nemenda.
    Einhverf börn og aðrir fatlaðir nemendur eiga þannig skýran rétt á að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í skóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Einnig er gert ráð fyrir að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur miðað við aldur þeirra og þroska og að þeim sé veitt aðstoð þar sem tekið er tillit til sérþarfa þeirra og aldurs og að þeir geti nýtt sér viðeigandi samskiptamáta.
    
     2.      Hvernig er velferð einhverfra barna og annarra fatlaðra barna tryggð í skólum með lögbundinni þjónustu sveitarfélaga?
    Sveitarfélög, leik- og grunnskólar, skólaþjónusta og skólastjórnendur bera ábyrgð á því að velferð allra barna sé tryggð í starfsemi leikskóla og grunnskóla, þ.m.t. einhverfra barna og annarra fatlaðra barna. Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu eða eru vistuð hjá fósturforeldrum sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, njóti menntunar við hæfi, öryggis og velferðar og fái sérstakan stuðning í skólastarfi í samræmi við metnar sérþarfir þeirra í samræmi við lög og reglugerðir þessara skólastiga.
    Sveitarfélögum ber að tryggja að viðeigandi skólaþjónusta sé veitt í leik- og grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan skóla. Sveitarfélög bera ábyrgð á að þjónustan sé veitt og kostnaði við hana og ber sveitarfélögum að mæla fyrir um það í skólastefnu sinni hvernig markmiðum skólaþjónustu sinnar verði náð. Við framkvæmd skólaþjónustu eiga sveitarfélög m.a. að leggja áherslu á forvarnastarf til að stuðla markvisst að velferð nemenda, snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf vegna námsvanda, félagslegs og sálræns vanda með áherslu á að nemendur fái kennslu og stuðning við hæfi í skólum án aðgreiningar og að skólaþjónusta mótist af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda, óháð starfsstéttum sérfræðinga og hver veitir þjónustuna.
    Fræðsluyfirvöldum ber að hafa eftirlit með því að komið sé til móts við þarfir nemenda með innra og ytra mati á starfsemi skóla. Skólanefnd á, í umboði sveitarstjórnar, að hafa eftirlit með því að skólastarf í skólum samræmist lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Við eftirlit eiga sveitarfélög að styðjast við margs konar gögn, svo sem tölulegar upplýsingar, skólanámskrá, innra mat, starfsáætlun og skólastefnu sveitarfélagsins, eftir því sem við á. Jafnframt skal skólanefnd sjá til þess að áætlanir um nauðsynlegar umbætur í kjölfar ytra mats séu gerðar og þeim fylgt eftir. Komi fram vísbendingar um að skóli fari ekki að lögum og sinni ekki lögbundnum skyldum sínum á skólanefnd að ganga úr skugga um hvort rétt sé og sjá til þess að viðeigandi úrbætur séu gerðar ef þess er þörf.
    Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, tóku gildi 1. janúar 2022. Markmið laganna er að allt samstarf vegna þjónustu við börn fari í skýran farveg og að öll börn og foreldrar þeirra sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Þjónustan nær til þjónustuveitenda hvort sem hún er veitt á vettvangi ríkis og sveitarfélaga og tekur til þjónustu sem er veitt innan alls skólakerfisins. Á þjónustuveitendum hvíla ríkar skyldur samkvæmt farsældarlögunum, en þeim ber t.d. að taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt og bregðast við slíkum vísbendingum strax með tilteknum hætti svo að þjónustuveitendur geti unnið sem best saman, með áherslu á snemmtæka nálgun.
    Rétt er að fram komi að nú stendur yfir vinna við ný heildarlög um skólaþjónustu. Eitt af markmiðum vinnunnar er að tryggja börnum viðeigandi, fullnægjandi og tímanlegan stuðning þar sem skólaþjónusta er heildstæð og samþætt í þágu farsældar barna. Meðal þess sem þar er litið til er að skólaþjónusta geti stutt við og eflt skilning og þekkingu foreldra, skóla og frístundar á taugafjölbreytni.
    
     3.      Hvernig fylgir ráðuneytið því eftir að þessi þjónusta sé hnökralaus, að hagur barnsins sé í fyrirrúmi og að komið sé til móts við barnið?
    Ráðuneytið fer með almennt yfirstjórnar- og eftirlitshlutverk með því að sveitarfélög sinni skyldum sínum á þeim málefnasviðum sem heyra undir það. Framkvæmd þess getur m.a. farið fram með ytra mati, greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í leik- og grunnskólum á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum og með sjálfstæðri gagnaöflun.
    Hvað varðar framkvæmd, málsmeðferð og hvernig ráðuneytið getur fylgt því eftir að þjónustan sé hnökralaus og í samræmi við ákvæði laga um leik- og grunnskóla þá getur ráðuneytið, auk eftirlits, kveðið upp úrskurð í málum sem því berast á grundvelli laga viðkomandi skólastiga þar sem ákvarðanir skóla sem snúa að réttindum og skyldum nemenda eru kæranlegar til ráðuneytisins. Ráðuneytinu er t.d. heimilt á grundvelli 47. gr. laga um grunnskóla að mæla nánar fyrir um fyrirkomulag skólavistar nemenda og skyldur sveitarfélags í því efni.
    Ráðuneytið fer með almennt yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverk með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála fer jafnframt með sérstakt eftirlitshlutverk þegar kemur að gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli laganna og er m.a. hægt að beina þangað kvörtun yfir gæðum samþættrar þjónustu.