Ferill 894. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 2019  —  894. mál.
Leiðréttur texti.

Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti áætlun þessa fyrr í vor voru viðbrögðin heldur dræm. Enda skyldi engan undra. 424 blaðsíðna áætlun til fimm ára sem svarar í engu þeim efnahagsvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Nú hefur fjárlaganefnd fjallað um áætlunina í rúman mánuð og haldið fjölda nefndarfunda með fulltrúum ráðuneytanna, annarra stjórnvalda og helstu umsagnaraðila. Hver er niðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar eftir alla þessa vinnu og í ljósi þróunar í efnahagsmálum undanfarnar vikur? Hún er sú að fjármálaáætlun skuli samþykkja án nokkurra breytinga.

Verðbólga og viðbrögð ríkisstjórnarinnar.
    
Áhrif verðbólgu og hárra vaxta eru farin að hafa gífurlega neikvæð áhrif á allt samfélagið. Ráðstöfunartekjur heimilanna gufa upp og húsnæðislán hafa stökkbreyst vegna vaxtaþróunar. Strax á vormánuðum 2020 kölluðu þingmenn Flokks fólksins eftir forvarnaaðgerðum ríkisstjórnarinnar þar sem sýnilegt væri að verðbólgan væri handan við hornið og nauðsynlegt að verja heimilin með öllum ráðum áður en það væri of seint. Þingmenn Flokks fólksins kölluðu eftir fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir hörðustu áhrif verðbólgunnar. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hirtu í engu um varnaðarorðin heldur virtu þau að vettugi. Ríkisstjórnin taldi litlar sem engar líkur á því að verðbólgan færi vaxandi í nánustu framtíð heldur þvert á móti væri hér allt í góðu jafnvægi svo langt sem augað eygði. Annað kom á daginn. Vísitala neysluverðs hækkaði jafnt og þétt í gegnum COVID-árin og jókst svo gífurlega á síðasta ári. Frumvörp Flokks fólksins um frystingu verðtryggðra lána, vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar og afnám verðtryggingar hafa ekki hlotið náð fyrir augum stjórnvalda og er það miður fyrir samfélagið í heild.
    Frá áramótum hefur verðbólgan haldist yfir 9,5% og fór hæst í 10,2% í febrúar. Þegar fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 var lögð fram í lok mars 2023 stóð verðbólgan í 9,8% og meginvextir Seðlabanka Íslands í 7,5% eftir að hafa verið hækkaðir tvisvar frá áramótum, fyrst 8. febrúar um 50 punkta og aftur 22. mars um 100 punkta. Á fyrsta ársfjórðungi 2023 mældist ársvöxtur útlána lánakerfisins 11,3% og ársvöxtur peningamagns í umferð um 9,0%. Þann 24. maí hækkaði Seðlabanka Íslands stýrivexti sína enn einu sinni og nú um 125 punkta og standa þeir í 8,75% og verðbólgan mælist 9,5%. Á sama tímabili hafa spár um þróun verðbólgu orðið svartsýnni. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands 24. maí 2023 var spáð 8,8% verðbólgu á þessi ári og hafði þá hækkað úr 7,2% eða um 1,6% frá síðustu útgáfu Peningamála 8. febrúar. Samkvæmt nýjustu spám er búist við að verðbólgan nálgast ekki verðbólgumarkmið fyrr en árið 2025.
    Viðskiptabankarnir hafa á sama tímabili fylgt vaxtahækkunum Seðlabanka Íslands eftir í nokkurn veginn sama takti, en sem dæmi voru breytilegir grunnvextir óverðtryggðra íbúðalána hjá Landsbankanum 7,5% um áramót en nema nú 10,25% og hafa hækkað um 2,75 prósentur líkt og meginvextir Seðlabanka Íslands. Fyrir dæmigert 50 milljóna kr. íbúðalán hafa þessar vaxtahækkanir í för með sér aukningu á mánaðarlegri greiðslubyrði um 114.583 kr. á aðeins fimm mánuðum.
    Hinn 5. júní birtist fréttatilkynning á vef Stjórnarráðsins með fyrirsögninni „Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu“. Í fréttinni kom fram upptalning á ýmsum aðgerðum, svo sem 2,5% hækkun fjárhæða almannatrygginga, aukin stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða og afkomubætandi aðgerðir að umfangi 36,2 ma.kr. Fjölmiðlar bitu á agnið og birtu fullyrðingar Stjórnarráðsins nánast orðrétt úr fréttatilkynningunni. Það er miður, enda kemur í ljós við nánari skoðun að „aðgerðapakkinn“ er um nánast ekki neitt.
    Ríkisstjórnin hafði þegar tilkynnt nánast allar aðgerðir við framlagningu fjármálaáætlunar í mars, ef frá er talin viðbót við stofnframlög á yfirstandandi ári. Aðhaldsaðgerðir voru nánast allar tilgreindar í greinargerð við fjármálaáætlun, nánar tiltekið á blaðsíðu 56. Forsætisráðherra hafði tilkynnti um leiðréttingu almannatrygginga þegar fjármálaáætlun var kynnt fjölmiðlum í mars, en aðeins átti eftir að ákveða prósentustig hækkunarinnar. Enda staðfesti meiri hluti fjárlaganefndar hversu innihaldstómur aðgerðapakkinn er í raun með því að leggja til að fjármálaáætlunin verði samþykkt óbreytt.
    Fjármálaáætlun hefur mikilvægu hlutverki að gegna í baráttunni við verðbólguna. Traustvekjandi fjármálaáætlun sem boðar raunverulegar aðgerðir getur haft jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar markaðsaðila strax í dag, þó hún komi ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Því er það miður að ríkisstjórnin hafi ekki brugðist við efnahagsástandinu með aðgerðum sem skila raunverulegum árangri.

Endurskoðun almannatrygginga.
    Lengi hefur ríkisstjórnin lofað endurskoðun á lögum um almannatryggingar með það að markmiði að bæta stöðu öryrkja. Viðræður þess efnis sigldu í strand á síðasta kjörtímabili en þegar ríkisstjórnin kynnti nýjan stjórnarsáttmála síðla árs 2021 var því lofað að endurskoðunin næði loks fram að ganga. Því miður hefur vinnan dregist og ráðherra málaflokksins frestaði framlagningu frumvarps um endurskoðun greiðslukerfis örorku sem átti að berast þinginu í mars.
    Þó hefur dregið til tíðinda hvað varðar fjármögnunina. En gert er ráð fyrir því að fjárheimild málaflokksins verði aukin um rúma 16 ma.kr. á ársgrundvelli vegna heildarendurskoðunar örorkulífeyriskerfisins. Að vísu er greinargerð fjármálaáætlunar margsaga um fjármögnun verkefnisins. Á blaðsíðu 56 segir að nettóaukning útgjalda vegna kerfisbreytingar verði 8 ma.kr. en svo segir á blaðsíðu 71 að varanlegur kostnaður við nýtt kerfi sé áætlaður 16,5 ma.kr. frá og með árinu 2028 þegar kerfisbreytingar verða að fullu komnar fram. Annar minni hluti hyggst ekki fjalla um hvort umrædd fjármögnun vegna kerfisbreytinganna sé til þess fallin að ná tilsettu markmiði, í ljósi þess að ekki liggur fyrir hvernig kerfisbreytingin verður útfærð. Hins vegar telur 2. minni hluti þörf á að tryggja verkefninu fjármagn strax á næsta ári. Öryrkjar hafa beðið áratugum saman eftir heildarendurskoðun. Frekari tafir eru einfaldlega ekki í boði. Ef ekki verður hægt að ganga til verka strax á næsta ári þá leggur 2. minni hluti til að fjármagnið verði nýtt til að hækka lágmarksframfærslu almannatrygginga þangað til endurskoðunin kemur til framkvæmda.

Tillögur til úrbóta.
    Annar minni hluti getur ekki stutt fjármálaáætlun að óbreyttu. Þörf er á frekari aðgerðum til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu. Því eru lagðar til nokkrar breytingar á tekju- og gjaldahlið með það markmið að sporna gegn verðbólgu og vernda viðkvæma þjóðfélagshópa. Á tekjuhliðinni er lagt til að bankaskattur verði hækkaður í fyrra horf og að veiðigjald verði hækkað svo að þjóðin fái sanngjarnt endurgjald fyrir afnot af sjávarauðlindinni. Á gjaldahliðinni er lagt til að fjármögnun vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins verði flýtt um eitt ár, aukin framlög til geðheilbrigðismála og endurhæfingarúrræða vegna fíknisjúkdóma og lagt er til að stofnframlög til uppbyggingar á hagkvæmum íbúðum verði tvöfölduð út gildistíma fjármálaáætlunar. Heildarumfang útgjaldatillagna er 62,6 ma.kr. á gildistíma fjármálaáætlunar en breytingartillögur á tekjuhlið skila ríkissjóði auknum tekjum um sem nemur 80 ma.kr. á gildistíma fjármálaáætlunar. Nettóáhrifin á ríkissjóð eru jákvæð um sem nemur 17,4 ma.kr.

Alþingi, 7. júní 2023.

Sigurjón Þórðarson.